Tengsl sögð milli svefngæða og eyrnasuðs

Fólk sem þjáist af eyrnasuði (tinnitus) fær minni djúpsvefn en meðaltalið. Þessi tengsl djúpsvefns og eyrnasuðs kann að reynast vísindamönnum gagnleg vísbending í leitinni að meðferð við kvillanum. Talið er að í kring um 15 prósent alls mannkyns þjáist af eyrnasuði.

Eyrnasuð er hljóð sem einstaklingurinn sjálfur heyrir en ekki aðrir í kringum hann. Hljóðið getur verið í öðru eða báðum eyrum en í sumum tilvikum inni í höfðinu. Það getur verið stöðugt eða komið og farið (sbr. upplýsingar á Heilsuveru.is).

Getur takmarkað lífsgæði verulega

Suð getur verið fyrsta merki þess heyrn sé að dofna, en þó getur suð einnig verið til staðar hjá fólki með eðlilega heyrn. Suð er sjaldan alvarlegt einkenni. Stöðugt eyrnasuð getur haft truflandi áhrif og takmarkað lífsgæði verulega en það er mjög einstaklingsbundið hversu mikil áhrif suð hefur á einstaklinga. Greina þarf orsök suðsins og því er öllum sem finna fyrir eyrnasuði ráðlagt að leita til læknis.

Jafnvel þótt til séu meðferðir við eyrnasuði sem hjálpa til við að slá á einkennin hjá mörgum, þá er ekki til nein þekkt lækning við þessum hvimleiða kvilla. Orsakir eyrnasuðs eru líka að ýmsu leyti enn ókunnar.

En nú hafa vísindamenn við Oxford-háskóla í Englandi gert uppgötvun sem mögulega hjálpar við að greina orsakirnar og þar með skapa betri grundvöll fyrir meðhöndlun sem virkar. Linus Milinski, Fernando R. Nodal, Vladyslav V. Vyazovskiy og Victoria M. Bajo eru höfundar greinar í nýju hefti ritsins Brain Communications, þar sem niðurstöðum rannsókna er lýst sem sýna fram á tengsl lítils djúpsvefns og eyrnasuðs.

Verja minni tíma í djúpsvefni

Kenning höfundanna er sú að hlutar heilans í eyrnasuðssjúklingum er ofvirkur á meðan aðrir hlutar heilans sofa; þessu svipar að hluta til þess sem gildir um svefngengla. Þetta kann að hjálpa til að finna skýringar á því hvers vegna fólk sem þjáist af eyrnasuði upplifir meiri svefntruflanir en aðrir, og eyða minni tíma í djúpsvefni en aðrir.

Þegar við sofum göngum við í gegnum nokkur stig svefns, með ólík stig virkni í heilanum og ólíkum heilabylgjum. Djúpsvefn einkennist af hægum heilabylgjum og er talið að djúpsvefninn sé mikilvægastur til að okkur finnist við vera útsofin og vel hvíld. Vöðvarnir slappa vel af, það hægist á hjartslættinum og púlsinn dettur niður að lægstu mörkum. Þeir sem fá of lítinn djúpsvefn finna til þreytu og þess að vera illa upplagðir. Djúpsvefn er líka mikilvægur fyrir minnið.

Í þekktri rannsókn frá árinu 2015, sem fjallað var um í vikuritinu Time, var komist að þeirri niðurstöðu að fólk sem varð fyrir ítrekuðu rofi svefns yfir nóttina, og fékk þ.a.l. ekki nægan djúpsvefn, ættu miklu frekar á hættu að lenda í þunglyndi, litlu streituþoli o.fl. en fólk sem svaf álíka lítið í heildina en fékk betur samhangandi svefn (og meiri djúpsvefn).

Eyrnasuð hindrar djúpsvefn

Fólk með eyrnasuð fær að meðaltali minni djúpsvefn og meiri svefntruflanir en aðrir. Þetta kann að skýra hvers vegna þunglyndi, skert minni og lítið streituþol eru algengir fylgikvillar eyrnasuðs.

Vísindamennirnir í Oxford telja að eyrnasuð hindri heilann í að framleiða hægu heilabylgjurnar sem eru nauðsynlegar til djúpsvefns. Af þessu hlýzt léttur svefn og slitróttur, sem getur leitt til verri einkenna og kvilla.

„Að skoða hvernig eyrnasuð breytist í svefni getur gefið okkur mikilvæga vísbendingu um hvað heilinn gerir til að valda breytingum á styrkleika eyrnasuðs. Það þýðir líka að við getum hugsanlega stjórnað svefni til að bæta heilsu sjúklinga – og kannski líka þróað nýjar meðferðaraðferðir við eyrnasuði,“ skrifa rannsakendurnir í Oxford á rannsóknavefinn The Conversation.

Ritstjórn maí 31, 2022 07:00