Betra að ráðast í að minnka við sig á meðan heilsan heldur

Að minnka við sig húsnæði er áskorun og krefst hugrekkis. Það verður nefnilega ekki aftur snúið og þá guggna margir af ótta við að hafa gert mistök. ,,Er ekki bara best að vera áfram á gamla staðnum sem við þekkjum svo vel,“ er gjarnan viðkvæðið. En þegar upp er staðið segja reynsluboltanir að niðurstaðan sé alltaf sú að betra sé að minnka við okkur á meðan heilsan er enn í lagi.

Að sögn Bryndísar Evu Jónsdóttur innanhússarkitekts er rétti tíminn auðvitað vandfundinn. Hún hefur verið fengin til að aðstoða allmarga sem tekið hafa ákvörðun um að minnka við sig. ,,Fyrst er að velja tímann og ganga síðan í verkið,“ segir Bryndís. ,,En þegar á hólminn er komið ganga margir í gegnum sorgarferli því óneitanlega fyllast flestir söknuði þegar yfirgefa á húsnæði sem hefur oft verið heimili fólks áratugum saman, börnin hafa alist upp í og nú eru komin barnabörn sem þurfa sitt pláss. ,,Það er ekki bara að fólk þurfi að grisja innbú sitt heldur eru minningarnar stór þáttur,“ segir Bryndís.

Langflestir vilja taka sem mest með sér einmitt af þeim sökum. Það segir sig þó sjálft að húsgögn sem fylla 200 fermetra hús komast ekki vel fyrir í 100 fermetra íbúð og að velja á milli húsgagna getur verið erfitt.

Á fyrsta fundi hitti ég fólk á staðnum sem verið er að flytja úr, máltek og ljósmynda þau húsgögn sem það gjarnan vill taka með sér og svo er farið saman yfir í nýju íbúðina þar sem við skoðum mögulega uppröðun  húsgagna.“

Tómar íbúðir virka stærri en þær eru í raun

,,Þegar fólk skoðar tóma íbúð virkar hún stærri en hún er í raun og þess vegna er nauðsynlegt að ég fái teikningar af nýjum stað til að geta raðað gróflega inn á hana. Á þann hátt sér fólk hvað er raunhæft að flytja með sér og hvað ekki. Oftast þarf að kaupa eitthvað nýtt inn því gömlu húsgögnin eru oft of stór eða orðin slitin og passa þarf að ná tengingu milli nýrra og eldri húsgagna. Þess vegna er oft gott að hafa þau nýju hlutlaus í útliti eða í takt við fastar innréttingar íbúðarinnar. Ég kem því með tillögur að nýjum húsgögnum, aðstoða við gardínuval og ef óskað er eftir því sérstaklega að þá kem ég eftir flutningin og aðstoða við mynda- og svo að málverkauppröðun á veggina. Fólki á að líða vel á nýja staðnum þar sem partur af gamla heimilinu fylgir á smekklegan hátt.“

Margir nýta sér fagfólk

Sérsvið Bryndísar er innanhússarkitektúr en hún tekur að sér ráðgjöf þegar fólk lendir í vanda við að koma eldra innbúi fyrir á nýju stað. ,,Í ljós hefur komið að flutningar ganga mun auðveldar fyrir sig þegar búið er að teikna húsgögnin inn,“ segir Bryndís. ,,Teikningin auðveldar fólki við að grisja og auðveldar flutninginn líka þar sem húsgögnin fara strax á réttan stað og miklu máli skiptir að fólkið sé með í öllu ferlinu.“

Samviskubit nagar marga

Bryndís segir að flestir séu ánægðir þegar búið er að taka skrefið við að minnka við sig. ,,Þegar sá tími er kominn að fólk þjáist af samviskubiti yfir því að geta til dæmis ekki lengur séð nógu vel um garðinn eða að húsið þarfnist viðhalds sem engin orka er í að sinna þá er betur af stað farið en heima setið. Hlutverk mitt er að auðvelda fólki flutninginn með góðu skipulagi og að öllum líði eins og þeir séu að koma heim á nýja staðnum,“ segir Bryndís.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 25, 2022 07:00