Bankinn hjá pabba og mömmu

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, það má finna út úr öllu ánægjuvott segir máltækið og samnefnt lag söng Vilhjálmur Vilhjálmsson og eflaust fleiri forðum daga við texta Ómars Ragnarssonar. Þann vott – og aðeins þann eina, fann breska rannsóknarstofan YouGov í niðurstöðum könnunar fyrir The Family Building Society á fjárhagsstöðu ungs fólks, sem í auknum mæli er háð foreldrum sínum um fjárhagsaðstoð og búsetu. Ánæguvotturinn reyndist vera aukin hamingja á heimilum þar sem 84% foreldra njóta sambúðar og félagsskapar fullorðinna barna sinna og barnabarna.

Hamingjan verður kannski aldrei metin til fjár, en samkvæmt könnuninni viðurkenndu tveir þriðju breskra foreldra á fimmtugs og sextugsaldri að fullorðin börn þeirra stæðu frammi fyrir meiri fjárhagserfiðleikum en þeir sjálfir á sama aldri. Fórnarkostnaðurinn er sá að foreldrarnir hætta við sólarlandaferðir, minnka við sig í húsnæði og fresta því að fara á eftirlaun til að létta fjárhagsbyrðar fullorðinna barna sinna. Þriðjungur foreldra barna á aldrinum 18 – 32 ára fjármagnar „mömmu- og pabba bankann” með einum eða öðrum hætti.

Samkvæmt opinberum gögnum búa 3.3 milljónir fullorðinna barna í foreldrahúsum þar sem 64% foreldranna leggja þeim til vasapeninga. Aukinheldur rétta þeir þeim hjálparhönd við að greiða nauðsynleg útgjöld, svo sem bílatryggingar, eftir að þau flytjast að heiman.

Samlokukynslóðinni til aðstoðar

Fjallað er um niðurstöður rannsóknarinnar í The Sunday Times. Þar er tekið dæmi af miðaldra hjónum, sem minnkuðu við sig húsnæði til að gera tveimur börnum sínum, mökum þeirra og barnabarni kleyft að eignast þak yfir höfuðið. Öðruvísi hefði það ekki verið hægt er haft eftir móðurinni/ömmunni, fimmtugum stuðningsfulltrúa. Engu að síður sagði hún að bæði börnin og tengdabörnin legðu hart að sér í vinnu, væru ábyrg í peningamálum og hefðu búið leigulaust hjá þeim hjónunum.

Markmið The Family Building Society, sem nýverið var sett á laggirnar innan vébanda The National Counties Building Society, er fyrst og fremst að hjálpa foreldrum að hjálpa börnum sínum að kaupa sína fyrstu íbúð án þess að þeir stofni fjárhagslegri framtíð sinni í voða. Boðið er upp á húsnæðis- og sparnaðarreikning, sem allt að tólf úr fjölskyldu geta átt í sameiningu. Reikningarnir eru einkum hugsaðir fyrir svokallaða samlokukynslóð, eða þá sem eru á fimmtugs- til sjötugsaldri og axla oft ábyrgð á öldruðum foreldrum á sama tíma og þeir vilja hjálpa börnum sínum að koma undir sig fótunum.

 

 

 

Ritstjórn júlí 30, 2014 15:00