Tengdar greinar

Bók fyrir alla krakka -líka þá sem eru lesblindir

„Ég er lesblind og hef alltaf átt í erfiðleikum að fá bækur sem mér finnst þægilegt að lesa. Eftir að ég var búin að skrifa Hrauney datt mér í hug að gefa út bókina með letri sem hentar lesblindum krökkum,“ segir Karólína Pétursdóttir og bætir við að það hefði auðveldað henni lífið þegar hún var krakki að fá slíka bók í hendurnar. Til að forðast allan misskilning geta allir notið þess að lesa bókina þó hún sé með lesblinduletri.

Karólína segist alltaf hafa hagt gaman af þjóðsögum, goðafræði og ævintýrum. Í bókinni Hrauney segir frá álfum. „Ég hef lesið þjóðsögur um álfa og huldufólk. Ég er undir áhrifum þjóðsagna en hef hér búið til marga álfa kynstofna ásamt sögu þeirra og menningu. Aðrar þjóðsagnakenndar verur koma við sögu og einnig einhverjar sem eru uppspunni frá rótum. Í þessari bók fær íslenska náttúran að njóta sín og þá sérstaklega íslenska veðrið. Markmið bókarinnar er að endurvekja íslenska huldufólkið og skapa heim sem fólk getur gleymt sér í. Heim þar sem allt er mögulegt. Hér hef ég fundið leið til að fá útrás fyrir sköpunargleði mína og ég get ekki beðið eftir að leyfa fleirum að koma með í ævintýri í Hrauney.“

Karólína segir að Hrauney verði fyrsta bókin í bókaflokki. Hún sé langt komin með bindi númer tvö.  Bókina er meðal annars hægt að nálgast í Eymundsson, Nettó hjá Forlaginu og á Hrauney.is. Bókin er ætluð krökkum frá tólf ára aldri.

Ritstjórn desember 17, 2018 07:17