Lyfjalaus meðferð við svefnleysi

Mikilvægi svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu okkar er nú óumdeild. Flestir glíma einhvern tímann við svefnleysi sem hefur sínar eðlilegu skýringar en vandamálið getur vaxið og orðið óviðráðanlegt. Þekkt staðreynd er að svefnlyfjanotkun er gífurlega mikil á Íslandi en hún skapar síðan enn meiri vandamál. Við fengum Erlu Björnsdóttur sálfræðing til að ræða þetta vandamál við okkur og gefa ráð.

Erla er með B.A og kandítatspróf í sálfræði auk þess að hafa lokið doktorsprófi í líf- og læknavísindum. Í doktorsnámi sínu rannsakaði hún svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn og hefur auk þess sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi. Erla gaf  út bókina Svefn árið 2017, sem fjallar um mikilvægi svefns og algengustu vandamál sem tengjast svefni.

Streita

Erla segir að svefnvandi tengist flestum sálrænum vandamálum en ástæðurnar séu margþættar. Hún segir að streita sé stór hluti af vandamálinu því hún sé algjört eitur fyrir svefn. Aðrir lífsstílsþættir í nútímasamfélagi vegi samt líka þungt. Þar er Erla að tala um atriði eins og óreglu á svefnmynstri, hreyfingarleysi, óhollt mataræði, koffín, áfengi,  nikótín, barneignir, hormónabreytingar hjá konum. Allir þessir þættir geta haft áhrif á svefninn á einn eða annan hátt og þá getur fólk fest  í vítahring þegar það gengur í gegnum tímabundna erfiðleika. Svefnleysið getur þá orðið krónískur og langvarandi vandi sem erfitt getur verið að losna út úr. Þá þurfa margir faglega aðstoð til að komast út úr þessum vítahring en það er hægt. Til eru til mjög gagnlegar meðferðir við svefnleysi og hugræn atferlismeðferð er sú meðferð sem mælt er með samkvæmt klínískum leiðbeiningum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mælir með að sú aðferð sé fyrst reynd þegar svefnleysi er til staðar. Því miður er sú aðferð ekki aðgengileg í Heilsugæslunni sem er fyrsti viðkomustaður flestra sem glíma við svefnleysi. Þess vegna er oft gripið i lyfin fyrst. Við sjáum í öllum tölum að við erum að nota margfalt meira af svefnlyfjum en nágrannaþjóðir okkar. Það er ákveðið úrræðaleysi þótt margt hafi breyst síðasta áratuginn. Við hér hjá Betri svefn bjóðum upp á einstaklilngsmeðferðir, hópnámskeið, rafrænar meðferðir en þetta er einkafyrirtæki og er ekki niðurgreitt af hinu opinbera.“

Hugræn atferlismeðferð

Erla segir að hugræn atferlismeðferð sé ákveðinn hattur yfir meðferðir við ýmsum vanda. Hægt er að fara í slíka meðferð til dæmis við kvíða, þunglyndi eða lágu sjálfsmati og svo svefnleysi. ,,Slík meðferð gengur  út á að kortleggja svefnmynstur fólks í ákveðinn tíma og við reynum að nálgast vandamálið heildrænt til að komast að rót vandans og ná að uppræta hann til lengri tíma. Skjólstæðingurinn þarf að vera tilbúinn til að breyta sínum venjum og vinna að því að bæta svefninn og það getur verið erfitt og tekið tíma en það er þess virði,“ segir Erla.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn nóvember 8, 2022 13:23