Hvernig á að viðhalda lestrarafköstunum eftir kófið?

Lestrarhestar kvíða eftirkófsárunum, þ.e. tímanum þegar lokanir eiga ekki lengur við og við höfum ekki lengur tíma til að lesa.

Stephen Carlick, ritstjóri hjá Penguin í Bretlandi, á svar við þeirri spurningu hvernig megi viðhalda lesafköstum eftir að takmörkunum hefur verið aflétt og kórónuveirufaraldurinn hrellir okkur ekki lengur. Hann segist varla hafa farið út úr húsi í heilt ár á meðan allt var lokað í Bretlandi, svo það hefur verið auðveldara en nokkru sinni að finna tíma til að festast í lestri. Sjálfur segist hann hafa lesið fjöldann allan af löngum klassískum bókum, ógleymanlegum nýjum skáldsögum, nokkrum ómissandi bókum sem ekki eru skáldskapur (svona í og með) að ógleymdum nokkrum ljóðasöfnum.

En hvað tekur nú við, kunnum við að spyrja bókaunnendur, þegar kaffi- og öldurhúsin opnast upp á gátt og garðarnir og útivistarsvæðin lokka okkur til sín og trufla lestaktinn? Þetta er bókaormum nokkurt áhyggjuefni af því að þeim hefur líkað vel sá heimur sem bækur hafa skapað þeim í einangruninni.

Carlick hefur tekið saman nokkur ráð handa bókaormum í samráði við sameiginlega bókavini og lestrarkeppinauta, þ.e. fólk sem elskar að handfjatla bækur. Hérna er listinn:

(1) Taktu með þér bók á kaffihúsið og/eða krána — þú gætir þurft á henni að halda til að halda uppi samræðum

Bækur eru líka vinir, af hverju ekki að taka þá með á notalegan pöbb eða kaffihús? Þú gætir jafnvel sett upp þema fyrir hitting: Hittumst yfir Auði Övu á Kalda í kvöld! Eða Handke. Ef þú þarft að hitta fólk af holdi og blóði gæti bók komið að góðu gagni.

(2) Hafðu með þér bók í strætó eða ferðalagið

Þetta hefurðu áreiðanlega gert einhvern tíma. Sjáumst í strætó eða í rútunni — og vonandi fljótlega í flugvélinni. Og hafðu með þér aukabók ef þú skyldir klára á ferðinni.

(3) Taktu hljóðbókum fagnandi …

Þessa dagana eru hljóðbækur að gera ansi sérstaka hluti — sumar þeirra koma jafnvel ekki út á prenti. Á meðan við gerum stórinnkaupin höfum við sögu í eyranu. Þetta er himneskt; kemur þetta ekki næst því að vera guð?

(4) … og jafnvel nýjum bókaflokki

Það eru milljón tegundir af bókum sem allar bjóða nýtt sjónarhorn sem gæti breytt því hvernig þú lest — og hugsanlega hvernig þú hugsar. Hefurðu aldrei verið fyrir að lesa ljóð? Finnst þér krimmar ekki vera fyrir þig? Af hverju ekki að stokka upp lesefnið þitt? Nýjar gáttir gætu opnast þér sem þú vissir ekki að þú þyrftir á að halda.

(5) Njóttu þess að lesa styttri texta

Stundum þarftu bara að lesa einhvern stuttan texta til að viðhalda vananum. Af hverju ekki að lesa eina eða tvær smásögur? Ef þú lendir í lestrarstoppi gæti knappur texti einmitt skilað þér heim í þorpið þitt þar sem þú virðist vera eini íbúinn. Og ég. Og allt hitt fólkið sem er að lesa um leið og við.

(6) Lestu fyrir svefninn

Nægar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að okkur er öllum hollt að leggja frá okkur bláa ljósabúnaðinn — þ.e. símann, fartölvuna og öll hin raftækin —áður en við leggjumst til hvílu. „En hvernig ver ég tímanum áður en ég festi svefn?“ kanntu að spyrja. Ekki vera kjáni. Þú veist svarið við þeirri spurningu.

(7) Farðu á bókmenntahátíð …

Nú fáum við fljótlega að fara á útihátíðir aftur (og innihátíðir), hugsanlega án þess að vera með grímu og án þess að þurfa að reka olnbogann vandræðalega í þá sem við viljum heilsa. Af hverju ekki að fara á bókmenntahátíð eða útgáfuhóf? Bókaheimurinn er að opnast upp á gátt að nýju og ekkert er jafnspennandi og að fara heim með áritaða bók til að lesa.

(8) … eða í bókabúð

Manstu eftir þeim? Bókum var raðað í hillur, oftast í stafrófsröð til að hjálpa þér að finna það sem þú varst að leita að. Þær ilmuðu dásamlega! Og við — ja, a.m.k. ég keypti bara alltaf eitthvað, jafnvel þótt ég væri ekki að leita að neinu sérstöku.

(9) Segðu félögum þínum að þú sért upptekinn þegar þú ert í raun að lesa

Í heimi geðheilbrigðis heitir þetta að setja mörk.

(10) Stofnaðu bókaklúbb

Vitaskuld! Af hverju ekki að láta þetta tvennt fara saman, að lesa og hitta vini? Þú gætir haft nóg af frábærum hugmyndum um hvar þú átt að byrja, en ef þú ert að leita að innblæstri fyrir sumarbókaklúbbinn sem þig langar að stofna skaltu skoða nýjustu bækur forlaganna eða metsölulistana.

(11) Segðu upp vinnunni svo að þú getir lesið allan daginn

Þetta síðasta heyrðuð þið ekki frá mér.

Ritstjórn maí 25, 2021 10:10