Braggar og byggðaþróun í Reykjavíkurborg

Braggar og byggðaþróun í Reykjavíkurborg er yfirskrift kvöldgöngu sem Borgarsögusafn stendur fyrir fimmtudaginn 10. júní kl. 20 og leiðsögumaður er Guðbrandur Benediktsson safnstjóri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá safninu.

Síðari heimsstyrjöldin markaði straumhvörf í sögu Reykjavíkur, en tilkoma herliðs Breta og síðar Bandaríkjamanna hafið margþætt áhrif hvað varðar þróun borgarinnar. Umsvif herjanna voru mikil, þau mörkuðu ásýnd borgarlandsins og settu jafnframt strik í reikninginn varðandi ýmsar skipulagshugmyndir.

Við lok stríðsins nýttu Reykvíkingar ýmsar af byggingum herjanna, ekki síst herskálana, eða braggana, sem var ákveðin forsenda fyrir vexti borgarinnar á eftirstríðsárunum. Það má segja að sýnilegar minjar um þessa sögu eru hverfandi í borgarlandinu í dag, en sagan er þó  mikil og leynist víða.

Lagt verður af stað kl. 20 frá aðalbyggingu Háskóla Íslands og gengið sem leið liggur vestur í bæ.

Kvöldgöngur eru viðburðaröð sem Borgarsögusafn, Borgarbókasafn og Listasafn Reykjavíkur standa fyrir. Göngurnar fara fram á fimmtudagskvöldum yfir sumarmánuðina. Upplýsingar um allar göngurnar er að finna á borginokkar.is og á Facebooksíðunni, Kvöldgöngur.

Þátttaka er ókeypis.

Ritstjórn júní 8, 2021 15:29