Allt sem þú vilt vita um efri árin á einum stað

Væri ekki dásamlegt að hafa á einum stað allar þær upplýsingar sem mann vantar? Jú, sannarlega og island.is kemst næst því að vera sá draumastaður. Þær Berglind Magnúsdóttir og Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir sérfræðingar hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu segja að einn liður í Gott að eldast, aðgerðaráætlun ríkistjórnarinnar í málefnum eldra fólks, sé einmitt ein upplýsingagátt fyrir allt landið þar sem hægt sé að fá svar við langflestum ef ekki öllum þeim spurningum sem brenna á fólki varðandi lífið eftir sextugt.

Berglind Magnúsdóttir sálfræðingur og sérfræðingur í félags- og vinnumálaráðuneytinu.

„Þessi aðgerðaráætlun snýst um þjónustu við eldra fólk,“ segir Berglind. „Skipuð var verkefnastjórn af heilbrigðiráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra, til 4 ára, til að vinna að gerðaáætlun og svo til að fylgja henni eftir. Til grundvallar vinnu lágu skýrslur og stefnur unnar fyrir stjórnvöld á síðustu árum, svo ekki var verið að byrja á grunninum, heldur skoðað hvað hefði verið lagt til og úr urðu nítján aðgerðir. Þeim er skipt upp í fimm þætti en gróflega má tala um tvo áhersluþætti,  annars vegar að efla heimaþjónustu m.a með því að samþætta hana og búa einnig um hnútana að hægt sé að hlúa að innviðum heimaþjónustunnar.

Hinn stóri vinkillinn er svo hvernig fækkum viðþeim sem þurfa að flytja á hjúkrunraheimili. Þá erum við að horfa á heilbrigða öldrun Þetta eru þessi tvö meginþemu annars vegar að bæta heimaþjónustuna til að seinka  eða koma í veg fyrir að fólk verði að flytja á hjúkrunarheimili og að stefna að því að við séum með heilbrigðara eldra fólk. Það er langtíma verkefni og snýst um alhliða heilsueflingar, andlegrar, félagslegrar og líkamlegrar.

Svo kemur að því sem bæði íbúar  og starfsfólk í öldrunarþjónustu hafa ítrekað bent á og það er hversu erfitt það er að fá upplýsingar um hvað eina sem varðar þetta æviskeið.  Annað hvort er maður sjálfur í þörf fyrir þjónustu eða er aðstandandi þeirra sem þurfa á þjónustu að hadla. Það gerist oft ótrúlega hratt að þörf sé fyrir þjónustu og þá ríður á að vera fljótur að afla nauðsynlegra upplýsinga. Þessi upplýsingagjöf hefur ekki verið nógu góð og ein af aðgerðum aðgerðaáætlunar hefur verið að búa til eina upplýsingagátt fyrir allt landið þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar varðandi réttindi, þjónustu og hvert á að leita og að þar sé hægt að komast í netspjall og símasamband. Gott að eldast og Ísland.is hófu formlegt samstarf  um þetta á síðasta ári og voru þær  Guðrún Björg og Vilborg Gunnarsdóttir ráðnar sérstaklega til að vinna að þessari aðgerð.“

Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur hjá félags- og vinnumálaráðuneyti.

Fá rýnihópa til að hjálpa

„Við reynum að draga saman allt sem okkur dettur í hug bæði hvað varðar farsæl eldri ár, réttindi og þjónustu, eftirlaun, lífeyri, heilsueflingu, félags- og þjónustumiðstöðvar, búa heima með stuðningi, breytingar á heilsufari, stuðningur við aðstandendur, lífshlaup og góð ráð,“ segir Guðrún Björg. „Það sem við erum að gera núna er að setja upp tiltölulega stutta texta um hvern lið og vísa síðan í frekari upplýsingar með tenglum á aðra vefi eins og heilsuveru og fleira.

