Tengdar greinar

Allir þögðu

Í byrjun maímánaðar flaug sú fregn um heimsbyggðina lögfræðingar Harvey Weinstein krefðust endurupptöku máls hans í kjölfar þess að áfrýjunardómstóll ómerkti dóm yfir honum og senda málið aftur á fyrri dómstig. Þetta mál skók heimsbyggðina á sínum tíma og ýtti úr vör MeToo-byltingunni svokölluðu. Flestar telja þetta alvarlegt bakslag í baráttunni gegn kynferðisofbeldi en í heimildaþáttaröðinni Untouchable rekur Ronan Farrow aðkomu sína að fréttinni sem felldi Harvey Weinstein og í kvikmyndinni She Said er sögð saga tveggja blaðakvenna, Jodi Kantor og Megan Twohey hjá New York Times sem flutti fréttina.

Ronan FarrowHeimildaþættirnir eru einstaklega vel gerðir og  margt sem kemur á óvart til að mynda að það var opinbert leyndarmál að Harvey væri kynferðisbrotamaður og Ronan langt í frá sá eini sem reyndi að fletta ofan af honum. Hópur lögfræðinga og almannatengla myndaði hins vegar skjaldborg um glæpamanninn og stjórnendur fjölmiðla lögðu ekki í slaginn. Í fyrsta þættinum talar hann við Ömbru Battiliönu Gutierrez. Harvey káfaði á henni á skrifstofu sinni og hún fór beint og kærði hann til lögreglu. Þar var henni sagt að orð gegn orði dygði ekki til að sakfella hann svo hún samþykkti að hitta hann aftur og vera með hljóðnema. Ambra og Harvey hittust á hótelbar. Í byrjun var hann kurteis en svo bað hann hana að koma með sér upp á hótelherbergi sitt. Hann sagðist þreyttur og þurfa fara í sturtu. Ambra hikaði en samþykkti svo. Á leiðinni upp í lyftunni gerði hún sér grein fyrir að síminn hennar virkaði ekki og hún óttaðist að hljóðneminn gerði það ekki heldur. Lögreglan gæti þess vegna ekki bjargað henni ef á þyrfti að halda.

Ambra greip til þess ráðs að neita að fara með honum inn í svítuna þegar upp var komið. Harvey segir þá: „Bara í fimm mínútur, láttu ekki fimm mínútur eyðileggja vináttu okkar.“ Ambra mótmælir. Hún segir honum hvað eftir annað að hún vilji ekki koma með honum, sér líði ekki vel með þetta en hann heldur áfram að þrýsta á hana. Að lokum segir hún: „Það sem gerðist í gær var ofbeldisfullt að mínu mati.“ „Ég veit,“ segir hann en lofar að gera ekkert að þessu sinni. „Í gær snertir þú brjóst mín,“ segir hún og Harvey svarar: „Því er ég svo vanur.“ Þar með var komin sönnunin sem þurfti og skömmu síðar nær Ambra að forða sér. En þótt þarna væri í raun komin játning á kynferðisofbeldinu var málið fellt niður saksóknari lagði ekki í slag við svo þekktan og valdamikinn mann en líf Ömbru var þar með lagt í rúst.

Ambra Battaliana Gutierrez var ein þeirra sem kom fram og ásakaði Weinstein.

Var sögð vændiskona

Hún var gerð ótrúverðug og enginn vildi lengur ráða hana í verkefni. Hún er hálf ítölsk og hálf filippeysk, alin upp á Ítalíu. Faðir hennar var Ítali og bæði drykkfelldur og ofbeldisfullur. Hann yfirgaf fjölskylduna þegar Ambra var unglingur og eftir það sá hún fyrir sér, móður sinni og yngri bróður með módelstörfum. Hún tók einnig þátt í Ungfrú Ítalía og komst í úrslit. Á þeim árum var Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, eigandi stærstu sjónvarpsstöðva landsins og nánast allsráðandi. Hann hélt svokölluð bunga bunga partí í höll sinni en bunga bunga er dans. Lítið var hins vegar dansað í þessum veislum því þetta var í raun kynsvall. Ömbru var boðið ásamst vinkonu sinni í eitt slíkt boð og þær fóru en komu sér í burtu þegar það sem fór fram gekk fram af þeim.

