Tæknin hefur gert okkur kleift að vera í sambandi og samskiptum alls staðar og alltaf. Þetta er vissulega gott og kemur sér oft vel en síminn og netheimar geta náð slíkum tökum á lífi okkar að hvergi sé stundarfrið að finna. Sífellt fleiri rannsóknir benda til að skjálífið hafi ekki sérlega góð áhrif á líðan og heilsu manna og nauðsynlegt sé að stýra eigin skjátíma.
Ef það að hafa farsíma í vasanum snerist eingöngu um að svara honum þegar í þig er hringt eða geta hringt eftir aðstoð þurfir þú á henni að halda væru hlutirnir einfaldari. En síminn er orðinn allsherjartæki, hann geymir minningar, skilríki, aðgang að pósti, samfélagsmiðlum og hann er greiðslumiðlun flestra í verslunum. Ef hann klikkar eru margir bjargarlausir því jafnvel þótt þeir séu með kortið á sér muna þeir ekki pin-númerið ef þeir þurfa að slá það inn.
Það er líka freistandi að grípa stöðugt símann til að leita upplýsinga, skoða skilaboð, fylgjast með umræðu og taka myndir af einhverju skemmtilegu. Allt fínt í hófi en verður stundum á kostnað samskipta. Til dæmis þegar farið er út að borða. Sumir geta ekki einu sinni notið matarins vegna þess að það þarf að taka myndir af honum og deila á samfélagsmiðlum, það þarf líka að fylgjast með hvað er að gerast á þeim sömu miðlum og skoða hvort hafi borist smáskilaboð eða tölvupóstur. Eldra fólk gerir vissulega minna af þessu en þeir yngri en það færist í vöxt að síminn sé tekinn fram yfir maka eða félaga í þeim hópi líka þegar farið er á mannamót. Nú og svo er lítið gaman fyrir þá eldri sem ekki hanga sífellt í símanum að vera með yngra fólki sem gerir það. Það er góð regla að banna símana þegar fólk kemur saman.
Lakari þjónusta ef ekki eru notuð öpp
Erlendar rannsóknir benda til að símar stjórni lífi yngra fólks í sífellt meira mæli. Þau eru háð öppum og það færist líka í vöxt að ákveðin þjónusta fáist ekki nema í gegnum öpp. Tökum til að mynda leigubílaþjónustu hér á landi. Lifðu núna hefur fregnir af því að æ erfiðara sé að fá leigubíla frá hefðbundnum leigubílastöðvum. Allt að 45 mínútna bið getur verið eftir bíl og lesendur sögðu okkur frá töpuðum augnlæknatíma sem beðið hafði verið eftir í 3 mánuði, sjúkraþjálfun sem varð að endurbóka vegna þess að leigubíllinn kom svo seint, jarðarför sem ekki var hægt að fara í því athöfnin var hafin þegar leigubíllinn loksins kom.
Unga fólkið pantar leigubíla í gegnum öpp og notar ekki endilega Hreyfil – Bæjarleiði eða BSR sem hægt er að hringja í. Hopp, Reykjavík Taxi og fleiri nota öpp til að koma þjónustu sinni á framfæri og það skaðar hugsanlega möguleika þeirra sem háðir eru þjónustu leigubíla að geta eingöngu nýtt sér þær stöðvar sem taka á móti pöntunum gegnum síma og öpp. Þar með er sú þjónusta sem þeir njóta í sumum tilfellum óáreiðanlegri og lakari en sú sem þeir sem hafa tæknina í hendi sér hafa aðgang að. Og það eru ekki bara leigubílar sem greiðari leið verður að gegnum öpp. Veitingahús, miðasölur, líkamsrækt, heilsuvakt, áminningar um að tími sé kominn til að gera ýmislegt, leikir, tónlist og fleira og fleira er eingöngu fáanlegt gegnum app.
Margt eldra fólk hefur náð góðum tökum á tækni og fylgist vel með en rannsóknir á heilastarfsemii okkar bendir til að því meira sem við nýtum okkur tæknina til að versla, panta, skoða og tjá okkur því hvatvísari verðum við og erfiðara að stjórna löngunum sínum. Það hefur sýnt sig að þeir sem versla á netinu kaupa almennt meira og oft mun óvandaðri vöru en þeir sem fara út í búð. Tækniheimurinn safnar líka upplýsingum um þig sem neytanda og beinir til þín auglýsingum sem hæfa áhugamálum þínum byggt á sögu þinni á netinu. Allir hljóta að hafa tekið eftir því að ef þeir klikka á auglýsingu á, segjum til að mynda rúmfötum, birtast skyndilega tíu svipaðar inni á samfélagsmiðlum þínum. Hið sama gildir ef þú skoðar myndir af bílum, áfangastöðum til að ferðast til eða fatnaði. Það líður ekki á löngu þar til þú ert minntur reglulega á að einmitt þetta var í huga þér fyrir skömmu síðan. Þetta getur líka valdið ákveðinni rörsýn því sjaldnast er beint til þín efni sem þú hefur ekki áður sýnt áhuga á.
