Bíólíf í lok síðustu aldar

Bíóauglýsingar í dagblöðum heyra nú fortíðinni til. Sú var tíðin að bíóauglýsingar voru með vinsælasta efni blaðanna – nú er sem sagt af sú tíð – netið hefur tekið þar völdin sem víða annars staðar.

Perla Torfadóttir starfaði í Regnboganum sem var kvikmyndahús við Hverfisgötu. Það opnaði 1980 og var fyrsta fjölsala kvikmyndahús Íslands. Í húsnæðinu er nú starfrækt Bíó Paradís.

„Ég starfaði í Regnboganum á árabilinu frá 1994 til 1996. Ég tvítug þegar ég byrjaði að vinna þarna. Starf í miðsölu auk ýmissa annarra starfa var auglýst í Morgunblaðinu. Ég sótti um og Ingibjörg Þórðardóttir réð mig til starfa. Hún var starfsmannastjóri þá og var aðeins tveimur árum eldri en ég og mjög góður yfirmaður. Hún var hvetjandi og treysti fólki vel til að vinna sína vinnu. Hún varð síðar fréttastjóri hjá BBC í London og svo í Bandaríkjunum.

Vinnutímanum í Regnboganum var skipt í fjórar vaktir, mánudags-, þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagsvaktir og svo voru helgarvaktir, frá föstudegi  til sunnudags. Maður var annað hvort frá fjögur síðdegis að miðnætti eða frá átta að kvöldi til miðnættis. Ég vann yfirleitt alltaf frá fjögur á þriðjudögum og fimmtudögum og tvær helgar í mánuði. Við vorum í svörtum einkennisbolum sem á stóð Regnboginn.“

Í hverju var þetta starf fólgið?

„Það var sem sagt miðasalan en ég var líka vaktstjóri og vann í sjoppunni stundum og þegar mjög margt var gesta þá vísaði ég til sætis. Auk sýningarstjóra voru þrír til fjórir í sjoppunni, einn í miðasölunni og svo var dyravörður sem reif af miðum og hleypti úr salnum.

Miðasölukerfið var allt öðruvísi en nú er. Að vísu voru þá tölvur sem tengdar voru við sérstaka prentara en ekkert net var á þeim tíma í Regnboganum. Á miðana var prentað nafn myndarinnar, salurinn og ef margt fólk var, þá var selt í merkt sæti. Miklu algengara var á þessum tíma að fólk borgaði með peningum en kortum. Við höfðum samt posa og sáum sjálf um að renna kortum í gegn. Fólki kvittaði svo undir nótuna. Þetta kerfi var tafsamt, oft var röð langt út á götu. Ekki síst á frumsýningum og ef það voru sýndar vinsælar myndir. Sýningarnar voru klukkan 17.00, 19.00, 21.00 og 23.00 – sýningin klukkan 21.00 var lang vinsælust.

Að mörgu leyti var þetta þægilegt starf. Í miðasölunni var stundum óskaplega mikið að gera svona hálftíma fyrir sýningu en svo varð allt rólegt. Í sjoppunni var mikið að gera í hléum en á milli þess sátum við krakkarnir í tröppunum og kjöftuðum saman. Þá var oft mikið fjör. Stelpurnar voru í miklum meirihluta, bara sýningarstjórinn og dyravörðurinn voru karlkyns. Þess má geta að á þessum tíma voru allar myndir sýndar á filmu en nú eru myndir sýndar stafrænt. Starf sýningarstjórans var því mikilvægt á þeim tíma sem ég var í bíóbransanum, ef svo má segja. Sýningarstjórinn varð að vera yfir sýningunni meira og minna allan tímann. Þess má geta að á tímabili voru haldnar myndlistarsýningar í húsnæði Regnbogans og þá gengum við um með kampavín á bakka við opnanir.“

Fríir miðar, popp og kók

Voru hlunnindi samfara starfinu?