Berlusconi var hins vegar að missa völdin og Ambra var meðal þeirra sem bar vitni gegn honum þegar réttað var yfir honum vegna spillingar. Þessa fortíð notfærðu lögfræðingar og almannatenglafulltrúar Harveys sér og báru það út að hún væri vændiskona og hefði áður reynt að hafa fé af valdamiklum og ríkum mönnum með áburði um kynferðisbrot. Þegar lögfræðingur hafði samband við hana og bauð henni fé gegn því að hún skrifaði undir samning þess efnis að hún myndi aldrei tjá sig um viðskipti þeirra Weinsteins og láta þeim í té upptökuna og þau afrit sem hún ætti af þeim.

Í örvæntingu sinni og vanlíðan sá hún sér ekki annað fært en að gangast inn á þetta. Hún lét þeim allt í té nema aðgangsorðið að einum ítölskum samfélagsmiðlareikningi sínum. Hún þóttist ekki muna það í svipinn og sagðist myndu senda þeim það seinna en af því varð aldrei og aldrei gengið eftir því. Þegar Ronan hafði upp á henni átti hún þetta eina afrit af hljóðupptökunni en mátti ekki senda honum hana vegna samingsins. Ronan bað hana þess vegna að hitta sig á kaffihúsi og leyfa sér að hlusta á upptökuna en engin klásúla var um það í samingnum að hún mætti það ekki. Hann tók síðan upp það sem var spilað og þar með var hann kominn með það sem hann þurfti. En það dugði ekki til. Ronan vann hjá NBC og þrátt fyrir upptökuna og viðtöl við tvær aðrar konur sem höfðu lent í Weinstein neituðu þeir að birta fréttina. Að lokum fór Ronan með þetta til The New Yorker og allir vita framhaldið.

Gwyneth Paltrow er ein þeirra sem varð fyrir áreitni Weinsteins.

Hvar er fjölmiðlafrelsið?

Í raun er ótrúlegt að nokkuð eins og þetta skuli hafa getað gerst í Bandaríkjunum, sjálfri vöggu tjáningarfrelsins. Blaðamenn þaðan eru frægir fyrir rannsóknarblaðamennsku og óvæginn fréttaflutning gagnvart spilltum öflum í samfélaginu. Þar nægir að nefna Woodward og Bernstein sem flettu ofan af Watergate, Bill Bradlee hjá Washington Post sem leiddi hóp blaðamanna þegar Pentagon-skjölin voru birt og flettu ofan af spillingu og margs konar pólitískum og efnhagslegum flækjum Bandaríkjamanna í Víetnam og Kambódíu í aðdraganda stríðsátakanna þar og meðan á þeim stóð. Blaðamenn Boston Globe sem flettu ofan af kynferðisglæpum kaþólskra presta þar í borg og Michael Moore sem ötullega berst fyrir betri heimi með afhjúpandi og beittum heimildakvikmyndum. Þrátt fyrir þessa sterku hefð og trú manna á aðhaldshlutverk fjölmiðlanna þorði ein stærsta sjónvarpsstöð milljónaríkisins ekki að fara gegn þessum eina manni. Hvers vegna?

Hugsanlega er svarið við því einfalt. Um var að ræða kynferðisbrot gegn konum. Svo innbyggt er það í samfélagið sem við lifum í að karlar séu í fullum rétti og megi áreita konur og jafnvel nauðga þeim. Ungar, aðlaðandi konur í leit að frægð og frama ættu einfaldlega að vita að það leyfa valdakörlunum að svala fýsnum sínum er hluti af leiknum. Þær hafa ekki leyfi til að kvarta og hvað voru þær líka að elta karlinn inn á hótelherbergi, heim til hans eða inn á skrifstofu? Við hverju bjuggust þær. Nú svo var þetta líka bara kynlíf, varla yrði neinn verri fyrir það og ekki eins og þær væru hreinar meyjar. Auk þess voru sumar þessar stelpur í stuttum pilsum, þröngum blússum og jafnvel flegnum.

En auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þetta sé ástæðan, en hitt vitum við að í ríflega tuttugu ár komst Harvey Weinstein upp með að áreita, gera tilraun til að nauðga og nauðga ótal konum. Í öðrum þætti seríu sinnar ræðir Ronan Farrow við Megan Twohey. Blaðakonu sem árum saman hafði reynt að koma á framfæri fréttum af kynferðisbrotum Weinsteins. Hún, eins og allir blaðamenn í stjörnufréttum hafði heyrt orðróminn, Harvey Weinstein nauðgar konum. En sannanir skorti og ritstjórar hennar neituðu að birta. Ótal samningar höfðu verið gerðir til að þagga niður í konunum og þær hefðu átt yfir höfði sér lögsókn ef þær hefðu rofið þögnina. Rowena Chiu er þar á meðal. Hún er einnig viðmælandi Ronans og mál hennar er tveggja áratuga gamalt. Þá var hún ung að hefja starfsferil í kvikmyndabransanum og hótanir Weinsteins og lögfræðinga hans nægðu til að hún þorði ekki lengra. Í hennar tilfelli stóð auðvitað líka orð gegn orði en Harvey nauðgaði henni á hótelherbergi sínu, að eigin sögn vegna þess að hann hafði aldrei haft mök við kínverska stúlku fyrr.

Harvey Weinstein lagði feril Miru Sorvino í rúst eftir að hún neitaði honum um kynlíf.

Ashley Judd vísaði Harvey á bug og hann sá til þess að hún fengi ekki bitastæð hlutverk hjá fyrirtæki hans. Hún hefur síðan helgað sig baráttunni fyrir jafnrétti og mannréttindum kvenna.

Harvey ekki eini glæpamaðurinn

Hún var samt heppin að því leyti að framleiðandinn sem hafði ráðið hana í vinnu, trúði henni og studdi hana í ásökunum hennar gegn Weinstein. Þær voru báðar að lokum neyddar til að skrifa undir þagnarsamkomulag og borgað skaðabætur. Rowena segir að sér hafi verið ljóst á þeirri stundu að Harvey væri sannarlega ekki eini glæpamaðurinn í herberginu. Meira að segja lögfræðingar kvennanna tveggja tóku þátt í yfirhylmingunni. Það gekk allt út á vernda karlinn. Þær voru aukaatriði, líðan þeirra og brotið sem hafði verið framið og sömuleiðis auðvitað þær konur sem síðar áttu eftir að verða fyrir barðinu á sama brotamanni.

En hver er þessi mikli snillingur sem ekki mátti snerta og allir sameinuðust um að verja? Harvey Weinstein er Hollywood-framleiðandi. Hann stofnaði kvikmyndafyrirtækið Miramax og The Harvey Weinstein Company og fljótlega kom í ljós að hann var naskur á að finna góð handrit, krafðist mikils af starfsfólki sínu og sendi frá sér ótal Óskarsverðlaunamyndir, þeirra á meðal: Sex, Lies, and Videotape, The Crying Game, Pulp Fiction, The English Patient, Shakespeare in Love og The King’s Speech. Allt í allt hafa myndir hans fengið meira en þrjúhundruð tilnefningar til Óskarsverðlauna. Hann þótti auk þess frumlegur, áræðinn og harður í horn að taka viðskiptum. Hann var sömuleiðis áhrifamikill innan demókrataflokksins og var óþreytandi við afla fjár í kosningasjóði hans.

Meðal ótal þolenda margs konar kynferðisglæpa Weinsteins eru frægar leikkonur, Roseanne Arquette, Rose McGowan, Mira Sorvino, Salma Hayek og Gwyneth Paltrow. Þær Roseanne og Mira höfnuðu alfarið þreifingum Weinstein og hann bar út um þær alls konar lygar og kom í raun í veg fyrir að þær fengju bitastæð hlutverk. Sextán fyrrverandi framleiðendur, aðstoðarmenn og stjórnendur innan kvikmyndasamsteypu hans hafa sömu sögu að segja og árásirnar eru allt frá káfi upp í nauðganir. Hann fróaði sér gjarnan fyrir framan fórnarlömb sín, neyddi þær til munnmaka og tróð sér inn í þær nauðugar.

