Göngur og gleði í íslenskri náttúru

Vinkonurnar sem stofnuðu gönguhópinn fyrir 25 árum. Frá vinstri eru Krístín Ólafsdóttir, Maríanna Haraldsdóttir, Fríða og Áslaug Pálsdóttir.

Fríða S. Kristinsdóttir hefur stundað hreyfingu alla tíð og veit vel  hversu mikils virði það er að hugsa vel um þennan eina líkama sem okkur er gefinn. Hún hefur stundað jóga í 30 ár og syndir daglega. Hún hefur auk þess stundað göngur og 2008 hóf hún að iðka golf. Fyrir 25 árum stofnaði Fríða gönguhóp með vinum sínum og jafnöldrum og alla tíð síðan hefur sá hópur farið í eina langa göngu á hverju sumri um hálendi og láglendi Íslands. Eins og gengur breytast aðstæður hjá fólki, sumir í hópnum hafa helst úr lestinni og aðrir hafa fundið hreyfingu sem hentar betur núna, t.d. farið í golf eins og Fríða. Gönguhópurinn hefur nú verið lagður niður en góðar og skemmtilegar minningar eru eftir og Fríða rifjaði upp tilurð þessa skemmtilega gönguhóps sem hlaut nafnið Fríða og föruneyti.

Fríða og föruneytið

Fyrsta ferðin var farin í Hrafntinnusker 1993 þar sem gist var í skála með þeim sem leið áttu um og alltaf jafn gaman.

Fríða segir að hún eigi ekki heiðurinn að nafninu að öðru leyti en því að heita Fríða og vera ein af fjórum stofnendum. “Sumar okkar voru góðar að fá hugmyndir og aðrar að hrinda þeim í framkvæmd,” segir Fríða. “Nafnið er mjög skemmtilegt og var viðeigandi því þetta var sannarlega frítt föruneyti sem lagði land undir fót einu sinni á ári í mörg ár,” segir Fríða en fyrsta ferðin var farin sumarið 1993. “Hópurinn samanstóð af sérlega fróðu og góðu fólki og allir lögðu eitthvað af mörkum til að hver ferð yrði ævintýri líkust. Í hópnum var lýtalæknir og hjúkrunarfræðingur og alls konar aðrir fræðingar og margir hópfélagar voru virkilega fróðir um landið okkar og sögu svo allir nutu góðs af.” Fríða hefur haldið saman ferilskrá yfir allar göngurnar og á í fórum sínum margar skemmtilegar myndir úr ferðunum.

Allt borið á bakinu

Fríða í upphafi göngunnar frá Bolungarvík eystri.

Fríða segir að þær vinkonurnar hafi fengið vini sína til að taka þátt í gönguhópnum til að byrja með og fljótlega hafi  þátttakendur verið orðnir 14 talsins og alltaf bættist í. “Það spurðist fljótt hversu skemmtilegar þessar gönguferðir voru og fyrr en varði vorum við orðin 19. Í mörg ár var allt borið á bakinu og þá voru skálarnir sem gist var í ekkert í líkingu við það sem þeir eru núna. Þá voru þeir bara eins og gangnamannakofar með engum þægindum. Eftir því sem árin liðu vorum við farin að skipuleggja ferðirnar öðruvísi, með örlítið meiri lúxus og lærðum svo af hverri ferð,” segir Fríða og hlær. “Eitt var til dæmis að taka ekki vatnsmelónu með í nestistöskuna sem við bárum með okkur. Sonur minn gerði grín að okkur fyrir nokkrum árum þegar honum ofbauð lúxusinn sem var orðinn á okkur og sagði að þess yrði ekki langt að bíða að við flygjum bara í þyrlum og horfðum yfir svæðið og færum svo á hótel. En það varð sannarlega ekki svo.”

Aðgerðin framkvæmd á ónýtri hurð

 

Læknir gerir að sári á hurð í Reykjafirði.

