Barátta fyrir réttindum annarra skiptir máli

Forsetahjónin með þeim sem voru heiðraðir á Bessastöðum í gær

Forsetahjónin með þeim sem voru heiðraðir á Bessastöðum í gær

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, var í gær sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu verkalýðshreyfingar og velferðar. Forseti Íslands veitti orðurnar á Bessastöðum að vanda, en 14 manns fengu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal eru Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Ragnhildur Arnljótsdóttir, Steinunn Vasulka myndlistarmaður og sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Guðjón Friðriksson.

Frumkvöðull í réttindabaráttu

Þórunn ólst upp í Reykjavík. Hún var lengi formaður Starfsmannafélagsins Sóknar og fyrsta konan sem tók sæti í stjórn Samtaka almennra lífeyrissjóða, forvera Landssambands lífeyrissjóða. Réttur til að vera heima hjá veikum börnum varð fyrst að veruleika í kjarasamningum Sóknar og félagið barðist einnig fyrir því að konur fengju húsmóðurreynslu metna sem starfsreynslu. Þórunn hefur verið ötull formaður Félags eldri borgara síðustu ár. Hún segir að eldra fólk eigi að njóta sömu kjara og aðrir og vill að 300 þúsund króna lágmarkslaun nái einnig til þeirra sem eru komnir á eftirlaun. Þá telur hún gera þurfi risaátak í heilsueflingu eldra fólks.

Málsstaður okkar skipti máli

Þórunn sagði í dag að hún tæki þessa orðuveitingu ekki persónulega, sér fyndist númer eitt, tvö og þrjú mikilvægt, að einhver úr verkalýðshreyfingunni fengi viðurkenningu fyrir baráttu sína fyrir launafólk. „Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna fólk beri ekki meiri virðingu fyrir verkalýðshreyfingunni þar sem menn leggja mikið á sig í baráttunni og standa sig upp til hópa vel. Mér finnst að málsstaður okkar hafi þarna skipt máli og sú grunnhugmynd að hugsa um aðra en ekki sjálfan sig. En vissulega skiptir það mig máli að mér skuli sýnd þessi virðing og mér finnst sérstaklega vænt um að vera heiðruð fyrir minn skerf til velferðarmála“, segir þórunn að lokum.

Ritstjórn júní 18, 2015 13:45