Ævintýrakonur Dóru S Bjarnason

Dóra S Bjarnason

Dóra S Bjarnason hefur skrifað sögu þriggja kvenna sem tengdust henni fjölskylduböndum. Sagan heitir Brot – konur sem þorðu og er gefin út af Bókaforlaginu Benedikt.  Þetta eru þrjár kynslóðir baráttu- og ævintýrakvenna. Sú elsta, Þjóðverjinn Elisa Adeline Rittershaus giftist afa Dóru Þorleifi H Bjarnasyni en þau kynntust þegar hann var í námi ytra. Þau eignuðust dótturina Ingibjörgu St.H. Bjarnason sem eignaðist einnig eina dóttur, Veru Zilzer. Adeline var bráðgáfuð kona sem sætti sig ekki við að konum væri meinaður aðgangur að helstu menntastofnunum álfunnar. Hún kom með Þorleifi til Íslands en undi sér ekki hér og flutti aftur til Þýskalands ófrísk að barni þeir

Adeline ól dóttur í Zürich þann 1. Febrúar árið 1901. Hún gaf henni nafnið Ingibjörg H. (Hákonardóttir) í höfuðið á mágkonu sinni, alþingiskonunni. Sama ár skildi hún við Þorleif og lauk doktorsritgerð sinni hinni meiri, „habiliteraði“, sem var forsenda þess að fá vinnu sem háskólakennari í Þýskalandi. Fyrst sótti hún um starf við Háskólann í Bonn. Þar var henni hafnað við heimspekideildina, með sextán atkvæðum gegn fjórtán, á þeirri forsendu að hún væri kona enda þótt hún hefði verið metin nógu sterk faglega. Hið sama gerðist þegar hún nokkru síðar sótti um annað sambærilegt háskólastarf í Þýskalandi.

Það endaði þó með því að Adeline fékk starf  sem „prívatdósent“ við Háskólann í Zürich, þá 34 ára gömul.  Dóttir hennar Ingibjörg ólst upp hjá móður sinni og lagði stund á myndlist, meðal annars í París. Hún eignaðist dóttur með manni af Gyðingaættum, sem varð meðal annars til þess að hún flutti með hana heim til Íslands þegar Nasistar komust til valda í Þýskalandi.

Vonandi fengu þær Ingibjörg og Vera litla gott í sjóinn á ferðinni yfir hafið með Dettifossi, einu besta farþegaskipi landsins. Þær hafa vafalaust vakið athygli, mæðgurnar á fyrsta farrými, þegar þær gengu niður landganginn. Ingibjörg óaðfinnanlega snyrt og greidd, með hatt og íklædd Parísartísku og litla Vera spariklædd eins og lítil kona í ökklasíðri ullarkápu. Þann 19.ágúst 1933 var bærilegt veður í Reykjavík, sæmilega hlýtt, heiðskírt og norðan kaldi en lægði næstu daga. Líklega hefur mæðgunum samt þótt kuldalegt um að litast.

Sú venja hafði skapast að bæjarbúar flykktust niður á höfn þegar farþegaskip lögðu að landi í Reykjavík. Fjölskyldan í Tjarnargötu 18 hefur áreiðanlega tekið á móti þeim mæðgum á hafnarbakkanum ásamt forvitnum hópi bæjarbúa. Fregnin af komu þeirra hefur flogið um bæinn á örskömmum tíma.

Hvernig ætli Reykjavík hafi komið þeim mæðgum fyrir sjónir? Vera, 6 ára, hafði hlakkað mikið til að koma til Íslands og hitta afa sinn og allt fólkið hans. Hún, sem hafði alist upp við fjallavötn og aldingarða undir Ölpunum, í frönskum og þýskum sveitaþorpum, heimavistarskólum og í stórborgum, þvílík viðbrigði að standa nú í gjólunni og sjá óhrjálegu kumbaldana við höfnina og dökkklædda fólkið á hafnarbakkanum sem starði á þær alvarlegt á svip. Þorleifur hafði verið veikur, og var farin að mæðast, tæplega sjötugur. Líklega var hann ólíkur þeim afa sem hún hafði gert sér í hugarlund. Mamma Sigrún 58 ára, röggsöm og fín í tauinu, á dönskum kjól, í dökkri kápu, með slörhatt og hanska. Ætli þær hafi talað saman á Íslensku? Mér vitanlega talaði Sigrún ágæta dönsku, en hvorki  þýsku né ensku. Ætli Þorleifur hafi pantað leigubíl frá Steindóri til að flytja þær þennan stutta spöl að Tjarnargötunni eða ætli hersingin hafi gengið þangað eftir holóttum moldargötum? Hvað ætli Ingibjörg hafi hugsað? Hún hafði aldrei áður komið til Reykjavíkur en sennilega séð einhverjar myndir þaðan. Móðir hennar hafði gefist upp á bænum og bæjarbragnum áður en hún fæddist. Líklega hefur hún velt fyrir sér draumnum og framtíðinni í þessum smábæ. Var þetta góð ákvörðun, gætu þær þrifist í þessu einsleita, kalda landi?

Ritstjórn nóvember 22, 2019 09:56