Borgþór Kærnested

Borgþór Kjærnested skrifar

Hörður Kristjánsson ritstjóri Bændablaðsins skrifar leiðara í nýjasta Bændablaðið undir yfirskriftinni “Til skammar”  “það er blóðugt að eldri borgarar og öryrkjar þessa lands þurfi að standa í stöðugu stappi við kjörna fulltrúa þjóðarinnar til að tryggja afkomu sína. Það er í hæsta máta undarlegt að þjónar fólksins á Alþingi Íslendinga skuli stilla sér þannig upp gegn þessum hluta þjóðarinnar. Að þeir semji lög og reglur sem eru túlkaðar á þann hátt að heimilt sé að beita stofnunum ríkisins beinlínis gegn þessum þjóðfélagshópum. Á sama tíma þykir ekkert tiltökumál að ríkið veiti stóreignamönnum heimild til að braska með helstu auðlindir þjóðarinnar, sem meta má á hundruð, ef ekki þúsund milljarða króna, rétt eins og þeir eigi þær“, segir í leiðaranum.

Þeim fjölgar stöðugt sem eru að ná skilningi á þessu umfangsmikla óréttlæti sem ríkir og skiptir þjóðinni í tvennt. Annars vegar þá sem hafa það bara mjög gott – sem er ekkert ámælisvert. Og svo hina, sem lifa í stöðugum ótta við að bréf berist frá TR og tilkynningar um ofgreiðslur til viðkomandi, sem þó höfðu ekki úr miklu að spila fyrir.

Það er ekki eins og að samtök eldri borgara, öryrkja og þroskahjálp hafi setið auðum höndum áratugum saman. Frá því að ég kom að starfsemi Landssambands eldri borgara 2005 hefur þetta verið stöðug barátta og rökræður við stjórnmálamenn af öllum gerðum og stærðum. Kjörorðið “Ekkert um okkur án okkar” kom í kjölfar Evrópuárs um kjör eldra fólks og fatlaðra í upphafi nýrrar aldar. Formaður Öryrkjabandalgs Íslands, Sigursteinn Másson, átti frumkvæðið að markvissri vinnu að bættum kjörum eldra fólks og öryrkja. Allir stjórnmálaflokkarnir sendu fulltrúa ásamt forystu LEB og Landssamtakanna Þroskahjálpar. ÖBI stóð fyrir fjármögnun verkefnisins. Starfinu var skipt niður í fimm hluta:

  1. Breytt framfærsluskipan almannatrygginga og skatttkerfi.
  2. Aukin atvinnuþátttaka öryrkja og eldri borgara
  3. Menntun og endurhæfing/hæfing.
  4. Búseta, fjölskyldulíf og stoðþjónusta.
  5. Aðgengi og hönnun góðrar heilbrigðisþjónustu.

Allir stjórnmálaflokkar samþykktu þessar tillögur 2008. Sambandsstjórnarfundur LEB sem haldinn var í Hveragerði í maí það ár  samþykkti þetta plagg líka, sem bar yfirskriftina HUGMYND að betra samfélagi , og fjölda sérályktana að auki.

Svo kom október 2008 og HRUNIÐ. Þá fyrst var gripið til þess að skerða öryrkja og eldri borgara um krónu á móti krónu til að bjarga landinu fyrir horn. Auðvitað höfðu margir sem tóku ellilífeyri og öryrkjar farið illa út úr hruninu. Þess vegna var þessi aðgerð, að skerða lífeyri fólks með þessum hætti, algert óyndisúrræði.

Ef ekki næst leiðrétting fyrir Evrópudómstólnum þá verður að vera til plan B. Þá verður að taka af alvöru á skerðingarfyrirkomulaginu og afnema það. Þær þjóðir sem Íslendingar miða sig iðulega við eru ekki með neitt fyrirkomulag sem líkist TR skerðingum. Þeir eru með skatta – ekki skerðingar. ALLIR sitja við sama borð í þeim efnum og geta bætt hag sinn eða selt fyrirtækið sitt án þess að það hafi nokkur áhrif á töku úr lífeyrissjóðum.

TÖKUM HÖNDUM SAMAN

BURT MEÐ SKERÐINGARNAR!!

 

Ritstjórn júní 12, 2020 08:15