Hugleiðing um lögin og viðhorfin

Bryndís Víglundsdóttir

Bryndís Víglundsdóttir kennari og brautryðjandi í málefnum fatlaðra skrifar

Þegar Alþingi setur saman lög og birtir okkur þau eru þau oftar en ekki ávísun eða loforð, gefin þegnunum um betra líf og bættan hag. „Fæst orð bera minnsta ábyrgð,“ dettur mér stundum í hug þegar ég les ný og metnaðarfull lög. Mér virðist nefnilega oft vera misgengi milli laga og framkvæmdar þeirra.

Keðjuverkunin

Ég virði fyrir mér sögu þjóðanna og sýnist að í ljós komi að kjör og hagur fatlaðra og annarra minnihlutahópa séu í réttu samræmi við viðhorf allra annarra borgara til náungans. Fólk sem lætur sig ekki varða um náungann lætur sig líklega ekki heldur varða um þann sem er fatlaður. Þannig er bætt líðan og mannúðleg hugsun keðjuverkandi í hverju samfélagi. Ef tilvera eins hóps sem þarf aðstoð batnar, batnar líka tilvera næsta hóps.

Á niðurlægingartíma íslensku þjóðarinnar meðan við vorum þegnar Danakonungs, illa haldin og margbarin þjóð, held ég að viðhorf okkar til fatlaðra og þeirra sem minni máttar voru hafi verið ákaflega bágborin. Og ég leyfi mér einnig að segja að það sé ekki fyrr en á síðustu 30–40 árum sem raunverulegur bati verður á viðhorfum til fatlaðra. Þá á ég við allan hópinn sem getur talist fatlaður hverjar sem orsakir fötlunarinnar eru eða á hvaða æviskeiði fötlunin leggst á fólk. Enn eru viðhorf til hinna ýmsu hópa mismunandi og enn vantar drjúgt á að góðu viðhorfin birtist í verkum. Það er lítið gagn í góðum viðhorfum sem birtast einungis í hátíðaræðum.

Börn og lasin gamalmenni eiga að því leyti samleið að þau eru ofurseld viðhorfum og frammistöðu þeirra sem enn njóta atgervisáranna.

Ríki í hnignun

Mannkynssagan virðist kenna okkur að viðhorf og framkoma við fatlaða séu í ólagi í samfélögum sem eru á niðurleið.

Við vitum hvernig fór fyrir Rómarríki hinu forna. Hvers kyns spilling og skepnuskapur tók þar völdin og menningin liðaðist hreinlega í sundur. Það er fróðlegt að virða fyrir sér um stund hver viðhorfin voru þar til fólks sem var öðruvísi, fatlað. Réttur þess var enginn. Faðirinn hafði fullkomið vald yfir fjölskyldu sinni og gat til dæmis selt börnin sín í þrældóm eða drepið þau. Á vissu skeiði Rómaveldis tóku vel stæðir borgarar upp á því að vista „fífl“ eða „fávita“ á heimilum sínum. Þetta fólk var notað til að skemmta í samkvæmum. Örlög fatlaðra í ríkjum nasista og kommúnista eru okkur kunn. Því segi ég að menn skyldu huga vel að viðhorfum sínum til fatlaðra ef þeir vilja í raun velferð og hamingju samfélagsins.

Á krepputímum

Kreppan 1930 og árin allt fram yfir seinni heimstyrjöldina gefa okkur ástæðu til að óttast um örlög fatlaðra þegar harðnar á dalnum. Við skoðun á samfélögum þetta tímabil blasir við, að bein fylgni er milli afkomu almennings og þess hvernig lífsgæða fatlaðir njóta. Þetta eru tölfræðilegar upplýsingar sem hægt er að skoða frá hvaða tímabili seinni ára sem er.

Ég held að sagan kenni okkur að við þurfum að vera vakandi um velferð fólks með sérþarfir að ekki sé dregið úr eða hætt við aðstoðina þó að samdráttur verði í samfélaginu. Í öllum tilvikum er rétt að athuga vel hvernig sameiginlegu fé okkar er varið. Þetta mál snýst um viðhorf, það snýst um hvernig við hugsum þegar á reynir.

Ritstjórn júlí 21, 2021 07:00