Tengdar greinar

Aldrei lognmolla í kringum Aggí

Eyþór Gunnarsson og Ragnheiður Gyða voru gestir Sigurlaugar M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér 31. mars sl.

,,Ég held ég hafi verið mjög þungur og erfiður unglingur á heimili,” segir Ragnheiður Gyða Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður á Rás eitt sem margir þekkja undir nafninu Aggí Skólasystkini hennar úr MR minnast hennar sem kraftmikils húmorista og nota um hana orðið ,,nagli”. ,,Það var alltaf skemmtilegt þar sem Aggí var og aldrei lognmolla,” segja þau. Ragnheiður hefur farið sínar eigin leiðir og til marks um það ákvað hún 13 ára gömul að hún hefði ekki áhuga á að láta ferma sig. Fyrir það var hún kýld í magann af skólafélögum en henni var sama. ,,Það skorti ekkert á kristilegt uppeldi því ég átti heima í Þingholtunum þar sem stutt var í KFUM og –K, Aðventistar í Ingólfsstræti, Betanía á Laufásvegi og Herkastalinn niðri í bæ. Alls konar kristilegur boðskapur allt um kring. Ég gat samt ekki trúað en fannst sögurnar skemmtilegar. Ég hafði bara ekki þessa guðstrú sem þurfti.

Menntaði sig í Frakklandi

Ragnheiður Gyða menntaðist í hugvísindum og samskiptafræðum í Frakklandi og fór fljótlega að starfa við dagskrárgerð hjá RÚV eftir heimkomuna. Hún hefur verið viðloðandi stofnunina síðan með nokkrum hléum. Hún á eina af röddunum sem landsmenn þekkja vel úr útvarpi allra landsmanna en færri vita hvernig hún lítur út enda hlédræg manneskja á fullorðinsárum. Hún ólst upp að hluta til niðri í útvarpshúsi við Skúlagötu þar sem faðir hennar, Jón Múli Árnason var útvarpsröddin í áratugi. Í kringum Ragnheiði hefur alltaf verið fólk sem hefur verið töluvert í sviðsljósinu og má þar nefna föður hennar og svo stjúpbróður Eyþór Gunnarsson tónlistarmann en foreldrar þeirra tóku saman þegar Ragnheiður og Eyþór voru unglingar. Í fjölskyldunni er fleira áberandi fólk eins og hálfsystir hennar, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Allt um kring er kraftmikið hæfileikafólk og Ragnheiður fékk sinn skerf af krafti.

Ekki þörf fyrir mann á vinnumarkaði 

,,Þegar í ljós kom að ekki var lengur þörf fyrir mig á vinnumarkaði þurfti ég að spyrja sjálfa mig ,,og hvað nú?” segir Ragnheiður sem lagðist þá undir feld og komst að niðurstöðu. ,,Ég er ekki handlagin og hef ekki bak í erfiðisvinnu þannig að ég ákvað að einbeita mér að því sem ég veit að ég er góð í og þykir skemmtilegast,” segir hún. ,,Ég fór sem sagt að gera pistla og þætti sem verktaki fyrir útvarpið og svo er ég líka að grúska fyrir hina og þessa og verð enn fróðari fyrir vikið,” segir Ragnheiður og brosir. ,,Þetta þykir mér skemmtilegast af öllu að gera og af því ég get gert það vel þá geri ég það.”

Verðum að vera kvik og lifandi

Ragnheiður heldur áfram og segir að þáttagerðin og grúskið hjálpi henni að halda takti og vera kvik og lifandi þótt árunum fjölgi. ,,Þetta hjálpar mér að fylgjast með og hafa skoðun og geta skipt um skoðun sem er

Til ýmissa ráða er gripið til að vekja athygli á þjóðlegum fróðleik í Þjóðarútvarpinu.

orðinn allmikill kostur í seinni tíð,” segir hún og hlær. ,,Um leið er ég alltaf læra eitthvað nýtt, ekki allt gott og ekki allt viturlegt en ég læri það samt. Mér hefur lærst að tilveran eigi ekki að vera ein samfelld, rósrauð hamingja heldur sé lífið allt sem hendir þig. Svo er það í okkar höndum hvernig við vinnum úr því. Líf manns fer eftir því hvernig maður höndlar sitt nánasta umhverfi, samfélagið sem maður býr í og þennan hræðilega heim sem er svolítið umturnaður nú um stundir. Það hefur kristallast í þessu covid veirufári að stefnan sem hefur verið tekin í efnahagsmálum heimsins ræður ekki við ástandið. En eigum við þá að halda tryggð við þessa stefnu, aukna fátækt, aukinn ójöfnuð og hungur víða? Það finnst mér ekki,” segir hún.

Er summan af því sem á undan er gengið

,,Allt sem hefur hent mig í lífinu, hvort sem það er gott eða slæmt,  hefur endað í bakpokanum. Svo hef ég tekið það fram reglulega til þess að nýta og þegar upp er staðið vildi ég ekki vera án þess. Það sem okkur hefur þótt erfitt í gegnum lífið er orðið að lífsnesti sem er hægt að nota og læra af, draga ályktanir og byggja sig upp. Allt nýtist manni að lokum,” segir Ragnheiður.

