Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Þegar ég ætlaði að tannbursta mig í morgun blöstu við mér í vaskinum afklippur af skeggi sambýlismannsins. Ég bölvaði í hljóði, náði í tusku og þurrkaði eftirlegubroddana í burtu. Ekki í fyrsta sinn á aldarfjórðungs sambýli. Ég hef aldrei séð manninn skegglausan. Skeggið er orðið grásprengt en annars hefur það ekki breyst þó svo að hárið á kollinum hafi þynnst. Ég er ekki vissum að ég myndi þekkja hann á götu skegglausan. Ég horfðist í augu við sjálfa mig í speglinum og spurði mig þeirrar einföldu spurningar: Hvers vegna eru menn með skegg? Spegilmyndin átti ekkert svar.
Við erum nýbúin að kveðja mottumars sem er ætlaður til þess að hvetja karlmenn til þess að fylgjast vel með krabbameinseinkennum í kynfærum. Á þessari stundu er það kannski eina skynsamlega skýringin á því hvers vegna menn ættu að láta sér vaxa skegg. Það fer ekki á milli mála að það er mikilvægt að fylgjast með einkennum blöðruhálskrabbameins, ekki bara í mars heldur alla aðra mánuði ársins. En hvort menn þurfi að safna skeggi í þessum tilgangi er látið ósagt.
Ég reyndi að googla fróðleik um það hvers vegna mönnum vex skegg. Ég fékk enga skýringu. En sennilega er skýringin eitthvað í takt við það að konur fá brjóst og leg og annað tengt hormónum. Ég fann hins vegar ýmis konar fróðleik um fyrirbærið. Skegg er æðislegt var sagt á einum stað. Menn með skegg eru líklegri til að stela, halda framhjá og slást var fullyrt á öðrum stað hjá vini mínum Google. Loks fann ég mikilvægan fróðleik um það hvernig eigi að rækta skegg þar sem það kemur ekki út. Ég nennti nú ekki að kynna mér það í smáatriðum, enda kemur skeggið á mínum sambýlismanni sannarlega út og niður í vaskinn.
Pabbi minn heitinn gerði nokkrar tilraunir til þess að safna skeggi. Hann var með kalbletti í skegginu eins og hann kallaði það. Sennilega er það sama fyrirbæri og ég nefndi hér að framan – skeggið kom ekki út. En þar sem Google var ekki til á skeggvaxtartímabili pabba fékk hann engin góð ráð til þess að leysa þennan alvarlega vanda. Fjölskyldan varð alltaf afskaplega hamingjusöm þegar hann ákvað að hætta að láta sér vaxa skegg og fór þess í stað út í garð til þess að rækta grænmeti. Pabbi var æðislegur skegglaus!
Yngsti bróðir minn er núna í þessu sama tilraunaferli og pabbi. Hann er kominn með alskegg og hefur elst við það um tíu til fimmtán ár að mati okkar systra. Hann er mjög stoltur af þessari framleiðslu og strýkur skeggið ánægður enda ekki með neina kalbletti eins og pabbi var með. Fínt fyrir hann.
Það eru ýmsar frægar persónur sem eru ýmist þekktar af skeggi eða skeggleysi. Bláskeggur varð ódauðlegur vegna nafnsins og Njáll á Bergþórshvoli fékk á sig ýmsa dóma samtímans vegna skeggleysis.
Nú nálgast forsetakosningarnar með ægihraða. Ef ónefnt par nær kosningum má ætla að vinsældir karla með myndarlegan skeggvöxt nái sögulegu hámarki á Íslandi innan fárra mánaða. Já, skegg er æðislegt.