Áföllin geymast í genunum

Hermenn tínast heim úr stríði, fólk leggur á flótta undan átökum eða náttúruhamförum, óttinn, sorgin og ógnin fylgja því og veldur varanlegum skaða á heilsu þess. En þar með er það ekki búið, nýlegar rannsóknir vísindamanna sýna að áföll breyta erfðaefni fólks og afleiðingar voveiflegra atburða erfast til næstu kynslóðar.

Upphaf þekkingar manna á þessu má rekja til borgarastríðsins í Bandaríkjunum. Því lauk árið 1865. Beggja vegna var mannfallið mikið og bæði norðurríkja og suðurríkjamenn tóku stríðsfanga. Aðstæður í fangabúðunum suðurríkjanna voru hræðilegar. Þrengsli, sjúkdómar, matarskortur og léleg hreinlætisaðstaða. Fangarnir sneru heim líkamlega og andlega veikir og veiklaðir. Fljótlega tóku vísindamenn eftir að þessir menn lifðu almennt mun styttri ævi en meðalmaðurinn og ekki nóg með það, börn þeirra og barnabörnum virtust einnig útsettari fyrir heilsufarsvandamálum og skemmri lífdögum en afkomendur þeirra sem ekki höfðu verið teknir til fanga.

Ákveðin tilhneiging til vanheilsu virtist erfast í karlegg kynslóð fram af kynslóð. Ýmislegt svipað kom í ljós eftir bæði fyrri og seinni heimstyrjöldina, Kóreustríðið og stríðið í Víetnam. Vísindamenn tóku til við að rýna í ástæður þessa og þeir gátu ekki séð að stökkbreyting hefði átt sér stað í erfðaefni hermannanna en svo virtist að breyting hefði orðið á hvernig erfðaefnið kom fram í líkömum fólksins. Þetta leiddi síðan til þess að farið var að skoða hvernig ýmislegt sem gerist á mannsævinni geymist í frumunum og í DNA manneskjunnar. Þær breytingar skila sér síðan til næstu kynslóðar bæði frá móður og föður.

Hetjur og hugleysingjar

Dora Costa hagfræðingur við the University of California í Los Angeles og eiginmaður hennar, Matthew Kahn sem einnig er hagfræðingur hafa rannsakað afleiðingar sveltis og harðræðis í stríðsfangabúðum suðurríkjanna á hermennina og næstum 4600 börn þeirra sem fæðst höfðu eftir að stríðinu lauk. Þau báru saman heilsufarsupplýsingar þeirra og 15.300 barna hermanna sem ekki höfðu verið teknir til fanga. Dánartíðni meðal sona fanganna var 11% hærri en hinna að teknu tilliti til félagslegra aðstæðna þeirra en dæturnar sluppu betur. Þau birtu niðurstöður sínar meðal annars í bókinni, Heroes and Cowards: The Social Face of War.

Þessi grein erfðafræðinnar heitir epigenetics eða utangenaerfðir. Þá er verið að skoða hvernig læsileiki eða tjáningu genanna breytist án þess að erfðaefnið sjálft taki breytingum. Slíkar breytingar verða ekki eingöngu við áföll heldur geta átt sér stað þegar umhverfi manneskjunnar ummyndast og hún þarf að aðlagast nýjum frumþáttum í náttúrunni. Óhætt er að segja að þessi nýja þekking hafi gerbreytt því hvernig menn líta á áföll og erfiðleika í lífi manna og í Bandaríkjunum hafa sálfræðingar og þerapistar í æ ríkari mæli hvatt fólk til að skoða áfallasögu fjölskyldu sinnar þegar það leitar til þeirra.

En það er fleira en stríð sem veldur áföllum og setur afkomu fjölskyldna í hættu. Hungursneyð, þjóðarmorð, náttúruhamfarir og alvarlegir erfiðleikar um langan tíma hafa sömu áhrif og geta skapað þessi utangenaerfðir. Afkomendur þeirra sem komust af í fangabúðum nasista hafa til að mynda verið mikið rannsakaðir og í ljós komið að hæfni þeirra til að takast á við streitu er minni en annarra. Rachel Yehuda forstjóri The Traumatic Stress Studies Division hjá Mount Sinai School of Medicine er ein þeirra sem kafað hefur ofan í þessi mál.

Þriðja kynslóð músa varðaðist lyktina

Raunar var rannsókn hennar það lítil, þ.e. hún náði aðeins til afkomenda 32 fyrrum fangabúðafanga og afkomenda þeirra auk stýrihópsins. Aðrir vísindamenn hafa sagt að ekki sé fyllilega hægt að treysta niðurstöðum rannsóknarinnar af þeim sökum. Rachel Yehuda telur svo ekki vera. Hún segir að margir hafi oftúlkað niðurstöður hennar en þær séu sambærilegar við aðrar stærri og þótt nauðsynlegt sé að skoða fleiri kynslóðir til að sjá hvort áhrifin haldi áfram sé í það minnsta rétt að næsta kynslóð þeirra sem upplifað hafa hörmungar sé veikari fyrir.

