Brauðbúðingur með viskí sósu

Hér er búðingurinn á borðinu með viskísósunni og þeyttum rjóma

Þessi brauðbúðingur er ættaður frá Bandaríkjunum og er sérstaklega algengur í Suðurríkjunum. Upphaflega var brauðbúðingur fátækramatur. Hann hefur hins vegar tekið töluverðum breytingum og er orðinn upplagður spari eftirréttur. Hjördís Smith svæfingalæknir og meistarakokkur eldar þennan eftirrétt sem er magnaður hjá henni. Þetta er upplagður jólaeftirréttur fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýstárlegt! Hér er uppskriftin að þessum óvenjulega búðingi. Hún er fengin út matreiðslubókinni Silver Palate.The New Basics Cookbook og er svona:

60 gr. smjör

12 fransbrauðssneiðar. Skorpurnar skornar af. Gott að nota dagsgamalt brauð.

7 dl. mjólk

4 stór egg

3 eggjarauður

1 ½ dl viskí

2 dl sykur

1 ½ tsk vanilludropar

2 ½  dl viskísósa er svo höfð með búðingnum (uppskriftin að henni er hér fyrir neðan)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180 gráður.
  2. Smyrjið fransbrauðssneiðarnar báðum megin.
  3. Þeytið saman í skál, mjólkina, eggin , eggjarauðurnar, viskíið, sykurinn og vanilluna. Raðið smurðu brauðsneiðunum á botninn á eldföstu móti. Gætið þess að brauðið hylji botninn alveg og að ekki sé bil á milli sneiðanna. Brauðsneiðunum er síðan raðað hverri ofan á aðra, þar til bilið uppá barminn á mótinu er 2-3 sentímetrar.  Að því búnu er mjólkurblöndunni hellt varlega yfir brauðið. Það er mikilvægt að gera þetta hægt, þannig að brauðið drekki vel í sig vökvann. Hættið að hella þegar brauðið er hætt að draga í sig meiri vökva.
  4. Setjið eldfasta mótið í miðjuna á stærra ofnföstu formi. Fyllið formið af sjóðandi vatni, þannig að það nái upp í miðjar hliðarnar á eldfasta mótinu. Setjið formið með eldfasta mótinu í miðjan ofninn og bakið í 45 mínútur. Þá er formið tekið út úr ofninum og eldfasta mótinu komið fyrir á grind á meðan brauðbúningurinn kólnar aðeins, en það er gott að bera hann fram volgan
  5. Skerið þykkar sneiðar af heitum brauðbúningnum og setjið á disk. Hellið viskí sósunni yfir.

Þessi skammtur er fyrir 6-8 manns segir í uppskriftinni.

Viskí-sósa

5 stórar eggjarauður.

1,2 dl. Sykur

0.6 dl viskí

Aðferð:

  1. Eggjarauður og sykur eru þeytt saman í skál, þar til kvoðan er orðin ljósgul. Þá er viskíinu hrært út í, þar til allt hefur blandast vel.
  2. Síðan er skálin sem hrært var í sett í vatnsbað í stóran pott. Vatnið hitað hægt þar til það sýður. Blandan er þeytt stöðugt í skálinni á meðan. Það þarf að standa yfir þessu og þeyta. Eftir því sem blandan hitnar í vatnsbaðinu, stækkar hún og verður að kvoðu þegar meira loft kemst í hana.
  3. Það má bera sósuna fram hvort sem er heita eða kalda og það er gott að hræra aðeins í henni áður en hún er sett á borðið.
  4. Það er mjög gott að bæta þeyttum rjóma við og bera hann fram ef vill, með brauðbúðingnum og viskísósunni.

 

 

Ritstjórn desember 13, 2019 10:38