Bein í baki alla ævi með Qigong

Hjá Harvard háskólanum í Bandaríkjunum er talið að Qigong og Tai chi sé einhver hollasta hreyfing sem hægt er að stunda og það sé hægt að stunda hana alla ævi óháð aldri. Flest höfum við séð myndir af hópum Asíubúa sem eru komnir á efri ár, þar sem þeir stunda æfingar sínar úti undir beru lofti.  Þórdís Filipsdóttir, sem á og rekur Tvo heima miðstöð huga og heilsu, í Suðurhlíð 35 í Reykjavík, segir að með því að stunda þessar æfingar verði fólk reist og beint í baki á efri árum. „Það sem gefur iðkanda mest, er að hann upplifi sig reistan, stöðugan og sé ánægður og í jafnvægi með sjálfan sig. Eldra fólk á skilið virðingu og virðingin byrjar innan frá, reisn og stöðugleiki kemur í kjölfarið.

„Það sem heillar mig við Tai chi og Qigong eru hreyfingarnar“, segir Þórdís. „Þær hægja á huganum sem er beintengdur við líkamann“, heldur hún áfram og bendir á að öndunin byrji í huganum. „Við þurfum að læra að anda áreynslulaust og djúpt og þá getum við hreyft okkur rólega, eins og náttúran gerir. Ég hef aldrei komist jafn nálægt sjálfri mér og þegar ég geri þessar hreyfingar. Þær fá mig til að hlusta á það sem er að gerast í líkamanum og í sálinni. Hvað er tilvistin að segja mér? Hvað vill líkami minn? Líkaminn vinnur hægar og er viðkvæmari en hugurinn. Það þarf að hægja á huganum til að hlusta á líkamann“.

Hópur í æfingum á Klambratúni 2017

Þurfti að prófa að hlusta

„Ef það er eitthvað sem maður á að vera, þá er það að vera tengdur við sjálfan sig. Ekki við skoðanir sínar, hugmyndir eða það sem maður er með í huganum allan daginn. Hugurinn segir okkur hvað við eigum að gera og hvernig við eigum að vera í okkar menningarsamfélagi“, segir Þórdís og segir líkamann fyrir neðan höfuðið betri vitnisburð en hugann, um það hvernig okkur líður og hvað er best fyrir okkur.  „Með því að stunda Qigong og Tai chi reglulega, finnur þú á eigin skinni hvað er best fyrir þig og hvernig þig langar að vera. Ég var kvíðin í mörg ár. Það var sama hvað ég hljóp á brettinu, borðaði hollt og  fylgdi öllum viðmiðum Manneldisráðs. Mér leið samt ekki vel, það eina sem ég átti eftir að prófa, var að hlusta“.

Rétt öndun og einbeiting

Þórdís segir að Tai chi og Qigong sé nokkurs konar hugleiðsla fyrir líkamann og menn fari í gegnum ákveðið ferli til að tileinka sér hana. Fyrst þurfi að kynna sér hlutina, prófa og læra hreyfingarnar, temja sér djúpa og áreynslulausa öndun, einbeita sér algerlega að hreyfingunum, en vera ekki að hugsa um hvað manni finnst nú um hitt og þetta, hvað maður ætli að gera á eftir, ganga frá þvottinum eða skreppa í bæinn. „Menn eiga að einbeita sér algerlega að því sem þeir upplifa þegar þeir gera hreyfingarnar“, segir hún. „Stundum færðu verk í æfingu. Þá verður þú að gera hreyfinguna eins og líkaminn vill að þú gerir hana, þetta snýst ekki um að herma bara eftir kennaranum. Sumir eru með vefjagigt, vöðvabólgu eða slæm hné. Þá þarf að fara framhjá verknum. Athyglin verður að vera á æfinguna allan tímann, ekki á leiðbeinandanum eða myndina af þér í speglinum“.

Þórdís og Filip faðir hennar gera æfingar í kvöldsól á Þingvöllum

Var leitandi og leið ekki nógu vel

„Menn eiga að einbeita sér að sjálfum sér. Hvað upplifir þú þegar þú gerir hreyfingarnar? Margir sem koma hingað eru með athyglisbrest, kvíða, þunglyndi, gigt eða fóbíur. Þegar maður æfir hreyfingu meðvitað, kynnist maður mörkum sínum. Hvað maður vill og hvað ekki. Hvað hentar manni og hvað ekki“, segir Þórdís, sem var þjálfari á líkamsræktarstöð í 13 ár. „Það var Vigdís Finnbogadóttir sem kynnti mig fyrir Qigong, en hún var hjá mér í þjálfun“, segir hún.  „Ég var leitandi og leið ekki nógu vel. Ég skildi ekki sjálfa mig, hlustaði á aðra en aldrei á mig af því ég kunni það ekki. Ég byrjaði að kynna mér kínverska læknisfræði sem höfðaði mjög sterkt til mín.  Ég féll alveg fyrir Qigong og fræðunum og byrjaði að ganga þann veg fyrir 10 árum, árið 2008. Það var svo árið 2015 sem ég stofnaði Tvo heima með pabba.

Náttúrulegar leiðir til lækninga og heilunar

Þórdís fór til Bandaríkjanna þar sem hún lagði stund á Qigong og kínverska læknisfræði. Hún fer reglulega til Kína til að auka við þekkingu sína, til Shandong, sem er borg 1,5 klukkutíma flugferð frá Peking og er einmitt á leið þangað á næstunni. „Þetta er akademía sem kennir Qiong, kínverska heimspeki, bardagalist og hugleiðslu. Það er líka farið inná kínverska læknisfræði, en áherslan er mest á bardagalistina og Tai chi og Qigong“. Þórdís segir að kínversk læknisfærði snúist um að fyrirbyggja ójafnvægi í líkamanum og sálinni og nota náttúrulegar leiðir til lækninga eða heilunar. Jurtir, nálarstungur og mataræði skipti máli og Qigong hugleiðsla og slökun.

Margir eru ekki í tengslum við sjálfa sig heldur í viðbragðstöðu gagnvart umhverfinu.

Þórdísi finnst Íslendingar vera móttækilegir fyrir þessum hugmyndum. Henni finnst þó algengt að við sem þjóð séum í  ástandi sem hún kallar, Fight, Flight, Freeze, sem má þýða sem átök, flótta og frost. „Margir eru ekki í tengslum við sjálfa sig og þeir brenna bara upp fyrir vikið“, segir hún og bætir við að hún hafi hjálpað fólki í gegnum kulnun, ofsakvíða, líkamlega kvilla og verki. „Það sem hjálpar mest er að fólk skilji sig –  ekki mig- ekki umhverfið- heldur sig. Ég er búin að móta ákveðna aðferð sem heitir Kjarnþjálfun, sem auðveldar fólki að tileinka sér sjálfsþekkingu og breytni samkvæmt henni. Þetta er aðferð sem byggist fyrst og fremst á kínverskri læknisfræði í bland við nálgun sem er alltaf einstaklingsbundin. Ég styðst við æfingar, slökun, nálastungur, samtal, teygjur og fleira en það sem er hollt fyrir einn getur verið skaðlegt fyrir annan hvað varðar mataræði, hugsun, atferli og svo framvegis.

Á Facebook síðu tveggja heima er að finna frekari upplýsingar um þessa frábæru hreyfingu og þar má einnig finna dagskrána hjá Tveimur heimum.

 

Ritstjórn maí 22, 2018 10:35