Eldra fólk ræður sér heimilishjálp frá einkafyrirtækjum

Jyllands-Posten greinir frá því í dag, að stöðugt fleira eldra fólk afþakkar boð sveitarfélaganna í Danmörku um heimilishjálp, vegna óánægju með tíð mannaskipti í þjónustunni.  Það fái stöðugt nýja og nýja aðstoðarmenn inná heimilið.

Þess í stað grípa stöðugt fleiri til sinna ráða og kaupa sér heimilisaðstoð af einkafyrirtækjum, sem standa sig betur í að senda fasta starfsmenn út á heimilin, að því er fram kemur í blaðinu.

Ef allt landið er tekið, velur um 35% eldra fólks heimilisaðstoð frá einkaaðilum, en tölur frá Kaupmannahöfn sýna að fjöldi klukkustunda sem einkaaðilar veita í heimilisaðstoð, sem er greidd af hinu opinbera, jókst úr 21% í 30% á árunum 2009 til 2013.

Tölurnar sýna líka að það er mikill munur á því, hversu ánægðir menn eru með þann fjölda fólks sem veitir heimilisþjónustuna, eftir því hvort þeir fá aðstoðina frá sveitarfélaginu eða einkafyrirtæki.

Á meðan einungis 41% eldra fólks sem fær aðstoð frá sveitarfélaginu er ánægt, eru 76% þeirra sem kaupa þjónustuna af einkafyrirtækjum ánægð.

„Það skiptir þá sem eldri eru ótrúlega miklu máli að þekkja þann sem veitir heimilisaðstoðina og að hann viti hverjar þarfir þeirrra eru. Það skapar öryggi, en það megnar sveitarfélagið ekki að veita“, segir Ulla Skærved formaður öldungaráðsins í Kaupmannahafnarborg.

„Við erum með nýtt og nýtt fólk í heimilishjálpinni sem gerir að verkum að eldra fólkið leitar til einkafyrirtækjanna sem standa sig betur í þjónustunni“, heldur hún áfram.

Dennis Kristensen formaður Stéttarfélags opinberra starfsmanna FOA, segir að sveitarfélögin verði að standa sig og veita jafn góða þjónustu og einkafyrirtækin, þannig að heimili eldra fólks verði ekki eins og lestarstöðvar.

 

Ritstjórn október 1, 2014 13:04