Svarti dauði og rauður hundur

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi

 

Ég fékk skilaboð og mynd af yngsta barnabarninu mínu, átta ára gömlum bláeygðum herra. „Sprauta. Svo duglegur og flottur. Kveinkaði sér varla“. Á myndinni af hetjunni sást bara í alvarleg augu barns. Húfan hylur ennið og blá andlitsgríman felur neðri hluta andlitsins. Myndin minnir á kúgaða konu á frá Austurlöndum en ekki saklaust barn á Akureyri.

Ég átti dagstund með þeim nýsprautaða í gær og við ræddum ástandið. Hann sagði mér að pabbi hans hefði sagt honum að horfa í augun á sér þegar hann fékk spautuna og það hafi ekki ekki verið neitt vont. Hann hefði fengið að sjá brunabíla og gervi-eld en núna væri honum illt í handleggnum. Ég spurði hann hvað hann hefði gert í skólanum. Jú, þau höfðu verið að reikna, farið út í leik, og talað um covid. Hann trúði mér fyrir því að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem svona veiki hafi komið upp. Hann sagði mér frá svarta dauða og rauðum hundi  og einhverjum fleiri árans pestum eins og hlaupabólu. Ég bætti við listann og  sagði honum frá Spænsku veikinni og Akureyrarveikinni. Í kjölfarið rifjuðust upp mínar fyrstu minningar þar sem ég sat í innirólu, grátandi og sárlasin. Ég hafði verið sprautuð við lömunarveiki. Svo illa vildi til að fyrsta sending af bóluefninu var tvöföld að styrkleika og var afturkölluð snarlega. Ég var meðal þeirra barna sem fengu sterku blönduna. Mér hefur aldrei verið vel við sprautur síðan.

Þetta eru undarlegir tímar fyrir alla aldurshópa. Sennilega vanmetum við álagið sem covid er á börnin. Það er allt breytt og ekkert má. Öll loforð eru með fyrirvara. Það verður skóli á morgun ef…..Við förum í leikhús ef… Þið komið í mat til okkar ef…. Það er löngu orðin áhætta að faðma ömmu sína og afa. Litli minni er búinn að kenna mér að ef ég komi nálægt einhverjum sem er smitaður eigi ég að reyna að hlaupa eins hratt í burtu og ég mögulega geti. Það er kannski eins gott ráð og hvert annað, á þessum tíma þegar smittölur ná inn í hvern einasta fréttatíma.

Við ákváðum  að enda samverustundina með því að horfa á Emil í Kattholti í tölvunni minni. Hjá Emil var ekkert covid. En samt var fjölskyldan í Kattholti ekki laus við veikindi. Vinnumaðurinn var að tálga hrífutind og skar sig. Það kom ígerð í sárið og Emil bjargaði vini sínum með snarræði. Hann kom honum undir læknishendur í svartabyl áður en blóðeitrun varð vinnumanninum að aldurtila. Ég þurfti að útskýra tvö orð í þessari senu. Annað var orðið hrífutindur og hitt orðið blóðeitrun. Bæði þessi orð eru gegnsæ og auðútskýranleg. Þetta vakti upp þá spurningu hvort ekki hefði verið betra að nota íslenskt orð yfir erkifjandann  okkar – covid. Kannski hefðum við gert það í ársbyrjun 2020 ef okkur hefði dreymt um hversu oft þetta orð átti eftir að heyrast og hversu undarlegar hugmyndir börn hafa fengið um veiruna sem brýtur allar íslenskar málfræðireglur með því að byrja á stafnum C.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 2, 2022 07:00