Páll Bergþórsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri er hvergi nærri hættur að spá í veðrið þó hann sé kominn á tíræðisaldurinn. Páll birtir reglulega spár á Fasbókinni og hefur gert allar götur frá 2011. „Það verður kalt í veðri næstu daga,“ segir Páll og bætir við að hann spái tíu daga fram í tímann. Tekur þó fram að spárnar verði ónákvæmari eftir því sem þær verða lengri, þrátt fyrir það gefi þær góðar vísbendingar um veðrið á næstunni. Þeir sem eru á leið í fríi ættu því að líta á spárnar hans Páls. Hann segist fá góð viðbrögð á fasbókinni, á hverjum degi séu það 40 til 50 sem „læki“ síðuna hans. „En það eru náttúrulega ekki allir sem „læka“ segir hann.
Tvennskonar sumar
„Við höfum tvenns konar sumar, annars vegar helming ársins á móti vetrinum, hins vegar sem eina af fjórum árstíðum, sumri, hausti, vetri og vori. Alþjóðlega er sumarið sem ein af fjórum árstíðum talið vera í júní-ágúst. Í Snorra-Eddu er árstíðin sumar aftur á móti látin byrja með fardögum sem hefjast sjötta fimmtudag eftir sumardaginn fyrsta, nú 31. maí- 6. júní, en í ár byrja fardagar 4. júní. Í Eddu er sumrinu svo talið ljúka með haustjafndægrum sem eru á þessu ári 23. september. Ef miðað er við lofthita er þetta Snorra-sumar býsna vel tímasett. En fyrir löngu tók Veðurstofa Íslands að miða þessa árstíð við mánaðamót og láta hana ná yfir júní-september, og því er enn haldið áfram. Það þótti þægilegra í útreikningum. Þau tímamót í veðursæld sem verða í byrjun júní eru nokkuð vel valin, því að þá eru birkiskógar gjarnan að laufgast og setja mikinn sumarsvip á umhverfið. En að þessu sinni hefur vorveðrátta verið mun kaldari en að undanförnu eftir einstaklega milt veðurfar frá aldamótum,“ sagði Páll á síðunni sinni.
Að lokum vill Páll koma því á framfæri að hann vilji nota orðið fasbók í staðinn fyrir fésbók. „Fas þýðir andlit í gömlu íslensku máli en það merkir líka viðmót og framkoma.“