Aldraður einfari

Nanna Rögnvaldardóttir

Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar.

 

Fólk – sérstaklega konur – sem vita að ég ferðast yfirleitt ein í útlöndum spyr mig stundum ráða og spyr hvernig það sé fyrir konu á sjötugsaldri að ferðast ein. Og stutta svarið mitt er Mér finnst það frábært! en það á örugglega ekki við um alla og þess vegna kemur langa svarið hér. Ég er að tala til kvenna en auðvitað á þetta líka við um karla.

Kostir og ókostir

Ég hef ferðast töluvert ein á síðari árum. Hópferðir eiga yfirleitt ekki vel við mig, ég er of mikill einfari til þess. Það eru ýmsir kostir við það að vera ein, eins og að ráða öllu algjörlega sjálf – bæði ferðinni og dagskrá hvers dags –  og geta breytt plönum skyndilega án þess að þurfa að bera það undir aðra. Maður sleppur við endalausar vangaveltur fram og aftur um hvað eigi að gera, hvenær og hvernig – eða á það allavega bara við sjálfa sig.

Langar mig að skoða þetta sérviskulega safn, sem ég var að uppgötva og fáir hafa líklega áhuga á? Nú, þá geri ég það. Langar mig allt í einu ekkert að fara á þennan stað, sem ég var þó búin að undirbúa heimsókn fyrir löngu? Þá sleppi ég því bara. Í Portúgal í fyrra ákvað ég með örstuttum fyrirvara að hætta við að gista í höll úti í skógi eins og ég hafði ætlað (það var spáð svo mikilli rigningu) og fara í staðinn til borgarinnar Viseu og gista á flottu hóteli þar. Fyrir fínt verð því að gestirnir voru fáir á þessum árstíma. Og þurfti ekki að ræða það við nokkurn mann.

Lobbíið á hótelelinu í Viseau. Hér skrifaði ég einn kafla í Mín er hefndin.

Langar mig á þennan veitingastað eða hinn, eða langar mig allt í einu ekki að fara út að borða, bara kaupa eitthvert snarl og borða það á hótelinu? Ég ræð því ein. Langar mig í fimm klukkutíma gönguferð um hæðir og hóla, fjörur, smáþorp eða gömul hverfi með ótal krókóttum ranghölum, eða langar mig að eyða öllum deginum á næsta strandbar eða kaffihúsi? Það er bara mitt mál. Fór ég óvart á ranga lestarstöð eða tók rútu sem fór í öfuga átt? Það er enginn sem skammar mig fyrir það eða hlær að mér, ég get bara hlegið að sjálfri mér. Og geri það.

Svo eru ókostir líka, auðvitað. Margt fólk getur varla hugsað sér að fara eitt út að borða (maður venst því), sitja eitt á kaffihúsi eða bara vera eitt á gangi í ókunnum bæ. Mér finnst ekkert af þessu vera vandamál. Ef þér finnst fólk stara á þig og vorkenna þér af því að þú ert ein, mundu þá að a) sennilega er því alveg sama b) það veit ekkert hver þú ert og c) þú átt aldrei eftir að sjá það aftur. Og ef þér finnst þú hafa orðið þér til skammar á einhvern hátt – ja, hvaða máli skiptir það hvað barþjóninum eða konunni í miðasölunni finnst? Þú sérð þau aldrei aftur og þau gleyma þér strax.

Kona getur líka farið fínt út að borða þótt hún sé ein. Þarna var ég að halda upp á sextugsafmælið mitt á Steirereck í Vín, sem þá var á topp tíu listanum yfir bestu veitingahús í heimi. Við næstu tvö borð voru líka konur sem voru einar.

