Afar og ömmur gæta barna hinna tekjuháu

„Það vantar fleiri rannsóknir á högum eldra fólks.Við þurfum að spyrja fólk þannig öðlumst við bestu þekkinguna. Við þurfum að hlusta, draga ályktanir og skrifa. Á þann hátt búum við til nýja þekkingu,“ segir Ingibjörg H. Harðardóttir sálfræðinur og lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands. „Frá því ég fór að kenna sálfræði fyrst í Þroskaþjálfaskólanum, síðan í Kennaraháskólanum og loks á menntavísindasviði Háskóla Íslands hef ég allar götur kennt þroskasálfræði. Ég hef  lagt áherslu á að það yrði fjallað um allt æviskeiðið en ekki eins og flest námskeið í þroskasálfræði sem fjalla einungis um fyrstu árin og enda á unglingsárunum líkt og það gerist ekkert í þroska mannsins eftir það. Það er til heilmikið efni um þroska fólks á fullorðins og efri árum.“

Ingibjörg segir að fólk breytist með árunum. „Það verða til dæmis breytingar á vitsmunaþroska okkar eftir því sem við eldumst, við finnum það öll. Enda eru fjölmargar rannsóknir sem styðja þá kenningu. Sem dæmi má taka að við erum ekki eins snögg að komast að niðurstöðu þegar við eldumst en við erum betri að draga ályktanir en þegar við vorum ung. Sem dæmi má taka að ef eldri manneskja hefur um fjóra möguleika úr að velja þá er hún miklu fljótari að draga ályktun en sú sem yngri er. Þar kemur reynslugreindin til sögunnar. Ein af mörgum kenningum um greind leggur áherslu á  að greind sé tvennskonar, reynslugreind og eðlisgreind. Þetta tvennt vegur hvort annað upp en við höldum áfram að auka við reynslugreindina ævina á enda. Svo eru það tilfinningarnar, en tilfinningalífið tekur breytingum með árunum eins og annað.  Það verða líka miklar breytingar á högum fólks þegar það hættir að vinna. Það er mikil sálfræði í kringum að undirbúa starfslok, starfslokin sjálf og það sem við tekur. Við þurfum að rannsaka þetta sérstaklega og spyrja þá sem eru að ganga í gegnum þetta tímabil. Þannig öðlumst við þekkingu,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg hefur í samvinnu við Amalíu Björnsdóttur prófessor, staðið fyrir tveimur viðamiklum rannsóknum á  framlagi fólks 67 ára og eldri. Fyrri rannsóknin birtist árið 2006 og hin síðari nú fyrir skemmstu. Á þeim tíu árum sem liðu á milli rannsóknanna kom í ljós að framlag eldra fólks hafði aukist á tímabilinu.  Í fyrri rannsókninni sögðust til að mynda 62 prósent þátttakenda hafa sinnt barnagæslu fyrir börn sín eða aðra sér nákomna.  Tíu árum síðar sögðust 69 prósent þátttakenda hafa sinnt barnagæslu. Í rannsóknini frá 2006 sögðust 30 prósent hafa aðstoðað við heimilisstörf, viðhald, saumaskap og önnur tilfallandi verkefni. Í rannsókninni frá 2016 sögðust 45 prósent þátttakenda hafa sinnt slíkum verkum. Álíka hlutfall eða um 20 prósent 67 ára og eldri hafði aðstoðað vegna alvarlegrar fötlunar eða veikinda annarra en maka í báðum rannsóknunum.  Árið 2006 höfðu 16 prósent hýst fólk í lengri tíma og 45 prósent í skemmri tíma, hlutfallið 2016  var álíka. Örlítið fleiri sögðust þó hafa hýst fólk í lengri tíma eða 17%  og 45% hafa hýst fólk í skemmri tíma. Þá kom fram í báðum rannsóknunum að eldra fólk hafði lánað börnum sínum fjármuni. Af þessu má ráða að eldra fólk sinnir fjöbreyttum verkefnum og styður við bakið á sínu fólki. Oftast er þetta ólaunuð vinna en skiptir samt sem áður gríðarlega miklu máli fyrir þá sem hana þiggja. Rannsóknir á högum og lífi eldra fólks eru ekki margar hér á landi.  Ingibjörg segir að eftir að hún fór að kenna sálfræði eldra fólks hafi hún orðið hissa á hvað umræða um hópinn var oft á neikvæðum nótum og staðalímyndirnar sterkar. „Það gerði það að verkum að mig fór að langa til að skoða hvernig raunveruleikinn liti út. Sem betur fer þekki ég eldra fólk sem er mjög sterkt og virkt í samfélaginu og í samráði við það fór ég af stað með fyrri rannsóknina. Það má segja að þau hafi komið mér af stað með þetta verkefni.“

Ingibjörg segir að það hafi komið henni einna helst á óvart hversu mikið eldra fólk lagði af mörkum til samfélagsins. „Mér fannst líka óskaplega merkilegt að í fyrri rannsókninni gátum við stungið inn spurningum í spurningavagn Gallups. Þar gátum við spurt þá sem yngri voru hvort þeir hefðu fengið aðstoð frá frá foreldrum sínum sem komnir voru á lífeyrisaldur. Það féll eins og flís við rass niðurstöðunum bar saman. Við gátum líka út frá bakgrunnsbreytum séð hvaða menntun og tekjur þeir höfðu sem nutu hjálpar frá foreldrum sínum. Afar og ömmur passa mest  fyrir þá sem hafa mestu menntunina og hæstu tekjurnar. Lágtekjufólkið gat frekar tekið sér frí ef börnin veiktust eða starfsdagar voru í leik eða grunnskóla.“

Ingibjörg segir að það hafi komið upp sú hugmynd að fá hagfræðing til að reikna út virði þeirrar þjónustu sem eldri borgar inna af hendi. Það hafi hins vegar reynst of mikil vinna og of kostnaðarsöm. Það sé þó ljóst að vinnuframlag eldra fólks sé umtalsvert og spari gríðarlegar upphæðir fyrir samfélagið og þá sem njóta hjálpar frá öfum og ömmum.

Ingibjörg segist skynja það að áhugi á málefnum eldra fólks fari vaxandi. „Mér finnst athyglin þó of oft á neikvæðum nótum og langar til að sýna fram á fleiri og jákvæðari sjónarhorn þegar fljallað er um eldri borgara.   Eldra fólk er fjömennur hópur og hann er jafn fjölbreyttur og aðrir aldurshópar. Fólk breytist ekki í grunninn við það að eldast. Það er ekki hægt að steypa alla í sama mót. Eldra fólk hefur mismunandi áhugamál og býr við misjöfn kjör nákvæmlega eins og fólk á öðrum æviskeiðum.“ Að lokum segir Ingibjörg að það verði að hætt að spyrða saman eldri borgara og öryrkja. Sú tenging heyrist allt of oft. Það á ekki að nefna þessa tvo hópa saman. Það hefur áhrif á sjálfsmynd eldra fólks. Fatlaðir myndu aldrei láta bjóða sér að þessu yrði snúið við. Það má því segja að þeir séu komnir lengra á mannréttindabrautinni en eldri borgarar.“

Ritstjórn febrúar 20, 2017 11:33