Tölvan les þig eins og opna bók
Algóritmar netsins kunna að fanga athygli fólks og halda henni. Við gleymum okkur og erum allt í einu búin að eyða klukkustundum inni á netinu þótt við höfum bara ætlað að skreppa í tíu mínútur á facebook. Þetta er tímaþjófur og stöðugt áreiti. Margir hafa þess vegna kosið að annað hvort skammta sér tíma á netinu eða hætta alveg að nota það. Þetta fólk kaupir sér einfalda síma, ekki snjallsíma, ferðast ekki með tölvur, ipada eða annan tæknibúnað og tekur sér reglulega algjöra hvíld frá samfélagsmiðlum.
Síminn og tæknin geta nefnilega reynst verstu harðstjórar þótt vissulega skapist oft af þeim hagræði. Við gleymum okkur í skruni og skrumi og gleymum því sem við virkilega þörfnumst, eins og nálægð við aðra, gefandi samskiptum, ró og hvíld fyrir hugann ekkert síður en fyrir líkamann. Eldra fólk jafnt og hinir yngri eiga til að grípa símann þótt ekki sé til annars en að tékka hvort eitthvað hafi breyst síðan þú leist á hann fyrir tveimur mínútum síðan. Eina ráðið til að losna undan harðstjórn símans er einfaldlega að hunsa hann.
Það að dvelja um of í stafrænum heimi getur haft áhrif á veruleikaskynjun fólks og þess gætir í æ ríkara mæli hjá börnum og unglingum. Þeir hópar hafa ekki sömu forsendur og hinir reynslumeiri til að skynja og skilja hismið frá kjarnanum. En jafnvel eldra fólk þarf reglulega að skerpa dómgreind sína þegar kemur að tækninni. Það er auðvelt að ánetjast alls konar gylliboðum og gleyma sér yfir alls konar innantómri afþreyingu.
Sumir ekki á netinu og ekki í símasambandi
Það gleymist líka gjarnan í nútímaheimi að ákveðinn hópur fólks kýs að vera ekki á netinu og ákveðnir hópar komast ekki inn á öryggisvarðar síður, til að mynda geta sjómenn á hafi úti ekki alltaf notað rafræn skilríki sem þýðir að þeir hafa ekki aðgang að margvíslegum upplýsingum sem geta varðað þá miklu, til dæmis stöðu bankareikninga sinna, skattaframtalinu eða öðrum upplýsingum sem hið opinbera vill koma á framfæri og þeir geta ekki farið inn á Heilsuveru til að endurnýja lyfseðla eða panta tíma hjá lækni. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja að ekki sé allt bundið við tölvuna eða símann og fleiri leiðir séu til að bjarga sér ef á þarf að halda.
Margir sálfræðingar vilja rekja aukinn kvíða og streitu í samfélaginu til aukinnar notkunar samfélagsmiðla, síma og tölva. Það að vera sífellt tengdur en um leið ekki í nálægð við neinn veldur meiri skaða en ávinningi hvað andlega líðan okkar varðar. Sífelldur samanburður við óraunhæfar ímyndir getur valdið þunglyndi og leiða, eilífar freistingar leitt menn inn á rangar brautir og sá hraði sem er á öllu í stafræna heiminum minnkað einbeitingartíma og dregið úr hæfni manna til ígrundunar og skilnings. Sífellt áreiti og örvun dregur úr hæfni líkamns til að framleiða vellíðanarboðefni og það veldur andlegri þreytu, þunglyndi og vanlíðan.
Með því að taka upp símann er líka hægt að gleyma sér augnablik. Í stað þess að veita athygli því sem býr innra með þér getur þú einbeitt þér að ytra áreiti og því sem er að gerast hjá öllum öðrum. Þetta er engum hollt í of miklum mæli. Allir þurfa að vera í tengslum við eigið tilfinningalíf og hafa skilning á hvað er að gerast þar. Snjallsímar og tölvur eru í raun tæki sem hafa sett á stað risastóra óumbeðna rannsókn á hvernig heili okkar virkar og hvernig hægt er að hræra í honum. Við erum í raun öll stödd í spilavíti líkt og í Las Vegas þar sem vinningslíkur eru okkur ekki í hag ef við höldum áfram að spila klukkustundum saman á símana og takkaborðin.
Stafræna byltingin hefur vissulega fært okkur ótalmargt hagræði, afþreyingu og skemmtun en það er alltaf vont að vera undir harðstjórn einhvers og geta ekki hrist af sér okið. Samt er leiðin greið og allir vita hver hún er, taka sér hvíld frá síma og tölvum og njóta þess í stað stundarinnar, náttúrunnar, samvista, matar og lífsins án þess að deila því með símanum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.