Allir leggi saman

Bryndís Víglundsdóttir

Hugleiðingar Bryndísar Víglundsdóttur kennara og brauðryðjanda í málefnum fatlaðra.

Hvað vil ég?

Af hverju vil ég breytingar?

Hvernig tel ég að hægt sé að ná fram breytingum?

Hvað vil ég ?

Ég vil stuðla að því að fólki líði vel á Íslandi. Mörgum líður vel, mjög vel á Íslandi, meira að segja svo vel að Ísland er ekki nógu stórt fyrir auðsæld þeirra og þeir verða að geyma gull sitt langt úti í heimi. Og ég vil að gullið sem Íslandið okkar góða og hafið kringum það gefur börnum sínum komi okkur öllum til góða. Með orðinu öllum vísa ég til fólks á öllum aldri, börnum, unglingum, fólki á atgervisárunum og gömlu fólki.

Af hverju vil ég breytingar?

Ég hef frá því ég hóf kennslustörf sem var haustið 1957 greitt útsvar og gjöld til samfélagsins af launum mínum og hafa þessir fjármunir runnið í sameiginlegan sjóð okkar sem hér búum. Ég greiði enn hluta eftirlauna minna í þennan sama sjóð og er hluti eftirlauna minna tvískattaður. Foreldrar mínir voru verkafólk og þau sögðu okkur,  börnunum sínum,  að þau væru glöð að geta tekið þátt í að bæta lífskjör okkar allra, menntun barna og ungmenna og heilsuvernd allra og væri það gert með því að fólk greiddi í sameiginlegan sjóð sem stæði undir verkefnunum. Ég tileinkaði mér þessi viðhorf og stend við þau.

En ekki eru allir sem skreyta sig með nafninu Íslendingar á þessari skoðun eins og við höfum orðið vitni að.  Viðhorfin sem foreldrar mínir höfðu fyrir mér þegar ég var barn eru ekki allra og því þarf að breyta því að fyrst þarf að breyta viðhorfum og þá er hægt að ná fram breytingum. Ég er ekki að tala um breytt viðhorf sem birtast í hátíðaræðum stjórnmálamanna, ég er að tala um vakandi meðvitund okkar allra, allra þegna lands okkar um það að við eigum að leitast við að gæta bróður okkar, hins yngsta og hins elsta. Margt af hinni sameiginlegu gæslu okkar hvert á öðru krefst fjármuna. Það kostar að reka öflugt heilbrigðis- og umönnunarkerfi, það kostar að reka vel búna skóla og við þurfum tillegg allra, ekki síst þeirra sem hafa náð til sín miklum fjármunum en ekki bara lág- og miðlauna hópsins sem nú um stundir virðist bera uppi þessa samfélagsþjónustu. Af hverju tel ég að við sem erum orðin gömul eigum að láta okkur varða um velferð barnanna? Eftir nokkur ár eiga börnin sem nú sitja í grunnskólum landsins að taka við og bera uppi samfélagið. Við sem til þekkjum vitum að kennarar berjast hetjulegri baráttu að koma þekkingu og færni til barnanna sem þeim er treyst fyrir. En við vitum líka að fjöldi barna þarf meiri hjálp og athygli en bekkjarkennarinn getur veitt hverju barni. Af hverju er þessum börnum þá ekki hjálpað? Svarið er einfalt. Undanfarið hafa framlögin til sérstakrar þjónustu, sérkennslu í skólum og annars ræktunarstarfs ekki verið nægileg til að mæta þörfunum. Afleiðingarnar koma ef til vill ekki fram í dag en þær munu hrópa á okkur og verða á dapran hátt sýnilegar, þegar þessi börn okkar eru orðin fullorðin og eiga að standa undir eigin tilveru og annarra og þessu þarf að breyta.

Hvað varðar gamla fólkið um þetta, spyr einhver? Skiptir það mig máli hver hagur barna minna og barnabarna er? Hangir velsæld mín og þeirra kannski saman?  Ég leyfi mér að halda því fram að okkur varði um afkomendur okkar, við erum öll einnar ættar.

Hvernig getum við náð fram breytingum?

Ef við, kjósendur þessa lands beitum afli okkar getum við breytt því fyrirkomulagi skattheimtu í landinu sem nú er ráðandi. Við sem erum orðin 67 ára og eldri ráðum yfir mörgum atkvæðum. Ég er að hugsa um róttækar aðgerðir, nýjar lagasetningar og að styðja það fólk til valda sem þorir að skuldbinda sig fyrir kosningar til að koma á nýjum aðferðum með nýjum lagasetningum. Og svo verður fólkið sem við kjósum að standa við loforðin. Að öðrum kosti kjósum við það ekki aftur. Ef við erum að tala um breyttan og betri aðbúnað til handa þurfandi gömlu fólki, öfluga og örugga sérkennslu og stuðning í grunnskólum okkar, breytta og manneskjulega vaxtainnheimtu banka svo að eitthvað sé nefnt, þurfum við líka að benda á leiðir sem er hægt að fara.

Og vissulega býr í okkur, gamla fólkinu, afl. Ráðamenn gerðu rétt í því að huga að og hefja alvöru samstarf við það afl sem nú er að leysast úr læðingi  í hópi eldra fólks á  Íslandi.

Við sem enn njótum heilsu og höfum nóg þurfum ekki bætt kjör. Margir aldraðir Íslendingar hafa það mjög gott og hafa ekki yfir neinu að kvarta. En gleymun því ekki þegar við setjum fram réttmætar kröfur um bættan aðbúnað fyrir þurfandi gamalt fólk að  ýmsir ungir Íslendingar berjast hetjulegri baráttu til að sökkva ekki í skuldafen og sækja margir stuðning til aldraðra foreldra sinna. Þetta er veruleikinn.

Ef við getum komist að samkomulagi um hvað við teljum sanngjarnar lífsaðstæður fyrir okkur og öll önnur börn þessa lands getum við talað einum rómi fyrir og náð fram  ýmsum endurbótum og réttlætismálum í samfélagi okkar, endurbótum sem bæði munu koma þurfandi gömlu fólki, börnum okkar og ungu fólki til góða.

Græðum saman mein og mein,

metumst ei við grannann.

Fellum saman stein við stein,

styðjum hverjir annan,

Plöntum, vökvum rein við rein,

ræktin skapar framann.

Hvað má höndin ein og ein?

Allir leggi saman.    (Matthías Jochumson)

 

Með því að smella hér, má sjá viðtal við Bryndísi sem birtist á Lifðu núna á sínum tíma.

 

Ritstjórn febrúar 25, 2021 09:47