Við höfum fengið gagnlegar ábendingar héðan og þaðan en finnst það ekki ganga nógu hratt svo við verðum með tvo rýnihópa á næstunni bæði með starfsmönnum í öldrunarþjónustu og eldra fólki. Tilgangurinn er að fá ábendingar um hvað brennur helst á fólki og hvernig eigum við að gera þetta. Við ætlum líka að fá til okkar aðstandendur því við teljum að vefurinn muni einnig þjóna þeim. Þetta er þannig uppbyggt að meðan þú ert enn tiltölulega hress getur þú farið í fyrri partinn en svo fer að koma að þjónustu og þá geta aðstandendur komið inn og skoðað hvað þeir geti gert. Í bígerð er einnig að koma með spjallmenni en þar erum við komin með ákveðinn pakka, spurningar og svör. Svo eru heilar undirsíður um margt eins og lífeyrismál vegna þess að þau eru svo stór.“

Meðal þess sem rætt er á vefnum er öryggi á heimilum og þar er rætt um ofbeldi og hvernig má fá aðstoð.

„Við hittum fólk frá Neyðarlínunni og settum inn tengil á upplýsingar sem þeir hafa safnað um ofbeldi og við reynum að gera það hvenær sem við getum,“ segir Guðrún Björg. „Við erum búnar að bæta inn tenglum á þjónustumiðstöðvar og ég var að bæta inn í upplýsingum um orlofsdvöl aldraðra á Löngumýri í Skagafirði. Við reynum að vinna þetta frekar hratt og síðan er líka til á ensku. Því miður vantar enn töluvert af efni á ensku á sumum þeim vefjum sem við tengjum á en fólk getur auðvitað sett efnið í þýðingarforrit Google.“

Vitundarvakning um félagslega einangrun

„Annað sem mun fylgja þessari aðgerðaráætlun er vitundarvakning,“ bætir Berglind við. „Það má skipta málflokknum upp í praktíska hluti eins og sjá má á síðunni og svo hitt huglæga sem mun ef til vill taka langan tíma. Það snýst um að vekja fólk til vitundar um allt sem varðar heilbrigða öldrun. Þá viljum við ná til fólks mun yngra, kannski bara rétt um fimmtugt og spyrja það hvernig það vilji verja sínum efri árum. Hvar vilt þú vera þegar þú verður sjötíu og fimm ára? Við munum hefja  vitundarvakninguna með því að  fjalla um félagslega einangrun. Verið er að  vinna fagefnið, svara því hvað er félagsleg einangrun, hvernig má þekkja einmanaleika og áhættuþætti er þetta varðar í samfélaginu. Við getum öll verið vakandi fyrir þessu og í framhaldinu verða haldnir fundir út um allt land.“

Þetta er mjög spennandi einkum í ljósi þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuni hefur lýst því yfir að einmanaleiki sé faraldur á Vesturlöndum. Við getum áreiðanlega öll gert betur í að rækta náin tengsl og komið vel fram við náungann. Gefið okkur tíma til að spjalla, heilsa og láta okkur nágrannana varða.

„Við erum alltaf að leita að góðum ráðum,“ segir Berglind. „Við viljum gjarnan geta hjálpað þegar fólk þarf á einhverju sértæku að halda til dæmis ef það er að leita að gervigæludýrum, klukku sem sýnir hvort er dagur eða nótt, einföldum símum eða hvert hægt sé að fara með þvottinn. Við erum í raun að leita allra leiða til að koma af stað vitundarvakningu um breytingar í samfélaginu sem tengjast efri árunum.

Þegar maður spyr fólk sem hættir að vinna snemma, kannski sextíu og fimm ára, hvað ætlar þú að gera næstu tuttugu og fimm, þrjátíu árin verður oft fátt um svör. En ef maður spyr hvað gerðir þú fyrir þrjátíu árum telur það upp ótal hluti, ég stofnaði fyrirtæki, svo voru börnin, húsnæðið og fjölskyldan. Ég hitti nýlega mann sem er sextíu og fjögurra ára og stóð á þessum tímamótum og hann svaraði: „Nú ég ætla að vera í golfi.“ „Já, gott og vel,“ sagði ég, „Hvað ætlar þú að gera? Þú átt framundan ótal góð ár.“ Við erum fyrsta kynslóðin til að upplifa starfslok meðan enn er eftir nóg þrek. Kynslóðir á undan voru bara orðnar lúnar og oft heilsulausar þegar kom að því að hætta að vinna. Við þurfum að vekja fólk til umhugsunar um að það þarf að undirbúa starfslokin og getur jafnvel kosið að vinna lengur.“

Þetta verða lokaorðin að þessu sinni en upplýsingagáttin https://island.is/lifsvidburdir/ad-eldast er opin og þar er að finna margt gagnlegt og þar er þægilegt að leita.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 20, 2024 07:00