Hafsjór af lykkjum er stórfalleg og skemmtileg prjónabók þar sem allar uppskriftir eru innblásnar af sjóarapeysum hingað og þangað um Evrópu. Víðast hvar fylgdi kuldi og vosbúð sjósókn og þess vegna var leitast við að búa sem best að þeim sem réru af stað út á miðin til að sækja björgina.
Margir Íslendingar muna duggarapeysurnar, bláar, þéttprjónaðar og háar í hálsinn. Þessar peysur voru franskar, upprunnar í Bretagne. Á frönsku heita þær bleu de cheuffe og eru gerðar úr þykkri ull. Sjómenn á frönsku duggunum á Íslandsmiðum klæddust þeim og þaðan kemur íslenska nafnið. Franski flotinn tók upp mjög svipuð snið og gerð af peysum en þær voru oft með tau bótum á öxlum og tölum í hálsmálinu. Aðeins sunnar á skaganum var venjan hins vegar að prjóna röndóttar peysur, oftast í bláu og hvítu.
Írsku peysurnar heita hins vegar Aran og gerðar úr lambsull og í þær var prjónað flókið mynstur. Hver fjölskylda hafði sitt mynstur og sinn lit. Sagan segir að það hafi verið til þess að hægt væri að þekkja lík sjómannanna þegar þau ræki á fjörur ef illa færi í sjóferðinni. Í Skotlandi aftur á móti voru peysurnar úr fyrsta flokks Shetlands-ull.
En hvort sem fólk heillast af írskum peysum, frönskum, íslenskum eða skoskum er gaman að prjóna þær. Í nýrri prjónabók, Hafsjór af lykkjum er að finna margar einstaklega fallegar uppskriftir af peysum sem eru innblásnar af hefðinni að prjóna á ástvini sína til halda á þeim hita við allar aðstæður. Þessar peysur eiga það einnig sameiginlegt að vera gullfallegar og klæðilegar. Það eru þær Lotte Rahbek og Gitte Verner-Jensen sem eru höfundar þessarar fallegu prjónabókar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.