Benedikt Gröndal var aðalsöguhetjan í bókinni Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson. Guðmundur Andri dró þar upp afar nærfærna og fallega mynd af skáldinu. Á þriðjudaginn ætlar Guðrún Egilsson íslenskufræðingur að flytja fyrirlestur um Benedikt á vegum Háskóla þriðja æviskeiðsins. Hann verður í Hæðargarði 31 klukkan 17 og er hluti af fyrirlestrarröðinni Merkir Íslendingar. Það eru næstum tvær aldir liðnar frá því Benedikt leit fyrst dagsins ljós á Bessastöðum á Álftanesi, en foreldrar hans voru Sveinbjörn Egilsson rektor og Helga Gröndal húsfreyja. Benedikt gekk menntaveginn og fór til Kaupmannahafnar til náms, en lauk ekki háskólaprófi.
Fékk starf og gat gifst
Árið 1867 kynnist Benedikt tilvonandi eiginkonu sinni Ingigerði Zoega. Í fyrstu var reynt að stía þeim í sundur m.a. af Ingibjörgu Einarsdóttur og Jóni Sigurðssyni. Hvort það var út af 20 ára aldursmun þeirra eða vantrausti á Benedikt skal ósagt látið en víst er að þau höfðu engin efni á að stofna til hjúskapar. Þá losnar óvænt kennaraembætti við
Lærða skólann í Reykjavík og Benedikt fær stöðuna. Benedikt lagði sig fram við kennsluna og var vel þokkaður af nemendum. Þau hjón eignuðust 3 dætur. En þar kemur að þau missa tvær af dætrunum með stuttu millibili og tveimur árum síðar lést svo Ingigerður einungis 36 ára að aldri.
Hafði mikinn áhuga á náttúrufræði
Upp úr því lagðist Benedikt í alvarlegt þunglyndi, gerðist óreglusamur og hætti að sinna kennslustörfunum sem skyldi og var á endanum vikið úr starfi árið 1883. Á næstu árum vann hann við ýmislegt til að hafa í sig og á. Benedikt hafði alla tíð haft mikinn áhuga á náttúrufræði og hafði meðan hann kenndi við lærða skólann safnað alls kyns dýrum sem hann svo teiknaði og litaði, en hann var mjög drátthagur maður. Árið 1889 var Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnað í því skyni m.a. að koma upp náttúrugripasafni og lá beinast við að ráða hann sem forstöðumann sem var og gert. Hélt hann þeim starfa fram til ársins 1901, er hann hætti fyrir aldurs sakir.
Dægradvöl hans meistarastykki
Allt undir það síðasta hélt Benedikt áfram að skrifa bæði sögur, ljóð og greinar. Seint á níunda áratug 19 aldar skrifaði hann kjarnmiklar greinar þar sem hann mótmælti vesturferðum Íslendinga og lenti í miklum ritdeilum út af því. Á þessum árum var hann einnig að skrifa sjálfsævisögu sína Dægradvöl, sem margir telja hans meistarastykki. Sögur eins og Heljarslóðarorrusta eiga sér nánast enga hliðstæðu í íslenskri bókmenntasögu.