Hvað er sönn ást? Er hún fólgin í því að setja alltaf þarfir annarra umfram sínar eigin, gera aldrei kröfur eða er hægt að sleppa? Leyfa þeim sem maður elskar að hafa frelsi og rúm til að vera hamingjusamur jafnvel þótt það stríði gegn því sem maður helst óskar sjálfur? Þessum spurningum og fleiri áleitnum og djúpum um ástina, fjölskyldutengslin og samskipti er velt upp í bókinni Tengdamamman eftir Mou Herngren. Þetta er feykilega vel skrifuð bók, áhrifamikil og spennandi. Það varla hægt að leggja hana frá sér fyrr en hún hefur verið lesin til enda.
Kannski er sagan svona grípandi vegna þess að öll getum við speglað okkur í því sem gerist. Ása er samskiptaráðgjafi og einstæð móðir. Hún hefur lifað fyrir, Andreas, son sinn frá því faðir hans, og eiginmaður hennar, gekk út af heimilinu til óléttrar ástkonu sinnar og virtist þar með hafa gleymt að hann átti annað barn fyrir. Ása nýtur stuðnings móður sinnar og bestu vinkonu, Stína, en þarf engu að síður að taka á sig alla ábyrgðina og vinnuna við að ala upp barn. Faðir hans býr í öðru landi og sárindin vegna skilnaðarins sitja í tilfinningalífi Ásu, hugsanlega er hún of föst í þeim.
Þegar Andreas fer að vera með Jósefínu, dóttur Stínu, hefur Ása strax efasemdir um sambandið. Jósefína hefur að hennar mati alltaf verið ofdekruð og stjórnsöm. Hún er þar að auki tilfinningalega lokuð og það er sama hversu mjög Ása leggur sig fram henni tekst ekki að ná sambandi við hana eða skapa einhvers konar tengsl. Togstreitan nær hámarki þegar Jóesefína verður ófrísk og Andreas leitar til sálfræðings. Í kjölfarið lokar hann á samskipti við móður sína, biður hana að virða það að hann þarf hvíld frá ofverndun hennar og sífelldum kröfum um staðfestingu og ást.
Fjölskyldumynstrið er flókið
Það er ekki vert að rekja söguþráðinn frekar en Moa nær að draga upp trúverðuga og einstaklega næma mynd af bæði móður og syni. Jósefína stendur lesandanum einnig ljóslifandi fyrir hugskotsjónum og sömuleiðis Stína, vinkonan sem sett er í mjög svo erfiða stöðu aftur og aftur. Öll telja þau gerðir sínar snúast um kærleika, um það sem rétt er en samt tekst þeim öllum að klúðra rækilega samskiptum og beita lævísi, stjórnsemi og árásargirni. Já, ástin getur verið flókin og stundum snýst hún um yfirráð, um að vera uppáhaldið, hinn ómissandi. Mou tekst líka að sýna ákaflega vel hvernig hver og einn skilur samskiptin við hina sínum skilningi. Hvernig lesið er í svipbrigði, orð og fas oft eitthvað sem viðkomandi ætlar sér alls ekki að miðla.
Í flestum fjölskyldum finnst eitthvað af því sem hér er til umræðu. Allir hafa sínar þarfir og eru háðir öðrum og geta ekki sleppt. Oft þarf að dansa erfiðan línudans til að halda öllum góðum og það er alltaf einhver sem tapar, einhver sem missir eitthvað sem hefði átt að vera hans. Hér er meistaralega farið með viðkvæmt söguefni og lesandinn sveiflast milli sorgar, reiði, pirrings og skilnings. Þótt við vitum innst inni að sjaldnast enda svona sögur vel er það samt það sem við þráum. Getur samskiptaráðgjafinn lagað eigin samskipti? Hefur hún næga innsýn í sjálfa sig og eigin galla til þess? Eða er það einhver annar í þessum þríhyrningi sem þarf að opna augun og öðlast skilning? Hver og einn verður að dæma það fyrir sig en þessi bók hlýtur að hafa djúpstæð áhrif á alla foreldra sem lesa hana. Það er óhjákvæmilegt að spyrja sjálfan sig hvort maður hafi sýnt börnunum sínum nægan skilning, virt mörk þeirra og tengdabarnanna og í raun sleppt tökunum, leyft þeim að verða fullorðin?
En þrátt fyrir allt þetta er samúð manns með Ásu. Hún er góð kona, kærleiksrík og hún bað alls ekki um að standa uppi ein með barn. Hún gerir sitt besta en okkar best er oft ekki nóg og bara alls ekki gott í mörgum tilfellum. Það má líka spyrja sig hvort afar og ömmur eigi í öllum tilfellum rétt á að umgangast barnabörn sín og svo það hvort það sé virkilega þess virði, sama hvað gengur á, að brjóta upp fjölskyldu sína, slíta hana í sundur? Þetta er ein af þessum bókum sem situr í manni og mun gera það lengi. Hún þarfnast umhugsunar og vangaveltna og ein af þeim sem er kjörin fyrir bókaklúbba því hér er svo ótal margt að sem virkilega þarf að tala um.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.