Tímaskeið ævinnar mismunandi

Ragnheiður segist hafa verið þungur og erfiður unglingur á heimili. ,,Svo kom tímaskeiðið sem er oft erfitt í lífi kvenna, þ.e.  þegar verið er að reyna að troða þeim í mót. Ég upplifði það mjög sterkt og það passaði mér alls ekki. Þá kom tímabil þar sem mér varð skítsama um allt og alla og að síðustu ró þegar ég áttaði mig á því að niðurstaðan er sú að ég er summan af því sem hefur hent mig og það er bara gott.”

Að eldast er dásamlegt, tek því ekki sem mótlæti

Ragneiður Gyða í garðinum við litla húsið í Skerjafirði.

Ragnheiður segist vera búin að komast að því að það að eldast sé dásamlegt. ,,Við tökum auðvitað breytingum með aldrinum, bæði líkamlega og andlega. Við erum lengur að framkvæma hluti en þetta með minnið held ég að sé reyndar ekki svo mikið aldurstengt. Hausinn á okkur er fullur af pin-númerum, lykilorðum og kennitölum sem taka allt of mikið pláss. Ég afgreiði þetta þannig þangað til annað kemur í ljós,” segir hún og hlær. ,,Allt er gangur lífsins og ég tek því ekki sem mótlæti heldur eðlilegum hlut.”

Má bara ekki vera að því að fölna núna

,,Maður sprettur upp, dafnar, byrjar að fölna og hverfur. Þetta er gangur lífsins og nú er ég á tímabilinu þar sem ég er að fölna og það er eðlilegt. Ég má reyndar ekki alveg vera að því að fölna núna því í sumar bíður mín nýtt hlutverk sem er ömmuhlutverkið,” segir Ragnheiður og eftirvæntingin leynir sér ekki.

Þunglyndið hefur strítt Ragnheiði

Ragnheiður segist vera búin að vera krónískur þunglyndissjúklingur frá því fyrir tvítugt. Hún hefur þurft að vera á lyfjum nema þegar hún gekk með dóttur sína en þurfti  svo aftur á þeim að halda eftir fæðinguna. Nú segir hún að lyfin séu orðin svo miklu fullkomnari en áður. ,,Lyfin gera mér kleift að lifa eðlilegu lífi og sinna öllum mínum störfum og nú fletja þau þunglyndissjúklinga ekki lengur út.”

Fékk uppljómu

Ragnheiður Gyða hefur tvisvar orðið fyrir nokkurs konar uppljómun sem hefur fært henni heim sanninn um að allt er ein heild. ,,Í fyrra sinnið var ég við nám í París og var á Pompidou safninu þar sem ég var að lesa undir tölfræðipróf. Mér þótti það óbærilega leiðinlegt svo ég fór að kynna mér sagnfræðibækur sem ég fann þar. Þar sem ég var að ganga með bækunrar aftur að borði mínu skein sólarljósið inn um ógnarstóra glugga safnsins á mig og þá varð mér allt í einu ljóst hversu ógnarsmáir hlekkir í makalausri keðju við erum. Ég kann auðvitað ekki að skýra þessa tilfinningu en ég fann allt í einu friðinn á þessari stundu. Ekki í einhverjum guði heldur í því að vera partur af lífinu á jörðunni. Ég varð aftur fyrir þessari upplifun þegar ég var að leiðsegja Íslendingum í Luxor í Egyptalandi. Það var síðdegi og sólin að lækka. Ég var að horfa yfir Konungadalinn og fann þá þessa sérkennilegu uppljómunartilfinningu aftur.”

Bannfærður fyrir villutrú

,,Á miðöldum var uppi munkur sem hét Pelagius. Hann vildi meina að guð væri alls staðar. Hann væri í náttúrunni, í vindinum, í rigningunni og í blómunum og menn ættu að ráða hvar þeir tilbæðu sinn guð. Þeir

Úr Tímanum 1959. Ríkisútvarpið flutti í nýtt húsnæði að Skúlagötu 4 árið 1959. Tveggja ára fékk Ragnheiður að fara með pabba sínum í kvöldfréttalestur en varð fyrir dálitlu slysi. Hendrik Ottósson fréttamaður reyndi að hugga en hún hljóp hágrátandi að fréttastúdíóinu. Hljóðin hennar bárust þá út á öldur ljósvakans í fyrsta sinn. Pabbi stúlkunnar og Jökull Jakobsson blaðamaður á Tímanum skrifuðust á um atvikið, málið leystist og Jökull færði stúlkunni
þessa fínu brúðu.

Ágústínus kirkjufaðir voru ósammála um margt og að Pelagíusi látnum var hann  lýstur trúvillingur og bannfærður.

Hugmyndir Pelagíusar brjótast margar um í okkur nútímamönnum af augljósum ástæðum en mér nægir að vera hluti af heild, hlekkur í keðju. Að fæðast, vaxa og dafna, fölna og deyja. Sameinast móður jörð.

Sennilega myndu bæði Ágústínus og Pelagíus kalla mig trúvilling og bannfæra mig í snatri væru þeir á dögum. Menn velta enn vöngum yfir hugmyndum þeirra, – er það ekki eins konar eilífð?

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 30, 2021 07:17