Afgangsstærð og olnbogabörn í samfélagi okkar

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni. Þagnarskylda eða þöggun? Sigrún Huld segir í greininni að reglubundið komi upp óánægja með þjónustuna við aldraða. Viðbrögð ábyrgra aðila séu ýmist þögn eða þá að menn beri fyrir sig þagnarskyldu, það er að ekki sé heimilt að tjá sig um málefni einstaklinga. Síðan segir Sigrún orðrétt í greininni.

Það er rétt að þagnarskyldan er mikilvæg. Hún felur þó ekki í sér bann við viðbrögðum á borð við: „Við lítum þessa óánægju alvarlegum augum. Við viljum læra af þessu til að geta gert betur“. Tilefni þessara skrifa minna er nýlegt dauðsfall 68 ára gamallar konu á hjúkrunarheimili sem lést vegna þess að matur stóð í henni. Konan var ein, en þurfti aðstoð við að matast.

Þegar svona illa hefur tekist til er afar ankannalegt að segast ekki geta tjáð sig vegna þagnarskyldu en geta samt sagt að „starfsfólkinu líði illa“. Er það meira brot á þagnarskyldu að segja til dæmis.:“Okkur þykir þetta afar leitt. Við munum reyna að koma í veg fyrir að atvik af þessu tagi eigi sér stað í þjónustu okkar framvegis“?

Öll umræða í þessu máli er frábrugðin því sem tíðkast þegar um yngra fólk er að ræða. – Raunar var þessi kona „ung“ öldruð, en það virðist litlu breyta: hún var á hjúkrunarheimili með hinu gamla fólkinu og sama stimplun gengur yfir alla!

Margt í þessu máli vekur umhugsun. Atvikið sjálft er alvarlegt, en það er vissulega svo að aldrei er hægt að koma með öllu í veg fyrir alvarleg mistök þar sem annast er um veikt fólk. Einmitt þess vegna skiptir úrvinnsla slíkra atburða svo miklu máli. Feluleikur og þöggun er ekki heppileg úrvinnsla og ef ábyrgir aðilar halda að slík viðbrögð auki traust, eru menn ekki að lesa stöðuna rétt. Slík viðbrögð auka vantraust.

Sigrún Huld ber þessi viðbrögð saman við viðbrögðin við því þegar tveir ungir menn frömdu sjálfsmorð með stuttu millibili inni á geðdeild Landsspítala. Engum ábyrgum aðila hafi dottið annað í hug en að lýsa yfir að málið væri tekið alvarlega og yrði skoðað, ólíkt því sem heyrðist þegar íbúi á hjúkrunarheimili átti í hlut.

Vissulega er það svo að allir eiga að deyja. En það getur ekki verið hlutverk öldunarþjónstu að flýta fyrir því, og það á ekki að skipta litlu hvort notendur hennar lifa eða deyja. Og meðan þetta veika fólk lifir skiptir miklu að sú aðstoð sem það er svo mjög háð sé veitt af virðingu og af löngun til að skapa fólki sem bestan tíma síðasta skeiðið.

Sigrún Huld gerir skipulag öldrunarþjónustunnar hér á landi  líka að umtalsefni í greininni. Hún heyri undir alla og engan. Ríkið bendi á sveitarfélögin og öfugt.  Í nágrannalöndunum sé þónustan nærþjónusta, í höndum viðkomandi sveitarfélags, hver svo sem  borgi brúsann.

Sú þróun að æ veikara fólk búi á hjúkrunarheimilum felur líka í sér að æ veikara fólk býr heima. Ekki verður séð að þeirri breytingu hafi verið mætt að gagni. Heimaþjónusta hér er afar ófullburða og má nefna að á höfuðborgarsvæðinu er nánast engin heimaþjónusta á nóttunni. Margir sem ekki eru svo veikir eða færniskertir að þeir þurfi að flytja á hjúkrunarheiili þurfa að búa þar sem einhvers konar sólarhringsþjónustu nýtur, en slíkum stöðum hefur lítið fjölgað síðan 2008

Allt virðist þetta bera að sama brunni. Gamalt veikt fólk er afgangsstærð og olnbogabörn í samfélagi okkar.

Samt getur hvert og eitt okkar átt eftir að lenda í þessum hópi eða að eiga ástvini þar.

Hér hefur verið stiklað á stóru í grein Sigrúnar Huldar, en greinina í heild má lesa í Morgunblaðinu sem kom út um helgina.

Ritstjórn júní 16, 2019 16:33