Heillandi glæpir

Allflestir miða upphaf glæpasagna sem bókmenntagreinar við  árið 1844 þegar fyrsta saga  Edgars Allans  Poe um spæjarann C: Auguste Lupin kom út. Alls skrifaði Poe þrjár sögur um Lupin en margt bendir til að rætur glæpasögunnar liggi dýpra og víðar en hjá Poe.

Í sögusafninu Þúsund og einni nótt eru saga sem flokka mætti undir glæpasögu og er það elsta þekkta dæmi um þessa bókmenntagrein. Sagan heitir Eplin þrjú en í henni segir af fiskimanni sem finnur þunga, lokaða kistu í ánni Tígris. Hann selur kalífanum Harun Al Rashid hana en þegar hún er opnuð reynist hún innihalda sundurskorið lík ungrar konu. Harun skipar vesír sínum J’afar Ibhn Yahya að rannsaka málið og finna morðingjann innan þriggja daga eða verða hálshöggvinn ella. J’afar hefur í raun lítinn áhuga á að leysa málið og spennan byggist mest upp í kringum ýmis konar flækjur í söguþræðinum og óvæntar uppákomur.

Málið leysist nánast af sjálfu sér þegar morðinginn játar glæp sinn en þá kemur í ljós að hann var fenginn til verksins af öðrum og aftur fær kalífinn J’afar það verkefni að finna hann innan þriggja daga. Það tekst ekki en vegna þess að vesírinn finnur mikilvæga vísbendingu sem bendir á sökudólginn sem leigði morðingjann sleppur J‘afar við aftöku.

Hryllingurinn verður til

Eplin þrjú fellur undir sakamálasögu vegna þess að hún snýst og ráðgátu, byggir upp spennu og þar er einstaklingur sem rannsakar glæp. Fyrirrennarar hinnar hefðbundnu glæpasögu eins og við þekkjum hana í dag. Síðar verða til hryllingssögur, t.d. sögur Edgars Allan Poes, The Cask of Armontillado og The Fall of the House Usher. Sú fyrri fjallar um morð sem framið er í hefndarskyni á kjötkveðjuhátíð í ónefndri borg en sú síðari um mann sem svarar hjálparbeiðni veiks vinar síns. Sá býr á afskekktu ættaróðali en hann trúir vini sínum fyrir því að hann haldi að draugar sveimi um húsið geri sig og tvíburasystur sína veik. Sagan endar með miklum skelfingu og það síðasta sem sögumaður sér þar sem hann flýr í skelfingu er að eldingu lýstur ofan í húsið og það kviknar í því.  Í raun hverfist sagan um sektarkennd og sálarstríð óðalseigandans, Roderick Usher en slíkar tilfinningar endurspeglast einnig í kvæði Poes The Beating Heart.

Ráðgátan kemur til sögunnar

Edgar Allan Poe varð fyrstur til að skrifa svokallaða ráðgátusögu en smásagan The Murders in the Rue Morgue snýst um morð sem framin eru í læstu herbergi á fjórðu hæð. Nokkrar mikilvægar vísbendingar leiða C. Auguste Dupin að lausn gátunnar þar á meðal óvenjulegt hár sem finnst á morðstaðnum, sú staðreynd að vitni heyrðu raddir og töldu morðingjann tala erlent tungumál en enginn gerði sér grein fyrir hvaða mál það var og svo auðvitað hvernig hann komst inn í íbúðina. Morðinginn reynist vera órangútan sem slapp frá eiganda sínum en Dupin sýnir stórkostlega hæfni til rökhugsunar við lausn málsins.

Auguste Dupin er að því er vitað er fyrsta skáldsagnapersónan til að hafa rannsóknir glæpamála að aðalstarfi. Hann er því fyrsti einkaspæjarinn og líklega sá sem leggur grunninn að því að sú starfsgrein var til. Næstur kemur til sögunnar Sherlock Holmes en arftakar hans koma fram á sjónarsviðið á gullöld glæpasagnaritunar í Bretlandi og Bandaríkjunum. Agatha Christie stígur fram á sjónarsviðið með Hercule Poirot og Hasting og Mrs. Marple og Dorothy L. Sayers með Lord Peter Wimsey. Þarna verða til svokallaðar hver gerði það bækur, þ.e. saga sem hverfist um leit hins snjalla gáfumanns að kaldrifjuðum morðingja sem gerir sitt til að hylja slóðina.

Flestir þessara fyrstu spæjara eiga það sameiginlegt að vera einir á báti. Ekki ber sérstaklega á því að Mrs. Marple eða Hercule Poirot hafi verið einmana. Bæði eiga fjölda vina og virðast aldei sakna þess að hafa ekki eignast maka eða börn. Lord Peter Wimsey hafði verið trúlofaður áður en hann hélt til Frakklands að berjast í fyrri heimstyrjöldinni en sleit trúlofun sinni til að stúlkan teldi sig ekki bundna honum ef ske kynni að hann kæmi ekki heim. Hann verður fyrir alvarlegu áfalli í stríðinu og stríðir upp frá því við áfallastreituröskun sem tekur sig reglulega upp. Hinn mjög svo trausti þjónn hans og fyrrum félagi úr hernum Bunter sér um hann og gætir hans þegar veikindin ná yfirhöndinni. Hinn sérlega furðulegi Nero Wolfe úr bókum Rex Stout þjáist af offitu og hreyfir sig helst aldrei upp úr stólnum. Aldrei er samt á honum að finna að hann vilji hafa lífið öðruvísi.