„Já, ég fékk tvo fría miða á hverja sýningu, nóg af poppi og kóki og svo fékk maður afslátt af öllu sem fékkst í hljómplötuversluninni Skífunni sem átti bíóið. Aðalplúsinn var þó að mikið af ungu fólki var að vinna þarna í aukastarfi með skóla og ég eignaðist í Regnboganum marga vini sem ég var í sambandi við löngu eftir að við hættum að vinna saman. Almennt séð var líka mikið fjör á vinnustaðnum sjálfum og við starfsfólkið hittumst oft fyrir utan vinnuna.“

Hvað voruð þið þá að gera?

„Það sem fólk gerði þá á þessum aldri. Við gengum upp og niður Laugaveginn, fórum inn á allskonar skemmtistaði þar sem var dansað miklu meira nú gerist.“

Hvernig myndir voru vinsælastar?

„Ég man eftir Independens Day, sú mynd var gríðalega vinsæl. Einnig mynd sem heitir Kids. Spennu- og gamanmyndir voru yfirleitt vinsælastar. Langflestar myndirnar voru amerískar. Ég var raunar ekki mikið að hugsa um myndirnar en það var samt gaman að geta farið í bíó. Kvikmyndasýningar voru þá miklu algengari skemmtun en nú er. Netið var ekki komið en Sjónvarpið var auðvitað og Stöð 2. Eina leiðin til að sjá aðrar myndir en þar voru sýndar var að fara í bíó.“

Hvað með vídeóleigurnar?

„Nýju kvikmyndirnar fóru fyrst í sýningar í bíóhúsum og mun seinna rötuðu flestar þeirra á vídeóleigurnar. Að fara í bíó var því mjög vinsæl afþreying þegar ég var að vinna í Regnboganum. Fólk fór á stefnumót í bíó og sótti sýningar með vinum og fjölskyldu. Það var því oft mikið stuð í hléum, mikil törn í sjoppunni. Ég vann um tíma mjög mikið, ég man að ég vann á annan í jólum og pabbi minn kom með hangikjöt og uppstúf á diski niður í miðasölu til mín.“

Ófrísk í miðasölunni

Hvað sælgæti keypti fólk helst á þessum tíma?

„Popp og kók var sígilt en líka var vinsælt að fá Nachos með ostasósu. Við starfsfólkið átum mikið af poppi, ég er ennþá með ör eftir bruna af popppottinum. Ég var líka hrifin af bláum Opal sem nú fæst ekki lengur. Ég opnaði pakkann og setti hann undir hitaperurnar sem hélt Nachosinu heitu, þá urðu Opalpillurnar mjúkar og heitar. Fólk keypti líka mikið af lakkrís og auðvitað súkkulaði. Pipp var vinsælt og líka Nóa-Kropp.“

Eru þér einhver sérstök atvik minnistæð úr starfi þínu í Regnboganum?

„Já, sérstaklega eitt. Ég vissi ekki að ég væri ófrísk að mínu fyrsta barni þegar ég hóf þar störf. Þegar frá leið fór að sjá á mér og ég frétti seinna að yfirmenn hefðu hikað við að hafa ófríska konu í miðasölunni og til tals kom að ég yrði látin hætta. En Ingibjörg starfsmannastjóri tók það víst ekki í mál og ég hélt áfram að vinna miðasölunni þar til barnið fæddist. Þá tók ég tveggja vikna leyfi og fór svo aftur að vinna. Sem betur fór frétti ég ekki fyrr en löngu seinna hve tæpt hefði staðið að ófrísk kona fengi að vinna í miðasölunni. Nú þætti slíkt sannarlega ekki tiltökumál.“

Ferðu oft í bíó núna?

„Nei. Ég fer næstum aldrei í bíó. Nú er allt efni, þar með kvikmyndir, orðið svo aðgengilegt á netinu að ég vil heldur horfa á það heima hjá mér. En eftir stendur að árin tvö sem ég vann í Regnboganum eru eftirminnileg. Það var ekki síst að þakka því ágæta fólki sem ég vann með. Fyrir fimm árum hittumst við, hópurinn sem vann í Regnboganum 1995, og rifjuðum upp góðar stundir. Þá var mikið hlegið og mjög gaman. Starfið í Regnboganum var skemmtileg og góð reynsla.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

gudrunsg@gmail.com

Ritstjórn nóvember 8, 2019 15:12