Bráðum verð ég sextug

Inga Rósa Þórðardóttir

Inga Rósa Þórðardóttir

Inga Rósa Þórðardóttir kennari skrifar

Það er áhugavert að hér skuli hleypt af stokkunum vef sem sérstaklega er ætlaður rosknum Íslendingum, miðaldra og rúmlega það. Í fyrsta lagi er áhugavert að þessum aldurshópi skuli hér ætlaður sérstakur og afmarkaður vettvangur fyrir sín málefni og í öðru lagi og kannski enn fremur er áhugavert að þessi vettvangur skuli vera netmiðill. Það segir stóra sögu um samfélagsbreytingar á skömmum tíma. Foreldrar mínir kynntust aldrei tölvum, hvað þá netlægu efni og upplýsingaflóðinu sem þar liggur. Þeirra fjölmiðlabylting lá í sjónvarpinu sem þau kynntust fullvaxin, jafnvel næstum miðaldra. Ég held ég muni rétt að þau hafi aldrei kynnst sjónvarpsdagskrá á fimmtudögum. Og það er alveg æsispennandi að okkur, miðaldra fólkinu og þaðan af eldra, skuli boðið að fræðast, kynnast og miðla efni um netið.

Ég verð sem sagt bráðum sextug. Það er nú aldeilis skrítið og skemmtilegt. Ég man svo vel þá tíð að mér þótti fertugt fólk og eldra vera gamalt. Fyrir 40 árum þótti mér mágur minn, þá þrítugur, orðinn ansi aldraður. Fyrir 30 árum þótti mér 50 ár vera afskaplega hár aldur. Nú þykir mér enginn aldur vera hár. Ég veit ekki hvort þetta merkir að ég hafi þroskast eða sýnir einstæða aðlögunarhæfni manneskjunnar. Vonandi hvoru tveggja.

Aldur er bara tala á blaði, einfalt reikningsdæmi; núverandi ártal að frádregnu fæðingarári. Þetta reikningsdæmi segir mér sem sagt að ég verði sextug á þessu almanaksári. Og hvað með það? Það er að öllu jöfnu mun betra að eldast en að gera það ekki. En við eigum svo sem lítið val þar um.

Hins vegar eigum við val um ýmislegt og flestir jafnaldrar mínir og ferðafélagar í gegnum lífið eru einmitt um þessar mundir önnum kafnir við að velja eitt og annað. Flestir sem ég þekki velja að leitast við að bæta og styrkja heilsu sína. Við teljum okkur vita betur hvað þarf til en foreldrar okkar fyrir 40 árum. Við leggjum okkur almennt fram um að borða hollan mat og rækta bæði líkama og sál með ýmsum hætti, fjölbreyttum og (vonandi) skemmtilegum. Við erum í gönguhópum og jafnvel hlaupahópum, stundum leikfimi, sund, leikhús og bíó, dönsum og djömmum – já, sumir hafa jafnvel lítið slegið af síðustu 40 árin hvað þetta varðar, einhverjir kannski bætt í. Við leggjum okkur fram um að gera lífið okkar gott og skemmtilegt á sama tíma og við öxlum ný og sumpart framandi verkefni, margir annast aldraða og sjúka foreldra, við erum ömmur og afar og flestir leggja sig fram um að vera þar til staðar að einhverju leyti, sumir jafnvel miklu leyti. Flest erum við útivinnandi og vel virk, kannski stundum ofvirk í félagslífi af ýmsu tagi. Það er almennt gaman að vera til meðan heilsan vinnur með okkur. Og þannig á það svo sannarlega að vera.

Mér finnst blessunarlega gaman að vera til. Ég er í skemmtilegu og krefjandi starfi sem grunnskólakennari, ég á vini og vinkonur í hópum og dásamlega fjölskyldu og ættingja. Við ferðumst saman, borðum saman, dönsum saman og tölum saman. Með hverju árinu finnst mér ég skilja betur mikilvægi þess að eiga gott samferðafólk, vini sem eru samferða í gegnum lífið til lengri tíma, vini sem ég deili minningum með til að rifja upp, skiptast á skoðunum um og hlæja að. Og hlæja svo meira.

Þegar þessi orð eru skrifuð líður mjög að árlegri sumarferð saumaklúbbsins VI-Y (lesist sexý). Ég er yngst í hópnum, sú eina sem ekki er alveg orðin sextug, og við erum því kannski loksins að verða almennilega sexý. Um árabil höfum við farið á hverju sumri saman í 3 – 4 daga ferð um Ísland og skoðað dásamlegar náttúruperlur norðanlands, sunnan, vestan og austan. Konur skiptast á að annast undirbúning, í hópnum eru 3 faglærðir og þjálfaðir leiðsögumenn sem keppast um að láta í ljós sitt skína og við fræðumst heilmikið en fyrst og fremst erum við saman, tölum saman, borðum saman, hlæjum saman, sofum saman (nei, ekki þannig – þið vitið alveg hvað ég meina). Þessar ferðir gefa okkur óendanlega mikið, styrkja vináttuna, efla tengslin og styrkja okkur sem einstaklinga, bæði í hópnum og utan hans. Því við erum enn að læra þó að við séum orðnar „gamlar“ – a.m.k. skv. málskilningi mínum eins og ég man hann fyrir 40 árum.

Það er áhugavert að skoða fjölbreytt og breytileg verkefni lífsins. Saumaklúbbarnir mínir (já, þeir eru tveir), hafa starfað í liðlega 40 ár. Þar höfum við í gegnum tíðina rætt börn og barnauppeldi og stóð sú umræða árum saman yfir prjónaskap og saumum ásamt samræðum um sláturgerð og húsbyggingar svo fátt eitt sé nefnt af krefjandi verkefnum þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldursins. Tíminn leið og við hlógum óskaplega þegar einkenni breytingaskeiðsins voru orðin aðalumræðuefni hópsins (en var þó ekki alltaf mjög skemmt), síðan tóku við frásagnir af ótrúlegum barnabörnum sem hvert um sig var frábærara en öll önnur heimsins börn og þessa dagana ræðum við starfslok, eftirlaun og húsnæðismál. Lífið færir okkur fjölbreytt verkefni og við höfum stundum ekki val um verkefni, jafnvel sjaldan, en oftar en ekki höfum við val um hvernig við tökumst á við þau. Og það er bara gaman – eða hvað?

Eftirmáli

Inga Rósa Þórðardóttir skrifaði þennan pistil fyrir Lifðu núna, í júní 2014. Skömmu síðar greindist hún með krabbamein og lést 16.október. Inga Rósa lifði það ekki að verða sextug, en þessi pistill sýnir vel viðhorf hennar til lífsins og gleðinnar. Líka til aldursins, en eins og hún sagði sjálf, þá eigum við ekki val um hvort við eldumst. En við getum valið að njóta lífsins og samvista við ástvini og samferðamenn, eins og hún gerði sjálf. Inga Rósa var frábær samstarfskona og góð vinkona. Hún var falleg kona, vitur, skemmtileg og fordómalaus. Pistlinn hennar hér á síðunni er okkur áminning um að vanda okkur í lífinu og njóta hverrar stundar. Góður pistill frá góðri konu sem kvaddi alltof snemma. Blessuð sé minning hennar.

Erna Indriðadóttir.

 

 

 

Inga Rósa Þórðardóttir júlí 7, 2014 14:25