Afi og amma eldast hratt

Afar og ömmur eru gömul, hrukkótt og gráhærð, það er að minnsta kosti sú ímynd sem margir hafa af þeim. En eins og margar aðrar mýtur er hún röng. Afar og ömmur eru fólk á besta aldri. Meðal aldur þeirra sem eignast fyrsta barnabarnið í Bandaríkjunum er nú 50 ár. Árið 2011 var meðalaldurinn 48 ár. Afi og amma eru því að eldast. Þetta kemur fram í  nýlegri könnun sem gerð var á vegum samtaka bandarískra eldri borgara AARP.  Afarnir og ömmurnar sem tóku þátt í könnuninni voru á aldrinum 38 ára til rúmlega 100 ára.  95 prósent allra þeirra sem náð höfðu 65 ára aldri áttu að minnsta kosti eitt barnabarn. 40 prósent þeirra sem orðnir eru afar og ömmur eru enn á vinnumarkaði.

Meðalaldur Bandaríkjamanna fer hækkandi og þeir eignast færri börn og síðar á ævinni það er ástæðan fyrir því að afi og amma eru að verða eldri. Góðu fréttirnar eru þær að eldra fólk er lengur í fullu fjöri heilsa þess fer batnandi. Færri börn þýða að afi og amma geta eytt meiri tíma með hverju og einu barnabarni. Það merkir líka að þau geta frekar hjálpað til við uppeldi barnanna þegar þau komast á eftirlaun. Samkvæmt rannsókninni eru afi og amma dugleg að passa, en fæst þeirra deila húsnæði með börnum sínum og barnabörnum.

Afar og ömmur  sem búa fjarri barnabörnunum heimsækja þau reglulega þó svo þau þurfi að fljúga um langan veg. Þau eru líka vís með að vera í daglegu sambandi við barnabörnin á netinu.  Fæstum finnst þau bera fjárhagslega ábyrgð á barnabörnunum þó svo að 21 prósent segist ætla að greiða hluta af háskólamenntun þeirra. Fjórtán prósent segjast hjálpa börnum sínum og barnabörnum við daglegan kostnað.  86 prósent sögðust einungis eyða peningum í barnabörnin í formi gjafa.  Annað merkilegt sem kom fram í AARP könnuninni er að 61 prósent af öfum og ömmum finnst mikilvægt að fara í ferðalög með barnabörnunum án þess að foreldrarnir séu með.

Þrátt fyrir að meðalaldur afa og ömmu sé að hækka þá eru þau líkamlega og andlega hress. Þau og barnabörnin ættu því að geta notið samvista hvort við annað lengur en nokkru sinni í sögunni.

Ritstjórn ágúst 9, 2019 07:10