Vísindamenn hafa einnig gert prófanir á músum á rannsóknarstofum og áhrif áfalla hjá einni kynslóð þeirra á þá næstu og þær niðurstöður benda ótvírætt til að þessi tilfinning að áföll breyti þeim varanlega og þær breytingar erfist. Í einni slíkri rannsókn var músum gefið raflost og um leið var blásið efni, acetophenone inn í búr þeirra um leið. Acetophenone lyktar eins og kirsuberjablóm eða möndlur. Þegar ungar þessara músa fundu slíka lykt sýndu þeir stresseinkenni og forðuðust eftir bestu getu uppsprettu lyktarinnar. Hið sama gilti um þriðju kynslóð músa þrátt fyrir að hvorki hún né foreldrar þeirra hafi þurft að ganga í gegnum endurtekin raflost. En hverjar eru afleiðingar þessa? Jú, þetta þýðir að fjölskyldusaga verður mun mikilvægari þegar skoðað er hvers vegna fólk fær ákveðna sjúkdóma og líkur á að tiltekinn einstaklingur þurfi að takast á við ákveðin heilsufarsleg vandamál aukast ef stóráföll hafa riðið yfir afa og ömmu og jafnvel langafa og langömmu.Við þurfum einnig að endurmeta okkar eigin áhrif á líf barnanna okkar. Hafir þú tekist á við erfitt áfall eða langvarandi erfiðleika er nokkuð víst að þau börn sem þú eignast eftir það muni vera mótuð af því.

Þetta leggur foreldrum þá ábyrgð á herðar að leitast við að vinna úr andlegum áhrifum áfalla og gæta vel að heilsu sinni og barna sinna. Með því að lifa heilsusamlegu lífi og kenna börnum sínum að sinna vel um allar grunnstoðir góðrar heilsu má daga úr þessum áhrifum.

Þrátt fyrir að bergmál stórra áfalla endurkastist til næstu kynslóða en utangenaerfðir eru viðráðanlegri en til dæmis arfgengir sjúkdómar eða tilhneiging til að fá ákveðna sjúkdóma að því leyti að hægt er að vinna gegn þeim.

Rannsóknir enn á frumstigi

Enn eru niðurstöður þessara rannsókna umdeildar og sumir draga niðurstöðurnar í efa. Telja þetta sjaldgæfara en margir vilji halda fram einkum þegar um er að ræða erfðir frá föður til afkomanda. Í grein á Future vef BBC er greint frá svissneskum rannsóknum á hvolpum og músum, þar eru hvolpar og músarungar teknir frá mæðrum sem hafa upplifað áföll strax eftir fæðingu og síðan skoðað hvort og þá hvernig ungviðið sýnir þessar utangenaerfðir. Í ljós kemur að þau hafa tilhneigingu til að taka meiri áhættu en almennt gerist. Aukin offita og sókn í fíknivaldandi efni hafa einnig verið meðal ótvíræðra áhrifa. Hið sama gildir þegar um er að ræða ungviði getið af rakka eða karlkyns mús sem hefur þurft að takast á við áföll.

Ýmislegt bendir líka til að áhrif langvarandi hungurs hafi því aðeins áhrif hafi formóðir eða forfaðir barns þurft að svelta fyrir níu ára aldur. Eftir að tíu ára aldri er náð gerist eitthvað sem veldur því að líkaminn þolir betur næringarskort og afkomendur fólks sem hefur upplifa hungursneyð eftir tíu ára afmælið er jafnvel langlífara en almennt gerist. Fæða móður á meðgöngu getur einnig haft mikið að segja varðandi það að snúa slíkum áhrifum sér í hag. Menn treysta sér þó til að fullyrða að mikil streita á meðgöngu hefur áhrif á fóstur í móðurkviði og einnig meðan á brjóstagjöf stendur.

Vísbendingar og sannanir fyrir langvarandi, margvíslegum og meiri áhrifum áfalla á líf okkar og afkomu afkomenda okkar eru sífellt að verða skýrari og sýna svo ekki verður um villst að margt annað en beinar erfiðir og umhverfi hafa áhrif á heilsu okkar og lífsval. Veturinn 1944 var mikil hungursneyð í Hollandi. Seinni heimstyrjöldin var á lokametrunum og matvælaframleiðsla í landinu stórlega skert. Það litla sem til var gerðu nasistar upptækt til að fæða her sinn. Hollendingar drógu fram lífið og meðalmanneskjan borðaði milli 400 og 800 kaloríur á dag. Nýleg hollensk rannsókn hefur sýnt að afkomendur karlmannanna sem þraukuðu þennan hungurvetur hafa meiri tilhneigingu til að fá sykursýki sem og hjarta og æðasjúkdóma og afkomendur barna sem voru að vaxa í móðurkviði þennan vetur til að þjást af offitu. Það sem meira er, er að afkomendur þeirra voru auk þess líklegri til að þjást af geðklofa. Munurinn er það afgerandi að ekki er talið hægt að skýra þetta með umhverfis- og uppeldisáhrifum eingöngu.

Þessar breytingar eru alls ekki allar neikvæðar eða til þess fallnar að veikja ættbogann. Þær geta einnig leitt til þess að afkomendurnir aðlagist betur ákveðnum streituvaldandi aðstæðum eða forðist áhættu. Í raun eru þessar utangenaerfðir meðal þess sem hefur tryggt afkomu tegundarinnar hjá öllum dýrum. Þegar takast þarf á við óeðlilegar aðstæður kallar það á eiginleika sem hugsanlega hafa ekki verið til staðar hjá tegundinni áður og það kann að vera að í þessum breytingum séu fólgin fyrstu stig stórfelldra breytinga á erfðum til að aðlaga og tryggja viðgang dýrsins. Rannsóknir af þessu tagi eru þó enn á frumstigum í flestum tilfellum og vísindamenn vara við að dregnar séu of afgerandi ályktanir af þeim.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 31, 2023 07:00