Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Ég er að verða óskrifandi með penna. Þetta stafar bæði af æfingarleysi og stirðleika ellinnar. Eina sem ég skrifa er nafnið mitt og það gerist sjaldan. Jú, þegar ég undirrita einhver gögn. Ég skrifaði einu sinni nokkuð vel, en rithöndin mín var samt aldrei eins falleg og rithönd pabba. Ég öfundaði hann. Mig grunar að næstu kynslóðir munu reka upp stór augu ef einhver talar um fallega rithönd. Hvað er nú það?
Þegar ég var í menntaskóla varð ég ástfangin af skólabróður mínum og tilkynnti foreldrum mínum að við ætluðum að trúlofast. Pabba leist ekkert á það. Mamma hélt sig til hlés. En ef ég ætlaði að láta slag standa, skyldi ég hætta í þessum vitlausa skóla þar sem ég lærði hvort sem er ekkert að gagni, sagði pabbi. Ég kynni ekki neitt. Ekki einu sinni að skrifa upp á víxil! Hann lagði til að ég lærði vélritun og yrði skrifstofustúlka eða hárgreiðslukona. Ég fór í fýlu og ákvað að skrá mig á vélritunarnámskeið án þess að hann vissi af. Það varð til þess að ég lærði fingrasetninguna, nema tölustafina. Fór á ball það kvöld.
Kærastinn sveik mig þannig að ég varð hvorki hárgreiðslukona né skrifstofustúlka. En vélritun kann ég og örlögin réðu því að ritvél og tölvur urðu mín verkfæri. Eftir stúdentspróf keypti ég mér litla ritvél sem ég á enn. Börn fá að leika sér að henni þegar þau koma í heimsókn. Hún gagnaðist mér vel til einkanota og á fjölmiðlum fékk ég stærri og betri útgáfur. Penninn var kominn á hliðarlínuna.
Svo kom tölvan. Ég kynntist því töfratæki þegar ég var að skrifa doktorsritgerðina mína i kringum 1985. Grænn skjár blasti við mér í gegnum sólgleraugun tíu tíma, dag eftir dag, viku eftir viku þar til ritgerðin var tilbúin. Augun voru rauð og bólgin.
Ég var alltaf hálf hrædd við þetta galdratæki og treysti því ekki. Ég lærði bara það sem ég nauðsynlega þurfti. Ég er enn á þeim stað. Ég stranda enn og þarf aðstoð. Ég held að kynslóðin sem er fædd og uppalin með tölvuna í kjöltunni þekki ekki þessa óttatilfinningu. Þegar ég bið hana um aðstoð er málið leyst fyrir mig á sekúndubroti. En ég er engu nær. Það er enginn tími til þess að útskýra.
En ég er búin að finna lausnina. Hún er sú að hlaupa yfir eina kynslóð og tala við barnabörnin þegar ég er á strandstað. Viðbrögðin eru ótrúleg og jákvæð – Amma – á ég að sýna þér, er setning sem hljómar eins og englasöngur. Ef þú gerir svona þá ….. Þessir leynivinir mínir eru ómetanlegir.
Ég hef það á tilfinningunni að þeim þyki gott að geta kennt ömmu sinni eitthvað til mótvægis við það sem ég hef kennt þeim. Þau hafa sömu þolinmæðina í kennslunni um leyndarmál tölvunnar og ég hef haft þegar ég hef kennt þeim danska málfræði eða hjálpað þeim við uppsetningu á ritgerðum í íslensku þegar mikið hefur legið við.
Í þessu hjálparstarfi er gagnkvæm virðing þar sem kynslóðabilið gufar upp á auga bragði og væntumþykja ræður ríkjum.