Tengdar greinar

Bakkadrottningin – fyrirmynd og frumkvöðull

Eugenía Nielsen var framfarasinnuð, vel menntuð og einstakur mannvinur. Hún lét til sín taka á öllum sviðum, hvar sem hún fékk því viðkomið og gerði Eyrarbakka að miðstöð menningar á Íslandi meðan hennar naut við. Kristín Bragadóttir skrifaði bók um Eugeníu og hvernig Húsið var í hennar tíð skóli, athvarf og skóli fyrir háa jafnt sem lága.

Eugeníu var fædd árið 1852 í kaupmannshúsinu eða Húsinu eins og það var jafnan kallað. Foreldrar hennar voru Guðmundur Thorgrimsen verslunarstjóri Lefoliiverslunarinnar og Sylvia Thorgrimsen kona hans. Sylvía var mjög áhugasöm um menningu og listir og dóttir hennar ólst upp við að lögð var rækt við allt slíkt á heimilinu.  Húsið var stórhýsi á síns tíma mælikvarða og þangað komu jafnt innlendir sem erlendir gestir, rithöfundar, tónlistarfólk, listmálarar og menntamenn.

Eugenía var send í fóstur til landlæknishjónanna Karenar Jakobínu og Jóns Hjaltalín í Reykjavík af og til frá átta ára aldri og þar fékk hún tækifæri til að stunda tónlistarnám.  . Árið 1864 fór hún með foreldrum sínum og systkinum til Danmerkur og naut þess að kynnast stórborgarlífinu með allri sinni fjölbreyttu menningu. Eftir að heim var komið giftist hún Peter Nielsen og þau settust að í Húsinu svo hún bjó þar nánast allt sitt líf

Veitir innblástur og fræðslu 

En það er fyrst og fremst fyrir félagsmálastörf sín sem hennar er minnst. Hún var frábær húsmóðir og hannyrðakona og kenndi meðal annars handvinnu í barnaskólanum á Eyrarbakka en hún gekkst einnig fyrir stofnun bindindisfélags, kvenfélags, leikfélags, söngfélags og ungmennafélags og var boðin og búin að hjálpa hvar sem þörf var fyrir hana. Og þörfin var rík á þessum árum því fátækt var mikil. Segja má að saga hennar sé lýsandi dæmi um hverju ein manneskja fær áorkað ef viljinn og mennskan eru höfð að leiðarljósi.

Auk þess að lýsa einstakri konu tekst Kristínu að draga upp skýra og glögga mynd af  kjörum og lífsskilyrðum alþýðunnar á Eyrarbakka. Það eru andstæðir pólar, kotin við sjávarbakkann og Húsið þar sem listafólk og fyrirmenn koma við og njóta viðurgjörnings á heimsmælikvarða. Engu að síður ná áhrif Eugeníu þangað inn, hún er innblástur fyrir listhneigða krakka, húsmæðrum fyrirmynd í hreinlæti og umönnun og fyrst til að veita greindum börnum tækifæri til að læra. Þau áhrif verða ábyggilega aldrei ofmetin. Það er mikill fengur að þessari bók og hún er einstaklega vel unnin. Óneitanlega er mikið ævintýri að kynnast á svo lifandi hátt þessu sérstæða þorpi, Eyrarbakka þar sem svo ríkulegt menningarlíf blómstraði á síðari hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu.

Kristín Bragadóttir er doktor í menningar- og bóksögu frá Háskóla Íslands. Áður lauk hún BA-prófi í sagnfræði, bókmenntasögu og bókasafnsfræði og MA-prófi í miðaldabókmenntum frá Háskóla Íslands auk þess að leggja stund nám í bókmenntasögu og rannsóknarnám í bókmenntafélagsfræði við Uppsala-háskóla. Bakkadrottningin er þriðja bók hennar en áður hefur hún gefið út tvær bækur um Willard Fiske og bókasöfnun hans.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 3, 2024 07:00