Seltjarnarnes með hæst hlutfall íbúa yfir 67 ára aldri

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra segir það sína skoðun, að það eigi að flytja málefni aldraðra og þjónustu við þá til sveitarfélaganna, líkt og gert var við grunnskólann og málefni fatlaðra. Þetta sagði ráðherrann á norrænni ráðstefnu sem var haldin fyrir helgina í Reykjavík. Hún lagði áherslu á að ekki ætti að skoða fjölgun aldraðra sem vandamál, heldur staðreynd. Sinna þyrfti stefnumótun sem tæki mið af staðreyndum og raunhæfum tækifærum. „Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda, sama hver veitir hana“ sagði ráðherra meðal annars.

Fæstir eldri borgarar í Mosfellsbæ

Sveitarfélögin í landinu eru mjög mismunandi í stakk búin til að taka við málefnum aldraðra af ríkinu, að því er fram kom á annarri ráðstefnu fyrir tæpu ári, sem var haldin í Háskóla Íslands. Þannig er aldursdreifingin í sveitarfélögunum mismunandi og á höfuðborgarsvæðinu sker Seltjarnarnes sig úr, með hæst hlutfall íbúa yfir 67 ára aldri, eða um 14%.   Á eftir Seltjarnarnesi kemur Garðabær og síðan Reykjavík með rúmlega 11%. Mosfellsbær er með lægsta hlutfall íbúa á þessum aldri eða rúmlega 7%. Ef teknir eru íbúar 85 ára og eldri eru þeir flestir í Reykjavík eða um 2% íbúa, næst flestir á Seltjarnarnesi, en fæstir í Mosfellsbæ, þar sem þeir eru um hálft prósent.

Stórauka þarf fyrirbyggjandi þjónustu

Á ráðstefnunni í HÍ sagði Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir, að sveitarfélögin yrðu að móta sér stefnu í málefnum aldraðra og leggja meiri áherslu á sjálfstæða búsetu en stofnanir. Þá þyrfti að stórauka fyrirbyggjandi þjónustu á sviði endurhæfingar, líkamsræktar og heilbrigðisþjónustu. Hann sagði að eldri borgarar á höfuðborgarsvæðinu væru um 22.000.

Nærþjónustan í sveitarfélögunum

Félags- og húsnæðismálaráðherra segist þeirrar skoðunar að flytja eigi ábyrgð á þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna sem þegar hafi sýnt hvers þau eru megnug við yfirtöku ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk og á grunnskólanum. Nærþjónustan eigi að vera hjá sveitarfélögunum og besta samþættingin á sviði öldrunarþjónustu felist í því að reka þjónustuna á einni hendi. Þessi tilvitnun í ráðherrann er af vef ráðuneytisins.

Ritstjórn október 6, 2014 16:38