Betra að hætta fimm mínútum fyrr en tveimur mínútum of seint

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

Óperusöngvarinn kunni, Sigurður Björnsson, er 82 ára og hættur söngnum en starfar á sumrin sem leiðsögumaður fyrir þýska ferðamenn. Sigurður er Gaflari, fæddist í Hafnarfirði, gekk þar í barnaskóla og Flensborgar-skólann og fór síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík til að læra að leika á fiðlu en stundaði jafnframt söngnám. Á sumrin var hann til sjós, tvö ár á síldveiðum og svo í fimm ár á hvalveiðum. Á hvalskipinu varð hann fyrir smá óhappi á vinstri hendi. Eftir það voru fingurnir ekki eins liðugir og þeir verða að vera fyrir fiðluna svo að hann ákvað að fara í söngnám. Hann lauk burtfararprófi sem söngvari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrstur Íslendinga árið 1956.

Römm er sú taug

Sigurður innritaðist í Tónlistarháskólann í München haustið 1956 og nam þar til 1962 að honum var boðin staða við Óperuhúsið í Stuttgart. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, söngkonunni Sieglinde Kahmann. Í óperunni voru fyrir eldri söngvarar sem „áttu“ hlutverkin sem Sigurð langaði að syngja sem lyrískur tenór. Árið 1968 fluttu þau hjón sig yfir í óperuhúsið í Kassel. Þar var Sigurður fyrsti lyríski tenór og söng stóru hlutverkin, sem hann hafði dreymt um. Frá 1972-1975 voru þau við óperuna í Graz í Austurríki. Sigurður og Sieglinde fengu svo tilboð árið 1975 frá óperunni „Gärtnerplatz Theater“ í München sem er annað óperuhúsið þar í borg. Hver getur sagt nei þegar München kallar, spyr hann. Svarið liggur í spurningunni.

Haustið 1976 var Sigurði boðin staða sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann fékk sig lausan frá München og hóf störf hér heima í ársbyrjun 1977. Hann hætti þó ekki alveg að syngja heldur söng mikið í Þjóðleikhúsinu, Íslensku óperunni, á ýmsum tónleikum auk þess sem þau hjónin sungu alla tíð á allskonar mannfögnuðum. Sigurður starfaði hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í fjórtán ár.

Standa við ákvörðunina

Sieglinde og Sigurður  hafa sungið víða. Þau fóru til dæmis sem einsöngvarar með Karlakór Reykjavíkur til Kína árið 1979 og voru þá annar vestræni hópurinn sem fékk að koma inn í Kína næst á eftir Fílharmóníusveitinni í Berlín. Svo má nefna að þau fóru í tónleikaferðalag með austurrískri hljómsveit fyrst til Japans, síðan til Hong Kong og þaðan til Taívan.

„Eftir síðustu sýningu á Kátu ekkjunni hér heima árið 1997 ákváðum við hjón að hætta að syngja og hugsuðum sem svo að það væri betra að hætta fimm mínútum fyrr en tveimur mínútum of seint. Við höfum staðið við það,“ segir Sigurður.  Árin 1990-2000 var Sigurður með listkynningu í grunnskólum á vegum Reykjavíkurborgar. Árið 2000 var honum boðin staða móttökustjóra í Íslenska skálanum á heimssýningunni EXPO í Hannover en sýningin hófst í mai það ár og stóð til loka október. Þar var hann meðan sýningin stóð yfir eða í sex mánuði og hætti þá eiginlega að vinna.

Enn í vinnu

„Ég lauk leiðsögumannaprófi 1992 og hef verið viðriðinn leiðsögn upp frá því, þó meira eftir að ég kom heim frá Þýskalandi árið 2000. Leiðsagan hefur verið mitt aðalstarf frá því ég hætti að vinna,“ segir Sigurður sem tekur nær eingöngu að sér dagsferðir út frá Reykjavík á sumrin og þá fyrir þýskumælandi hópa af skemmtiferðaskipunum sem sigla hingað. „Ég er eiginlega ekki hættur að vinna því að ég er í sumarvinnu. Ég nenni ekki að fara í hótelferðir. Ég vil vera heima í minni koju á nóttunni. Dagsferðir eru nóg fyrir mig kominn á þennan aldur,“ segir Sigurður.  Hann kveðst eiginlega ekkert hafa hugsað út í starfslokin á sínum tíma. „Ég hafði kynnt mér hverju ég gæti átt von á hvað varðar eftirlaun og var búinn að reikna það út og sá að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég er sæmilega ánægður með þessi eftirlaun sem ég hef og sé ekki að ég þurfi neinu að kvíða.

Eftir sýningu á óperunni Gianni Sahicchi  í Graz 1973. Daníel sonur Sigurðar og Sieglinde var 11 ára og söng lítið hlutverk í óperunni.

Eftir sýningu á óperunni Gianni Sahicchi í Graz 1973. Daníel sonur Sigurðar og Sieglinde var 11 ára og söng lítið hlutverk í óperunni.

„Ég hætti“

Saknaðarsvipurinn kemur á hann þegar hann er spurður hvort hann langi ekki oft til að syngja eða taki lagið fyrir ferðamennina í rútunum. „Ég er hættur því. Ég söng einstaka sinnum þegar við fórum framhjá Gljúfrasteini „Íslenskt vögguljóð á Hörpu“ eftir Jón Þórarinsson við texta nóbelskáldsins Halldórs Kiljan Laxness, en nú er það búið,“ segir hann en viðurkennir þó að löngunin sé enn til staðar.

„En ég sætti mig bara við það að röddin svarar ekki eins og hún á að gera, ætti að gera og gerði. Það er bara að taka því. Jú, jú, auðvitað langar mann til að syngja. Ég hef staðið á mörgum óperusviðum, í mörgum tónleikahöllum og það er mikil lífsreynsla sem ekki verður tekin frá mér.“

Ritstjórn júní 30, 2014 11:39