Albert Campion í sögum Margery Allingham og Roderick Alleyn í bókum Ngaio Marsh eru undantekningar. Báðir eru hamingjusamlega kvæntir og eiga börn. Reyndar er Campion einhleypur í byrjun og ákaflega dularfullur. Lítið vitað um bakgrunn hans, hann virðist þó vera úr hástétt en með tengsl við undirheima Lúndúnaborgar. Þjónn hans, Lugg, er fyrrum innbrotsþjófur og þekking hans kemur Campion oft að notum. Eftir að Campion hittir Amöndu og verður ástfanginn af henni þroskast hann mikið tilfinningalega og verður áhugaverðari persóna.

Hinn þögli töffari

Þegar bannárin gengu í garð í Bandaríkjunum með vaxandi völdum mafíunnar varð til annars konar einkaspæjari nokkurs konar andsvar við efri stéttar spæjaranum sem rannsakaði morðmál fína fólksins. Þá urðu til harðjaxlar á borð við Sam Spade í bókum Dashiells Hammetts en hann gerði Humpfrey Bogart ódauðlegan í kvikmyndinni The Maltese Falcon og  William Crane í bókum Jonathans Latimers.  Erle Stanley Gardner skrifar á sama tíma um lögfræðinginn Perry Mason sem kafar ofan í mál skjólstæðinga sinna og leysir þau farsællega.  Stíll þessara höfunda var kallaður harðsoðinn og í stað þess að sitja í setustofum betra fólks og leysa ráðgátur voru þeir í beinum samskiptum við glæpona á götunni og iðulega í bráðri lífshættu.

Raymond Chandler tekur við keflinu og skapar Philip Marlowe sem Humpfrey Bogart lék sömuleiðis í kvikmyndaútgáfu af the Big Sleep en Robert Mitchum gerði síðar skil í Farewell my Lovely. Þessi nýja gerð spæjara átti það sameiginlegt að þetta voru einfarar og lítið vitað um fortíð þeirra og einkalífið einkenndist af fáum skuldbindingum.

Formúlubækur og  fleira gott

Þegar leið á tuttugustu öldina þróuðust margs konar greinar og sprotar út frá gllæpasögunni. Hryllingssögur tóku á sig mynd og snerust oftar en ekki um ráðgátur líka, eitthvað dularfullt og illt sem grafið var í fortíðinni. Sögur þar sem glæpamenn voru í aðalhlutverki spruttu fram, sálfræðitryllirinn þar sem leitast var við að gefa innsýn í hugarheim sjúkra morðingja og siðlausra einstaklinga og gáturnar tóku á sig ýmsar myndir. Allt var reynt.

Aðrir höfundar kusu að skrifa bækur þar sem lesandinn viss á fyrstu síðu hver morðinginn var en spennan snerist um að hvenær leynilögreglumaðurinn kveikti á perunni. Eftir stríð fór spennusagan síðan að snúast æ meira um kalt stríð, njósnir, nasista í felum og ill glæpasamtök sem unnu ötullega að heimsyfirráðum. Bond varð til en einnig Holly Martins í Þriðja manninum eftir Graham Green, Verloc í Leynierindrekanum eftir Joseph Conrad, Richard Hannay í Þrjátíu og níu skref eftri John Buchan, Ashenden í nokkrum sögum Somerset Maugham og George Smiley í bókum John Le Carré. Þetta var einnig byrjunin á film noir og þessar sögur hentuðu sérlega vel því kvikmyndaformi.

Smátt og smátt  þróuðust formúlur að spennusögum sem allmargir höfundar víða um heim hafa mjög góðar tekjur af. Sammerkt með þessum bókum er að persónur þróast lítið eða ekkert, ávallt er um sömu tegund glæpamanna að eiga, samviskulausa, bráðgáfaða óþokka og hetjan verður að hafa sig alla við til að ráða niðurlögum þeirra.

Rjóminn flýtur ofan á

Nú á dögum er úrvalið af glæpasögum og annarri afþreyingu gríðarlega mikið. Norrænir glæpasagnahöfundar hafa verið að sækja í sig veðrið og nokkrir þeirra vakið mikila athygli víða um heim. Í þeirra hópi eru Adler Olsen, Joe Nesbø, Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir, Lilja Sigurðardóttir, Sólveig Pálsdóttir, Skúli Sigurðsson, Camilla Läckberg, Stieg Larson, Åsa Larson, Henning Mankell og margir fleiri. Norrænir glæpasagnahöfundar eiga það flestir sammerkt að persónusköpunin er yfirleitt dýpri en hjá amerískum kollegum þeirra og flækjan úthugsuð og vel unnin. Hið sama gildir um vinsælustu bresku höfundana en þar er byggt á traustri hefð. Þeir áhugaverðustu í þeim hópi eru: Kate Atkinson, Ian Rankin, Martina Cole, Nicci French, P.D. James, Ruth Rendell og Lee Child.

Ritstjórn febrúar 16, 2024 10:00