Meðvituð breikkun á lærum

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Þegar ég var stelpa þóttu mér jafnöldrur mínar ótrúlega flottar, sem voru með granna fætur. Því mjórri læri, því flottari. Sennilega tengdist þetta því að ég var ekki með granna fætur. En þeir hafa hins vegar dugað mér vel, kannski vegna þessa, og komið mér upp á fjallstoppa og endalausar vegalengdir á flatlendi. Aldrei hafa þeir brotnað eða gefið sig. Þar til allt í einu.

Ég hafði fundið fyrir því að annað hnéið var eitthvað bólgið og aumt. Mín leið frá kvillum hefur verið sú að bíða, bíta á jaxlinn og láta tímann vinna með mér. Ég ætlaði mér að nota þá aðferð í þetta sinn. En nú gekk hún ekki upp.

Ég var á gangi í miðborg Reykjavíkur þegar eitthvað klikkaði í hnéinu á mér og ég komast ekki úr sporunum. Ég reyndi en langaði bara til að leggjast á gangstéttina og gráta. Kona með hund gekk fram hjá mér. Hundurinn ærðist. Konan reyndi að róa mig með því að segja að hann væri hræddur af því að ég hreyfði mig svo undarlega. Huggun í því!  Ég hringdi í vinkonu mína sem sótti mig og kom mér heim.

Eftir nokkra vikna kvalræði ákvað ég að brjóta odd af oflæti mínu og fara til læknis. Ég pantaði tíma á heilsugæslustöð en heimilislæknirinn minn var í sumarfríi. Ég gæti hitt afleysingalækni. Þetta reyndist ungur maður eða fóstur í jakkafötum, eins og þessi kynslóð er stundum kölluð. Hann var ósköp ljúfur. Þegar hann spurði mig hvort ég væri með æðahnúta missti ég trú á tilgang heimsóknarinnar. Ég er ekki með æðahnúta. Ég er með bilað hné!

Ég hökti áfram í einhverjar vikur og komst loks til bæklunarlæknis í gegnum sambönd. Slit, vökvasöfnun og bólgur voru niðurstöðurnar. Þar með var ég komin á endurvinnslualdurinn. Nýtt hné innan einhverra ára, var spáin. Hann tappaði af vökva og gaf mér stera. Hann huggaði mig með því að stundum virkaði slík aðferð ekki neitt en stundum í einhverja mánuði. Svo kom rúsínan í pylsuendanum. Hann horfði á hnéin á mér og sagði að ég þyrfti að byggja upp lærvöðva um 10%. Tilgangurinn með því væri að minnka álagið á slitna liðinn. Ég sem alltaf hef stundað göngur og verið með sterk læri. Göngur eru góðar en duga ekki einar og sér, var svarið.

Bæklunarlæknirinn sendi mig til sjúkraþjálfara sem kenndi mér að gera æfingar til þess að ná þessari 10% aukningu á vöðvamassanum. Ég er lærður íþróttakennari frá því í gamla daga en er samt í hópi þeirra mörgu sem fá sig ekki til þess að fara inn á líkamsræktarstöð. Það er bara eitthvað sem ég ræð ekki við. En sjúkraþjálfarinn hafði ráð við því. Ég keypti hjá honum 2 teygjur, græna og rauða og fór út frá honum með eitt blað með æfingum sem væru gagnlegar.

Teygjurnar lágu ónotaðar í nokkrar vikur en svo tók ég mig á og byrjaði. – Í dag nota ég 20-25 mínútur á HVERJUM morgni og geri hnélyftur og ýmsar æfingar með þessum einföldu tækjum, sem kostuðu sáralítið ekki neitt. Þegar ég ferðast tek ég teygjurnar með og fer ekki út í daginn án þess að klára æfingarnar.

Ég held því fram að ég sé komin með sterkari vöðva en áður og hef ekki fundið til í hnjánum síðan ég fór að hlusta á sérfræðingana. Ég veit ekki hversu lengi þessi sjálfshjálp dugar en er á meðan er. Ég mæli með þessu fyrir ykkur sem eruð komin með krankleika í hnjáliði.

P.s. Mér þykir ekki lengur flott að vera með mjóa fætur, en kannski eru þau bara súr, eins og refurinn sagði.                           

Sigrún Stefánsdóttir mars 9, 2024 07:00