Tapað fyrir tækninni

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Sumir tala vélamál. Þetta fólk þarf ekki annað en líta á flóknar vélar til að skilja hvernig þær vinna og hvað þarf til að ná út úr þeim hámarksafköstum. Aðrir eru með þeim ósköpum gerðir að þeir mega ekki líta á nokkra maskínu öðruvísi en svo að kvikindið bili eða taki upp á einhverjum skelfilegum skammarstrikum. Ég er í síðari flokknum.

Fyrir nokkrum dögum komst ég að því að ég er ekki ein um þetta. Sennilega er þetta ættgengur andskoti þegar allt kemur til alls. Kona mér náskyld er mikill tungumálasnillingur. Hún talar sjö en eitt þeirra er alls ekki vélamál. Blessunin varð nefnilega fyrir því óláni að skyndilega tók tölvan hennar upp á að svara öllu gúgli á finnsku. Hið hljómmikla tungumál Tégners og Sibeliusar er ekki eitt af þeim sjö sem hún hefur á valdi sínu þannig að í hvert sinn sem hinn alvitri Google er spurður ráða situr konan og klórar sér í höfðinu yfir flóði upplýsinga sem hún sér enga leið til að notfæra sér.

Þetta skyldmenni mitt sver og sárt við leggur að enga skipun hafi það gefið eða fiktað í nokkrum takka sem valdið gæti þessu uppátæki tölvunnar. Ég trúi því. Mín fyrsta tölva var illkvittið og andstyggilegt fyrirbæri. Reglulega át hún af viðurstyggilegri og miskunnarlausri græðgi heilu og hálfu skjölin. Ekki var nokkur leið að finna neitt af þessu aftur og ég horfði á eftir mínum fegurstu setningum og snilldarlegustu hugmyndum hverfa í iður vélarskrímslisins. Trúið þeim sem reynsluna hefur, svoleiðis er ekki hægt að fyrirgefa.

Fædd á rangri öld

Ég hef aldrei náð fullu valdi á neinu tæki. Gömlu símtækin voru frábær að mínu mati því þau gerðu ekki aðrar kröfur til manns en þær að festa ekki puttana í götunum þegar skífunni var snúið. Pínulitlu takkarnir á nútímasímum eru ávísun á vandræði og ég hef lent í að skella á mikilvægt fólk, heyra skyndilega rödd mína hrópa úr hátalara sem ég ætlaði sannarlega ekki að taka í gagnið og fá ýmis undarleg píp og bíbb inn í samtöl mín.

Farsímarnir mínir hafa líka lifað af hremmingar sem slíkum tækjum er alla jafna ekki ætlað að ganga í gegnum. Meðal þeirra eru nokkurra klukkustunda vist í ísskápnum, bað, hálfsteiking á eldavélinni og óteljandi högg eftir að hafa fallið úr mismunandi mikilli hæð. Ég dáist reyndar að seiglu þeirra og aðlögunarhæfni en verð að viðurkenna að stundum pirra þeir mig ósegjanlega þegar ég ætla til dæmis að senda SMS-skilaboð og kvikindin kveikja hvað eftir annað á myndavél sem ég kæri mig alls ekkert um að nota.

Eitt sinn átti ég líka myndbandstæki sem hægt var að stilla á upptöku fram í tímann. Það fannst mér mikill kostur og ætlaði einu sinni að notfæra mér þennan hæfileika. Skemmst er frá því að segja að tækið bar aldrei sitt barr eftir þá tilraun og fór tvisvar í viðgerð. Ég missti auðvitað af þættinum góða. Þegar ég vann í banka á sínum tíma opnuðum við eitt sinn sérríflösku á föstudegi til að skála fyrir góðum árangri deildarinnar. Mér tókst að hella úr mínu staupi yfir reiknivélina mína sem umsvifalaust tók að æla upp pappírsborðanum sem sýndi einhver furðutákn sem hvergi var að finna á töluborðinu. Táknin líktust helst litlum köllum með kínverska hatta. Ég lyfti upp reiknivélinni og horfði sorgmædd á sérríið leka úr henni niður á borðið. Það var ekki fyrr en tveimur vikum seinna að ég þorði að játa brot mitt og senda hana í viðgerð. Samstarfskonur mínar bentu reyndar á að skynsamlegra væri sennilega að koma henni á Vog.

Nei, ég hef líklega ekkert erindi á tækniöld. Ég þrái einföld tæki. Hugsið ykkur til dæmis ef til væri saumvél þar sem efninu væri troðið í annan endann, ýtt á takkann buxur og út um hinn kæmi þessi fína flík. Dásamlegt væri líka ef maður gæti talað við tölvuna sína í stað þess að þurfa stöðugt að passa sig á að ýta ekki á einhverja tvo eða þrjá takka samtímis sem gæti valdið því að margra daga vinna ónýttist eða sjálfur Google tæki upp á að tala óskiljanlegt mál. Já, veröldin væri áreiðanlega betri staður ef ekkert tæki hefði fleiri takka en tvo og gæti lesið hugsanir eigandans.

Steingerður Steinsdóttir mars 23, 2024 07:00