Hversu saklausir er samstarfsmenn hans?

Hann lét einkaritara sína, aðstoðarmenn og leikstjóra kvikmynda koma á fundum milli sín og leikkvenna í leita að hlutverki og fyrirsætum í leit að tækifæri í kvikmyndaheiminum. Þessir fundir enduðu allir á einn veg. Það er vitað að mjög margir vissu fullvel hvað var í gangi en boðuðu þessar konur samt á fundi með glæpamanninum. Til að mynda eru til skilaboð sem fóru á milli Irwin Reiter, háttsetts stjórnanda hjá Miramax, og Emily Nestor, ungrar konu sem segir honum að hún hafi verið áreitt af Weinstein. Þar viðurkennir Irwin að misneyting kvenna sé viðvarandi vandamál í the Weinstein Company og þeir hafi strítt við þetta undanfarin ár.

Margir starfsmenn hafa lýst því að andinn innan fyrirtækisins hafi verið að horfa ætti framhjá þessu. Þetta var þaggað niður og allir tóku þátt í meðvirkninni. Flestir kusu að horfa í hina áttina þegar vanlíðan kvenna í næsta nágrenni við Weinstein varð of augljós. Nokkrir hafa einnig stigið fram og sagt að þeir hafi verið neyddir til að fullvissa konur um að þeim væri óhætt í nágrenni við glæpamanninn og konum í fyrirtækinu var stundum falið að tæla ungar konur sem hann hafði áhuga til að koma til fundar við hann. Þær komu með þeim inn á fundinn, sátu í smástund en stóðu upp og fóru þegar Weinstein sagði þeim að þeirra væri ekki þörf lengur. Allir óttuðust einnig hefndaraðgerðir hans. Hann var gersamlega miskunnarlaus gagnvart þeim sem settu sig upp á móti honum og hikaði ekki við að eyðileggja bæði starfsferil og líf fólks sem það gerði. Þrátt fyrir það reyndu nokkrir samstarfsmanna hans að koma upp um hann, segja frá hvað væri að gerast. En þeir höfðu ekki sannanir fremur en aðrir, engin vitni voru að því sem fram fór milli Weinsteins og kvennanna sem hann réðst á. Hann sá til þess.

10. október árið 2017 þegar The New Yorker hafði birt sögu Ronan Farrows sendi stjórn the Weinstein Company frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að ásakanir þær sem fjallað væri um í fréttinni kæmi stjórninni algjörlega í opna skjöldu og að allar ásakanir um að stjórnin hefði haft um þetta einhverja vitneskju væru fullkomlega rangar. Síðan það var hafa MeToo-bylgjur risið og hnigið. Konur hafa stigið fram til stuðnings kynsystrum sínum og ýmist nefnt eða haldið nöfnum gerenda sinna leyndum. gerð hefur verið krafa um að meðvirkni samfélagsins með gerendum hætti. Að menn líti ekki lengur framhjá því sem menn eins og Harvey Weinstein gera bak við lokaðar dyr einir með þolendum sínum, að samfélagið allt hætti að horfa framhjá glæpum þeirra.  Það er ekki nóg að stíga fram með göfugan svip og segja. „Ég biðst afsökunar ef ég hef stigið yfir mörk einhvers.“. Ýmis merki eru um að nú sé komið alvarlegt bakslag í baráttuna gegn kynferðisofbeldi og þessi sigur Harvey Weinsteins ótvírætt merki þess að svo sé.

Þetta gerist þrátt fyrir að vaxandi safn vísindalegra gagna sem sýna fram alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis og hversu sjaldgæft það er að konur ljúgi til um kynferðisofbeldi. Engin manneskja heldur það út að gera sér upp vanlíðan árum saman. Konur bera sár og í sumum tilfellum eru þau svo stór að lífsgæði þeirra eru verulega skerrt. Þá er ekkert ef, enginn vafi á að farið hefur verið gróflega yfir öll mörk og samfélagið allt skuldar þessari manneskju stuðning.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 31, 2024 07:00