Stundum væri fínt að hafa einhvern með til að skoða áhugaverða hluti og rifja þá upp seinna en ég læt myndavélina duga. Auðvitað gæti verið gott að hafa ferðafélaga ef eitthvað alvarlegt kemur upp á, en það hefur nú ekki gerst ennþá og mín reynsla er sú að fólk sé yfirleitt frekar hjálpsamt. (Og munið eftir að vera með tryggingarnar í lagi.) Og það væri náttúrlega ódýrara að hafa einhvern til að deila kostnaði, t.d. af gistingu eða leigubílum með sér en það þarf nú ekkert að muna svo miklu.

Jú, svo er það reyndar viss ókostur að maður þarf alltaf að drösla ferðatöskunni og öðrum farangri með sér á klósettið á flugvöllum, lestarstöðvum og slíkum stöðum. En það er nú minni háttar pirringur.

En verð ég aldrei einmana? Nei. Ekki ég. Ég er einfari, vön að ferðast ein, og mér finnst ég vera skemmtilegur félagsskapur. Svo er ég yfirleitt á stöðum þar sem ég get verið í netsambandi, heyrt í fjölskyldunni, fylgst með því hvað er að gerast á Íslandi (ef mig langar til). Ég hugsa samt að flest fólk verði einhverntíma einmana, ekki síst í fyrsta sinn sem það ferðast eitt síns liðs lengur en í nokkra daga. Það venst – eða ekki. Um að gera að láta á það reyna. Og ef þú ert mannblendin og átt auðvelt með að kynnast fólki geturðu sjálfsagt blandað geði við aðra ferðamenn eða heimamenn.

Ég mæli með að lesa sér vel til um staðina sem maður ætlar að heimsækja, hvað er þess virði að skoða og gæti leynt á sér og hvað er kannski bara túristagildrur. Og kynna sér menninguna, læra kannski örfá orð í tungumálinu – góðan dag og takk er fín byrjun, vera kurteis og brosa stundum.

Kvöld í Palermo, í götunni þar sem ég bjó í þrjár vikur. Nei, hér var ekkert að óttast, engir mafíubófar á reiki.

Hættulegt?

Er hættulegt fyrir konur að ferðast einar? Ég hef allavega aldrei orðið fyrir neinu en fólk þarf náttúrlega að hafa vit á að forðast ákveðna staði/hverfi/svæðieinkum eftir að dimma tekur. Áður en ég fór til Marseille um jólin í fyrra hafði ég heyrt að þetta væri mesta glæpaborg Frakklands, og þótt víðar væri leitað. Ég veit það ekki en þetta eru þá fyrst og fremst ákveðin úthverfi. Ég gekk alveg óttalaus um miðborgina á kvöldin og varð aldrei vör við neitt. Eins var með Palermo, þar sér maður ekki Mafíuna á hverju götuhorni. Ekki í miðborginni.

Ég man aldrei eftir að hafa orðið hrædd þegar ég er ein á ferð. Ekki einu sinni þegar ég gekk um tyrkneskt fjallaþorp í myrkri (það voru varla nokkur götuljós) eða villtist í fimm klukkutíma í Feneyjum, líka í næstum því myrkri. Tvisvar var ég næstum því búin að ramba beint ofan í síki (engin handrið) en þarna þurfti þó ekki að óttast að villast óvart langt út í sveit, eins og einu sinni kom fyrir mig í Oxford um hábjartan dag og ég áttaði mig fyrst þegar ég kom að hliði og þar stóð á skilti að maður ætti að loka því á eftir sér svo að kýrnar slyppu ekki. Neinei, þetta hefur alltaf verið í lagi.

Svo þarf maður bara að fylgjast með umhverfinu, passa sig á vasaþjófum og svindlurum og þess háttar. Ekki vera með veskið þannig að það sé auðvelt að hrifsa það af manni eða laumast í það og helst hafa kortin og peningana innan á sér. Forðast troðning og svoleiðis. En allt þetta gildir alveg eins þótt maður sé ekki einn á ferð.

Í næsta pistli ætla ég að segja sérstaklega frá jólaferðunum mínum og undirbúningi þeirra.