Augnlokaðgerð einföld en ekki hættulaus

Augnlokaaðgerðir eru algengustu lýtaaðgerðir á Íslandi enda eru þær góð leið til að draga úr þreytumerkjum í andliti og gefa fólki frísklegra útlit. Slíkar aðgerðir eru ekki eingöngu hégómi. Þung augnlokin trufla stundum sjón. Fólk fer að lyfta brúnum við lestur eða áhorf á skjái og það getur valdið aukinni þreytu og streitu í andlitsvöðvum. Nokkuð er mismunandi hve fljótt öldrunareinkenni koma fram í andliti og þá á augnlokum en þar skipta erfðir og lífstíll miklu máli. Mataræði og reykingar einnig afgerandi áhrif á öldrun húðar. Til að byrja með verða augnlokin þung og bólgin, oftast er það mest á morgnana en með árunum hverfur þunginn aldrei alveg og svo taka að myndast hrukkur.

Hjá sumum er það ættgengt að á efri augnlok verði mjög slöpp og þar myndist aukahúð eða húðfellingar og í einstaka tilfellum getur húðin náð fram yfir augnlokin og þá slútt fyrir augun og byrgt viðkomandi sjón, sérstaklega til hliðanna. Það er líka til í dæminu að þarna safnist upp fitulag sem þyngir augnlokin enn frekar. En þótt þessar aðgerðir séu einfaldar og fólk yfirleitt mjög fljótt að jafna sig er vert að hafa í huga að það er aldrei hættulaust að gangast undir aðgerð og gott að undirbúa sig vel.

Undirbúningur fyrir aðgerð

Mælt er með að taka ekki lýsi eða omega 3-fitusýrur í viku fyrir aðgerð. Þessi fæðubótarefni þynna blóðið og það er aldrei æskilegt áður en fólk gengst undir aðgerðir hjá læknum. Bólgueyðandi verkjalyfjum ætti sömuleiðis helst sleppa í a.m.k 5 daga fyrir aðgerð.

Það er alltaf gott að fara í bað eða sturtu áður en farið er í aðgerð vegna þess að aldrei er hægt að vera viss um að þægilegt sé að þrífa sig eftir hana. Eymsli og vanlíðan fyrstu dagana getur komið í veg fyrir að gott sé að standa undir sturtunni.

Ekki keyra sjálf/ur. Fáðu einhvern til að keyra þig og sækja. Fyrir aðgerð fær fólk verkjalyf og róandi sem gerir það að verkum að það má ekki keyra bíl eftir aðgerð.

Hvernig fer aðgerðin fram?

Mismunandi er hvort gerð sé aðgerð á bæði efri og neðri augnlokum eða einungis efri. Yfirleitt fær skjólstæðingurinn staðdeyfingu en sumir kjósa að láta svæfa sig fyrir og láta gera aðra fegrunar- eða lýtaaðgerð um leið.

Þegar aðgerðin er gerð í staðdeyfingu eru gefin sterk verkjalyf og kæruleysislyf fyrir aðgerð. Þegar þau hafa náð góðri virkni er staðdeyft og svo er aðgerðin gerð.

Í aðgerðinni er skorið nokkra millimetra frá efri augnhárum, samsíða hrukkulínum þannig örið sjáist sem minnst en þar er aukahúð og fita fjarlægð þannig verulegur léttir verður á augnlokunum og augun verða skýrari og opnari.

Ef tekin eru neðri augnlok er örfínn skurður gerður rétt fyrir neðan neðri augnhárin og þar er einnig tekin aukahúð og fita.

Bataferlið

Skjólstæðingar fá ávísað verkjalyfjum sem þeir geta notað fyrstu dagana eftir aðgerð.

Margir mæla með að nota kalda bakstra til að minnka bólgur og setja þá á í nokkrar mínútur 4-6 sinnum á dag.

Saumarnir eru teknir eftir viku en mælt er með fólk taki því rólega þangað til þeir eru farnir.

Passa þarf að beygja sig ekki fram. Hafa hátt undir höfði og sofa með hærra undir höfði en venjulega því það minnkar bjúg og mar til muna.

Gott er að passa að halda góðum raka í augunum og nota til þess gervitár.

Augnlinsur máttu ekki nota í 7-10 daga eftir aðgerð.

Krem eða andlitsfarða ætti ekki að nota í 7-10 daga eftir aðgerð.

Marið og mesta bólgan hverfa á um það bil 10 dögum og flestir geta hafið vinnu viku eftir að aðgerðin er gerð.

 

Ritstjórn júlí 5, 2024 07:00