Ástin og draumarnir kvaddir af mýkt og hlýju

Guðrún Eva Mínervudóttir er persónuleg, mjúk og blíð í skáldævisögunni, Í skugga trjánna. Þetta er einlæg tilraun til að gera upp tvö hjónabönd og eigin þátt í hvers vegna þau fóru í vaskinn. Guðrún Eva er einn okkar allra besti rithöfundur og þetta óvænta, nýstárlega, óvænta, sorglega og yndislega mennska uppgjör er grípandi og áhugavert.

Höfundur hendir okkur strax í fyrstu línu inn í heim sem er í senn óraunverulegur, skældur og skrýtinn. „Einu sinni tók ég óviljandi þátt í ayahuasca guðþjónustu í Skipholti.“ Segir hún og leggur þar með línurnar að því hvernig lífið býður upp á einmitt þetta, að maður fljóti með öldunum og lendi óvart í ayahuasca guðþjónustu og þarna er hún aftur lent í svipaðri stöðu en að þessu sinni í LSD-partíi í risastórri höll í Arnarnesi innan um lögfræðinga, augnlækna, fjárfesta og aðra auðkýfinga. Hún er þar vegna þess að Erla vinkona hennar er þar en Guðrún Eva hefur alltaf verið ótrúlega hrædd við öll vímuefni og hún afþakkar þess vegna ofskynjunarlyfið. Reyndar líka vegna þess að hún þarf að fara upp í Gljúfrastein og lesa fyrir hóp af erlendum rithöfundum á vegum Iceland Writers Retreat.

Þetta furðulega samkvæmi rammar síðan inn endurminningar hennar af ástum sínum og fyrri manns hennar, Hrafns Jökulssonar og endalokum hjónabandsins við hinn síðari. Hún er að kveðja báða hvorn með sínum hætti og um leið að drauma sína um að búa undir skugga trjánna á litla búgarðinum í Hveragerði um aldur og ævi. Gömul saga og ný, saga af ást, sorg, aðgerðarleysi, bugun og að lokum ákvörðun og fyrstu skrefunum í átt að heilun.

Kvatt löngu áður gengið er burtu

Guðrún Eva er viðkvæm og átakfælin manneskja. Hún gerir þess vegna litlar kröfur. Leyfir lífinu að mestu að gerast og flýtur meðan hún ekki sekkur. Hún lýsir á magnaðan hátt hvernig tilfinningar fólks í garð annarra einfaldlega deyja fái þær ekki rétta næringu. Að það er auðveldlega hægt að tékka út úr ástarsambandi, stinga af og skilja lykilinn eftir undir dyramottunni. Það gerir hins vegar enginn að ástæðulausu. En það er erfitt fyrir átakfælna að særa aðra, að taka eigin þarfir fram yfir annarra og taka af skarið. Hún gerir það samt á endanum og mikið var ánægjulegt að fá að fylgja henni í það ferðalag. Halda með henni og vilja styðja hana út úr aðstæðunum.

Dásamlegar aukapersónur

Þótt sagan af ástum og örlögum hjónabanda Guðrúnar Evu sé áhugaverð eru það þó þessar dásamlegu aukapersónur sem gera þessa bók heillandi. Allar au pair-stelpurnar sem eiga hver sína sérvisku, leyndarmál, kosti og galla. Miðilinn vitri sem sannarlega er vinur í raun, Ljúbla í næsta húsi, litríkar og spennandi. En svo er það litla stúlkan Constanza, barn sem orðið hefur fyrir djúpstæðu áfalli í æsku og þráir ekkert heitar en að byrja nýtt líf. Guðrún Eva tekur hana í fóstur og gerir sitt besta, sýnir henni alla þá ást og umhyggju sem hún til en það er ekki nándar nærri nóg.  Litlu stúlkunni gengur vel til að byrja með en svo er eins og innra með henni búi eitthvert illt afl sem knýr hana til að eyðileggja allt gott sem gerist í lífi hennar. Guðrún Eva neyðist til að láta hana frá sér því hún gerir sér grein fyrir að hún hefur hvorki þá þekkingu né mannafla sem þarf til að hjálpa. Hún fær síðan ekkert að vita um hvernig hennir vegnar annars staðar og það nagar hana að innan.

Hið sama má segja um undirritaða. Það er svo sárt til þess af öllum þessum illa særðu börnum sem sitja eftir með sársauka og tóm innra með sér og engin leið virðist að líkna þeim eða lækna. Verst er að vita til þess að það er fullorðna fólkið í lífi þeirra sem skilur þannig við þau. Þeirra nánustu aðstandendur, þeir sem áttu að vernda þau og elska.

En þrátt fyrir að Í skugga trjánna fjalli um margvíslegar erfiðar tilfinningar og sorglega hluti er hún full af kímni, hlýju og umburðarlyndi í garð mannkynsins með alla sína veikleika og vanmátt. Bók sem allir hafa gott af að lesa.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 3, 2024 07:00