Hvernig hefur kisi það?

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Gæludýr geta verið ótrúleg raunabót fyrir eldra fólk sem býr eitt, hefur kannski misst maka og getur lítið farið út á meðal fólks. Fullorðinn maður sem ég þekki er búinn að hafa þrjá ketti síðan að kona hans lést. Einn fór fyrir bíl, annar fékk krabbamein en sá þriðji lifir góðu lífi. Það gerir hins vegar maðurinn ekki. Hann er kominn á sjúkrahús, töluvert veikur.

Þegar ég heimsæki hann spyr hann jafnan: „Hvernig líður kisa?“ Ég fullvissa hann um að kötturinn lifi sældarlífi, sem er satt, góð og elskuleg kona tók köttinn þegar eigandinn fór á sjúkrahúsið og það væsir ekki um hann á nýja staðnum.

Þessi köttur er einkar mannelskur. Löngum sat hann hjá eiganda sínum og horfði með honum á sjónvarpið og á næturna svaf hann til fóta í hjónarúminu. Hann fór varla út frá eigandanum, nema rétt brýnustu erinda. Það er eðlilegt að fólki sem á slíkt húsdýr fari að þykja mjög vænt um það.

Löngu er komið fram að gæludýr veita einmana fólki mikla gleði en mikil er líka sorgin ef þau eru burtkvödd úr þessum heimi á undan eigandanum. En það er helst til ráða, að útvega eiganda hins dána gæludýrs annað af svipuðu tagi, bara yngra.

Ég man eftir eldri hjónum sem áttu hundinn Molla. Hann var þeirra líf og yndi og um hann snerust flestar samræður þeirra. Svo dó Molli, orðinn háaldraður á hunda vísu. Hann var grafinn í garðinum. Eftir það sátu hjónin saman við gluggann löngum stundum og ræddu um Molla, alla hans miklu kosti og þann mikla tómleika sem þau fundu fyrir vegna fráfalls hans. Þetta fólk hefði átt að fá sér annan hund. En stundum vill fólk ekki annað dýr, finnst það kasta rýrð á minningu þess sem farið er. Svona getur tryggð og hollusta fólks gagnvart gæludýrum verið mikil.

Það er líka vitað að fólki sem dvelur á hjúkrunarheimilum þykir afskaplega gaman að fá dýr í heimsókn. Kannski gætu ættingjar glatt sér náið eldra fólk með því að setja gæludýr sitt í búr og gera sér ferð með það af og til í heimsókn á hjúkrunarheimilið. En auðvitað þarf að sækja um leyfi til þess. Hvort það fæst er sennilega misjafnt. En það sakar ekki að athuga málið. Erlendis er þetta til í dæminu, það hefur sést í sjónvarpsþáttum t.d. frá Bretlandi, að ég held. Almennt má segja að gæludýr séu vanmetin lífsgæði þegar kemur að eldra fólki sem býr eitt. Þar er þörfin mest fyrir selskap.

Ég tók þátt í að finna kött fyrir manninn sem ég minntist á í upphafi. Hann hafði þá misst fyrsta köttinn sinn fyrir bíl og sagðist ekki vilja neinn annan kött, það kæmi alls ekki til greina. Skömmu síðar spurði ég hann hvort hann væri til í að skjóta skjólshúsi yfir kött úr fjölskyldunni sem væri erfitt að koma fyrir, meðan eigendurnir væru erlendis. Hann lét sig hafa það. Ekki er að orðlengja það að hann vildi alls ekki sleppa kettinum þegar fólkið koma heim.

Sem betur fer voru eigendur kattarins tilbúnir að láta gæludýrið sitt til mannsins. Þeir bjuggu í blokk og tóku þátt í ráðabrugginu vegna þess hve erfitt var að hafa köttinn þar. Núna gleðst ég yfir að hafa komið þessu svona fyrir. Það var svo gaman að koma í heimsókn til mannsins og heyra hann tala til kattarins: „Blessaður vinurinn minn,“ sagði hann og strauk honum og gaf honum þríréttað. Þessar stundir voru allrar fyrirhafnar virði.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir mars 9, 2015 10:00