Fríða segir að það hafi verið mjög traustvekjandi að vita af lýtalækni og hjúkrunarfræðingi í hópnum því alltaf geti orðið slys í fjallaferðum. “2008 var förinni heitið til Norðurfjarðar á Ströndum. Þaðan sigldi hópurinn til Bolungarvíkur eystri og þaðan var gengið til Reykjafjarðar. Frá Reykjafirði var gengið að Dröngum og þar átti sér stað slys þar sem kom sér vel að hafa lækni með í för,” segir  Fríða en rétt áður en komið er að Dröngum er nauðsynlegt að vaða yfir á sem hún segir að hafi samt ekki verið neitt til að tala um. “En í miðri ánni var steinn, líklega eini steinninn í botni árinnar á þessu svæði og mér tókst að ganga á hann. Ég fór náttúrlega á bólakaf og þegar ég reis upp blæddi hressilega úr fætinum og læknirinn sagði strax: “Þetta verðum við að sauma við fyrsta tækifæri.” Ef hann hefði ekki verið með hefði ég orðið að komast undir læknishendur með tilheyrandi veseni fyrir hópinn. Þegar við komum að Dröngum var þar skemma með veiðarfæradóti og fyrir utan var gömul hurð sem hafði verið tekin af hjörunum. Ráðagóði lýtalæknirinn, sem var alltaf með neyðarkassa með sér, stakk upp á að hurðin yrði sett á

Bragurinn sem Jón Karl Einarsson orti um slysið í Reykjafirði og sunginn var í sextugsafmæli Fríðu.

búkka sem þarna voru og þá var orðið til sjúkrarúm. Þar var ég lögð til og læknirinn gat gert að sárum mínum. En hann var ekki með svæfingarmeðal og þá datt auðvitað einhverjum í hópnum í hug að  gefa mér Stro af miklum móð og helltu því í mig í staðinn. Um þetta atvik orti kórstjórinn minn, Jón Karl Einarsson, brag sem var sunginn í sextugsafmæli mínu,” segir Fríða sem er augljóslega hrókur alls fagnaðar þar sem hún er. “Lýtalæknirinn sagði að hann myndi hella einum sopa í munninn og næsti sopi færi á sárið sem var svo lystilega saumað hjá honum að það myndi enginn láta sér detta í hug að aðgerðin hefi verið framkvæmd á ónýtri hurð í óbyggðum,” segir Fríða hlæjandi.

Ísbjörn á næsta leiti

Beðið á Dröngum eftir bátnum sem Fríða fékk að fljóta með í eftir slysið. Hún tók þessa mynd á meðan hún beið.

Næsta dag gekk Fríða ekki með hópnum að Engjanesi um Drangaskörð heldur fékk hún far með bátnum sem ferjaði farangurinn á milli fjarða og þurfti að bíða ein þar til báturinn kom. “Ein úr hópnum varð áhyggjufull því hún hafði heyrt í fréttum að ísbjörn hefði sést á Hornströndum og fór strax að ímynda sér hvað gæti gerst ef dýrið kæmi auga á mig þar sem ég beið alein og fótlama. Sú ímyndaði sér allt hið versta en niðurstaðan varð sú að ég naut vistarinnar fullkomlega ein á Dröngum og hitti skemmtilegu göngufélagana um kvöldið en engan ísbjörn.”

Holugrill alltaf lokamáltíðin

Minningarnar um ævintýrin varðveitast í minni og myndum.

“Allar göngurnar hafa endað eins þar sem helst er farið í sund eða heitan pott þar sem þann lúxus er að finna í lok ferðar,” segir Fríða. “Síðan er farið heim í hús og tekin hola þar sem lambalæri er grillað. Við skiptumst síðan á að sjá um eftirréttinn. Síðan er afgangurinn borðaður daginn eftir áður en haldið er heim á leið.”

Golfið tekið við

Á 25 árum hefur gönguhópurinn breyst sem eðlilegt er. Nú hefur golfið heillað Fríðu eins og fleiri og gönguhópurinn verið lagður niður en Fríða skemmtir sér áfram úti í íslenskri náttúru en nú með golfkylfu í hönd og í öðrum félagsskap. En hún nýtur þess að rifja upp ánægjulegar ferðir í skemmtilegum hópi göngugarpa til 25 ára og hvetur alla til að njóta útiveru í skemmtilegum félagsskap á þann hátt sem hún hefur fengið að reyna, bæði með Fríðu föruneyti og nú í golfinu.

 

 

Ritstjórn júní 29, 2018 08:19