Héldu að sér höndum meðan fasteignaverð rauk upp

Ásdís Ósk Valsdóttir

Margir þeirra sem eldri eru, fara að líta í kringum sig eftir minna húsnæði þegar þeir sjá fram á að fara á eftirlaun. Eftir hamfarirnar á fasteignamarkaðinum síðustu misseri er enn töluvert um að eldra fólk sé að minnka við sig, segir Ásdís Ósk Valsdóttir eigandi Fasteignasölunnar Húsaskjóls. Hún segir að fólk fari í rauninni mjög oft, alltof seint af stað.”Margir eru í alltof stórum húsum jafnvel áratugum eftir að síðasta barnið er flutt að heiman. Þessi hús þurfa mikið og dýrt viðhald. Það er mikil vinna að halda við garðinum og þrífa húsið og rekstarkostnaðurinn er mjög hár”.   Hún segir mikilvægt að passa að láta viðhald húseigna ekki drabbast niður vegna þess að verðmæti hússins sé fljótt að rýrna ef kaupandinn horfi fram á að þurfa að fara í dýrt viðhald, strax eftir afhendingu. Þar að auki fækki þeim sem sýni eigninni áhuga.

Vilja gefa sér tíma til að taka ákvörðun

Ásdís segist hafa orðið þess vör, að margt eldra fólk hafi haldið að sér höndum á meðan fasteignaverðið var á stöðugri uppleið. Fyrir því væru nokkrar ástæður.  “Markaðurinn var mjög hraður og eldra fólkið ekki spennt fyrir að fara taka þátt í þeim látum sem voru í gangi. Það vill fá að skoða eignir og gefa sér tíma til að taka ákvörðun. Það er stór ákvörðun að selja húsið sem þú hefur kannski búið í stóran hluta ævinnar. Þegar allt þitt eigið fé er bundið í húsinu þá getur verið erfitt að fjármagna tvær eignir og seljendur voru ekki spenntir fyrir tilboðum með fyrirvara um stórt óselt hús”.

Lítil sérbýli á einni hæð hafa alltaf verið vinsæl

“Þeir sem eru að minnka við sig eru yfirleitt að leita að nýlegum eignum sem þurfa ekki viðhald og vilja helst vera lausir við garð nema fólk sé að skoða lítil sérbýli sem eru kannski í kringum 120 fm,  ásamt bílskúr og á einni hæð. Þau hafa alltaf verið vinsæl”, segir Ásdís og bætir við.  “Það er flókið að kaupa og selja og meta hvort eigi að gera á undan.  Markaðurinn er sem betur fer að komast í jafnvægi sem þýðir að það eru fleiri eignir að koma á skrá og því auðveldra að selja fyrst og kaupa svo”.

Framboð eigna hefur tekið hressilega við sér

Framboð eigna á höfuðborgarsvæðinu er að taka við sér. Halldór Kári Sigurðsson hagfræðingur Húsaskjóls segir í grein á heimsíðu fasteignasölunnar að framboð eigna á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist í júlí og nú séu rétt rúmlega 1000 eignir til sölu þar. Þegar framboðið var minnst í byrjun febrúar á þessu ári hafi tæplega 440 íbúðir verið  til sölu á öllu höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að hærri vextir og þrengri lánaskilyrði séu farin að draga verulega úr eftirspurn, kaupgeta fólks hafi minnkað. Hann segir ekki ósennilegt að framundan séu nafnverðslækkanir á húsnæði milli mánaða og telja megi ljóst að við horfum í það minnsta fram á raunverðslækkanir.

Bjóða fría og skuldbindingalausa ráðgjöf

Húsaskjól býður uppá sérstaka þjónustu fyrir fólk sem er að minnka við sig.  “Ég er komin með nýtt kerfi sem er sérsniðið fyrir fólk sem á eftir að kaupa og selja og hægt er að bóka fría og skuldbindingalausa ráðgjöf hjá mér til að fara yfir þau mál og sérsníða ferlið fyrir hvern og einn, því þarfir fólks eru jafn mismunandi og við erum mörg”, segir Ásdís Ósk, eigandi fasteignasölunnar, en frekari upplýsingar má finna hér og á heimsíðu Húsaskjóls með því að smella hér.

 

 

Ritstjórn september 6, 2022 07:00