Tengdar greinar

Afburðakona á mörgum sviðum

Á öllum tímum hafa verið uppi konur sem brjótast undan staðalmyndum samfélagsins og ná að skapa sér líf að eigin skapi. Ein slík var Diane de Poitiers. Hún var frönsk aðalskona og neydd til að giftast sér miklu eldri manni aðeins fimmtán ára. Þegar hann lést hefði hún í raun átt að framselja umráð yfir eignum sínum til fjölskyldu sinnar eða krúnunnar en tókst að sannfæra Frans I konung um að hún væri fullfær um að stjórna fjármálum sínum sjálf.

Þetta var umtalsvert afrek á miðöldum þegar konur voru í raun eign feðra sinna, bræðra og eiginmanna. Diane fæddist árið 3. september árið 1499, (sumar heimildir segja, 9. janúar 1500), í höllinni, Château de Saint-Vallier í Drôme-héraði. Hún þótti snemma óvenju fögur kona og líklega hefur það orðið til þess að Louis de Bréze greifi falaðist eftir hönd hennar. Hann var þrjátíu og níu árum eldri en hún en þótt okkur blöskri að gifta fimmtán ára stúlkubörn var það mjög hæfilegur giftingaraldur á þessum tíma. Hjónabönd voru auk þess oftast nær viðskiptasamningar hugsaðir til að viðhalda völdum og ættum.

En í krafti stöðu sinnar sem gift kona kom Diane til hirðar Frans I Frakkakonungs. Hún þjónaði þar fyrst sem hirðmey Claude drottningar en þegar hún lést varð Diane hluti af hirðmeyjum  Lovísu af Savoy, móður konungsins. Þegar Frans gekk að eiga Elínóru af Austurríki gekk Diane í þjónustu hennar.

Diane de Poitiers þótt óvenjulega fögur kona.

Ákveðin og rík ekkja

En eins og við var að búast lifði Diane mann sinn. Hann lést árið 1531 en eftir það gekk hún eingöngu í svörtu og hvítu. Þetta voru sorgarlitir en einnig táknrænir fyrir veiðigyðjuna Díönu sem hún hét í höfuðið. Sú var sömuleiðis mánagyðja og andstæðurnar hvítt og svart táknuðu því ljósa hluta tunglsins og hinn dökku er snýr frá Jörðu. Það kom fljótt í ljós hve snjöll og framsýn Diane var í fjármálum. Í stað þess að skila eignum eiginmannsins í hendur nákomnasta karlmanni í ætt hans eða til krúnunnar fór Diane fyrir dóm og krafðist þess að fá sjálf yfirráð yfir eignum hans og eftirlaunum og fara sjálf með fjárráð sín. Þetta hugrekki hennar og klókindi í viðskiptum urðu til þess að Frans I leyfði að ekkjan stjórnaði sér sjálf.

Auk þess að vera viðskiptakona með bein í nefinu var Diane mikill unnandi íþrótta og stundaði sund og gönguferðir allt sitt líf. Hún hélt þess vegna góðu líkamlegu formi langt fram eftir aldri, ólíkt flestum samtímakonum sínum. Díana var af aðalsfólki komin og naut góðrar menntunar. Í æsku lærði hún meðal annars tungumál og klassískar greinar. Hún átti tvær dætur en hugsaði einnig vel um prinsana Frans og Hinrik, enda var hún meðal hirðmeyja móður þeirra.

Þegar stríð braust út milli Frakka og Spánverja náðu hersveitir Karls V Spánarkonungs Frans I á sitt vald og synir voru sendir til Spánar í kjölfarið til að verða gíslar í stað föður síns.Sagan segir að Díana hafi kysst Hinrik kveðjukossi áður en hann var fluttur til Spánar. Drengurinn var aðeins sjö ára en milli þeirra var ævinlega mikil væntumþykja. Drengirnir voru síðan í hálfömurlegri vist næstu fjögur árin hjá þessum óvini föður þeirra en Frans I greiddi ekki lausnargjaldið. Hefur sennilega ekki átt fyrir því.

Diane stundaði alla tíð líkamsrækt og var í góðu formi lengst af ævi sinni. Afbrýðisöm drottning

Diane og Hinrik áttu síðar í ástarsambandi. Þegar það hófst var hann fimmtán ára en hún þrjátíu og fimm. Hún hafði mikil áhrif á stjórn landsins í gegnum hann og var meðal þeirra er lögðu blessun sína yfir hjónaband Katarínu af Medici og Hinriks. Þegar Frans I lést árið 1547 varð Hinrik konungur og þá jókst áhrifavald Diane til mikilla muna. Hún hélt þeirri stöðu í aldarfjórðung og er talið að flest ef ekki öll mál hafi verið borin undir hana. Hinrik treysti mjög á dómgreind hennar og skarpa sýn á stjórnmálin. Hann treysti henni til að skrifa fyrir sig opinber bréf og hún hafði yfirumsjón með menntun barna hans. Meira að segja páfi viðurkenndi stöðu hennar með því að færa henni perluhálsmen á sama tíma og hann gaf Katarínu af Medici Gullnu rósina en það er tákn sem páfar blessa árlega og færa gjarnan þjóðhöfðingjum til marks um vináttu sína.

Diane hlaut titilinn hertogaynja af Valentinois árið 1548 og var gerð hertogaynja d’Étampes árið 1553. Hún kom sér einnig upp viðamiklu viðskiptaneti og tókst að koma tengdasonum sínum í valdamiklar stöður. Eins nærri má geta var Katarína ekki sátt við að ástkona eiginmannsins réði flestu því sem hún vildi og þegar Hinrik særðist illa í burtreiðum árið 1559 tók hún við stjórninni og takmarkaði öðrum aðgang að svefnherbergi konungs.

Sagt er að konungurinn hafði ítrekað beðið um að fá Diönu til sín en drottning neitaði þeirri bón. Diana fékk ekki að vera við jarðarför konungs og var gert að láta af hendi einn kastala sinna. Eftir lát Hinriks bjó Diane í Anet, Eure-et-Loir og lét lítið fyrir sér fara. Hún slasaðist illa þegar hún datt af hestbaki sextíu og fjögurra ára og náði sér aldrei fyllilega af meiðslum sínum. Hún lést 25. apríl árið 1566. Þótt það sé ekki einsdæmi í sögunni að konur nái völdum í gegnum ástmenn sína er óvenjulegt að þær hafi jafnvíðtæk áhrif og haldi þeim þetta lengi. Hún hlýtur því að hafa verið einstaklega vel gefin og átt mjög gott með mannleg samskipti.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 10, 2023 07:00