Ekki horfa of stíft í baksýnisspegilinn!

Bara ef, nýjasta skáldsaga Jónínu Leósdóttir er saga í léttum dúr um tvö pör af ólíkum kynslóðum – hjón um sextugt, dóttur þeirra og sambýlismann hennar. Þegar sagan hefst hefur eldri karlinn nokkuð óvænt og skýringalaust krafist skilnaðar frá eiginkonunni. Staðan er sömuleiðis flókin hjá yngra parinu. Ungi maðurinn á þrjú börn úr fyrra sambandi, sem hann á fullt í fangi með að sinna, en sambýliskonan þráir að eignast barn.

Að horfa of stíft í baksýnisspegilinn

Jónína lýsir meginviðfangsefni bókarinnar þannig:

Mig langaði að fjalla um þá tilhneigingu fólks að leyfa fortíðinni að skyggja á nútíðina. Ég nota sögnina að leyfa mjög meðvitað í þessu sambandi, því við höfum heilmikið val um hversu stíft við horfum í baksýnisspegilinn.  Auðvitað getur verið fróðlegt að líta um öxl og það er mikilvægt að læra af fortíðinni – en það er dapurt þegar fullorðið fólk skýlir sér endalaust bak við eitthvað sem er búið og gert, notar það sem afsökun. Við vitum heldur ekki hvernig líf okkar hefði þróast ef aðstæður hefðu verið öðruvísi eða við tekið aðrar ákvarðanir. Þess vegna er í besta falli tilgangslaust og í versta falli skaðlegt að burðast með mikið „bara ef ég hefði“ í farteskinu.“

Ýtti Jónínu fram af klettabrún

Jónína segist hafa verið komin yfir fimmtugt þegar hún hafði loks aðstæður til að snúa sér alfarið að því að skrifa bækur og leikrit. Það hafi verið langþráður draumur sem eiginkona hennar hafi stutt hana í að gera að veruleika.

„ Það má eiginlega segja að hún hafi ýtt mér fram af klettabrún en jafnframt staðið með öryggisnet fyrir neðan. Ég var ákveðin í að nýta þetta tækifæri vel, enda er fólk á sextugsaldri meðvitað um að það hefur ekki endalausan tíma til stefnu. Þess vegna byrjaði ég strax að skrifa af miklum krafti. Árið 2007 komu út tvær bækur eftir mig og síðan hefur þetta verið ein bók á ári“.  Jónína segist vakna glöð á hverjum einasta morgni, full tilhlökkunar að takast á við vinnuna, sem séu gífurleg forréttindi. Laun rithöfunda séu hins vegar ekki uppá marga fiska. „Þegar bók er tekin að láni á bókasafni fær höfundurinn til dæmis aðeins sautján krónur í sinn hlut. Ritstörf færa fólki því sjaldnast veraldlegan auð þótt starfið sé gefandi fyrir sálina,“ segir hún.

Sumir aldrei sáttir

Mannleg samskipti – í öllum sínum fjölbreytileika – eru helsta áhugamál Jónínu og efniviður. Sögurnar byrja því oft út frá einhverju sem hún hefur velt fyrir sér við að fylgjast með fólki í kringum sig, bæði einstaklingum sem hún þekkir og fólki sem fjallað er um eða rætt við í fjölmiðlum. „Í nýju skáldsögunni – Bara ef … – velti ég til dæmis fyrir mér hvers vegna sumir eru aldrei sáttir, þurfa alltaf að eignast meira og finnst grasið ávallt grænna handan girðingarinnar“, segir hún. „Slík krónísk óánægja getur virkað nokkuð sjúkleg og stundum virðist mega rekja þetta til þess að fullorðnir einstaklingar séu að reyna að bæta sér upp eitthvað sem þeim fannst þeir fara á mis við í æsku. Þetta fannst mér athyglisvert umfjöllunarefni í skáldsögu.“

Fyrsta erlenda þýðingin

Bók Jónínu um samband þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur kemur út í Danmörku í lok nóvember og er hún fyrsta erlenda þýðing bókarinnar sem lítur dagsins ljós. Það eru í gangi einhverjar „þreifingar“ segir Jónína, en samningar um frekari þýðingar hafa ekki verið undirritaðir. En hvernig tilfinning er það að vera nánast orðin heimsfræg fyrir að hafa verið annar helmingur fyrsta lesbiska forsætisráðherraparsins í veröldinni?

„Æ, þetta er nú ekki hluti af sjálfsmyndinni“, segir Jónína, „og mér finnst hálfvandræðalegt þegar ég er kynnt fyrir útlendingum sem maki fyrsta samkynhneigða þjóðarleiðtoga í heimi.

Er alsæl með að vera rithöfundur

En hún segist skilja að fólki finnist þetta forvitnilegt.

 

Þetta er ákveðinn fréttapunktur. Og ég veit að þegar Jóhanna varð forsætisráðherra þótti það stórfrétt í löndum þar sem samkynhneigð manneskja gæti ekki komist til æðstu valda. Mér fannst verra þegar mér var lögð þessi skilgreining í munn í erlendu blaðaviðtali snemma á þessu ári, eins og ég hefði talað um sjálfa mig sem ráðherrafrú. Þá fékk ég hroll. Því ég upplifði þetta aldrei sem neitt sérstakt hlutverk. Ég er miklu meira en alsæl með að vera rithöfundur og hef enga þörf fyrir aðra merkimiða.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 15, 2014 14:26