Búin að gifta þrjár dætur

„Fyrst og fremst vill maður að dætrunum líði vel og að makarnir séu góðir menn sem hugsa vel um sitt“, segja þau hjónin Hjalti Már Hjaltason og Hjördís Jóna Sigvaldadóttir, en elsta dóttir þeirra Anna gifti sig í byrjun júlí. Yngri dæturnar eru líka báðar giftar. Anna sem býr ásamt eiginmanni sínum Ágústi Jóhannssyni í Noregi, hafði skipulagt allt brúðkaupið sjálf að sögn Hjördísar. Engu að síður er í mörg horn að líta hjá foreldrum þegar börnin ganga í það heilaga.

Brúðhjónin voru glæsileg

Brúðhjónin voru glæsileg

Móðir brúðarinnar keypti sér skó og kjól

„Þetta lendir kannski meira á mæðrunum og systrunum“, segir Hjalti. „Það er verið að pæla í skóm, kjól og slíku. Ég fylgdist minna með því en þær“. Hjördís bendir á að hann hafi séð um alla tónlistina í brúðkaupinu „Þú skipulagðir sönginn og fékkst hljóðfæraleikarana“, segir hún. Varðandi klæðnaðinn, þá er það ekki eingöngu brúðarparið sem vill skarta sínu besta. Hjördís segist hafa keypt sér nýjan kjól og skó fyrir brúðkaupið en Hjalti ákvað að vera í jakkafötum, í stíl við bæði brúðgumann og svaramanninn. „Mér fannst að ég myndi skera mig úr í kjólfötum eða smóking“, segir hann.

Hjálpuðust að með baksturinn

Þetta var ekki íburðarmikið brúðkaup. Þau Anna og Ágúst sem bæði hafa áður verið í samböndum, vildu hafa það látlaust og halda fjölskylduboð. Þær hjálpuðust að við að baka fyrir veisluna, móðir brúðarinnar, systur, tengdamóðir og amma. „Það eina sem var keypt var brúðartertan“, segir Hjördís. En það eru hægt heimatökin með að halda veislur í fjölskyldunni, þar sem tveir tengdasynir þeirra hjóna eru kokkar. Þetta var því heimagert.

Brúðarkjóllinn kostaði 8000 krónur

Anna var í mjög fallegum brúðarkjól sem var keyptur hjá kínversku vefversluninni Ali Express. Hann kostaði bara 8000 krónur, en fyrst var hún að hugsa um að leigja sér kjól fyrir brúðkaupið. Það kostaði hins vegar milli 60 og 80.000 krónur. Hún ákvað því að taka sénsinn á að kaupa kjólinn á vefnum. Það þurfti að breyta honum örlítið og það kostaði 5000 krónur. Hjördís segir að Önnu hafi ekki líkað slörið sem fylgdi kjólnum og hafi fengið slör að láni hjá yngstu systur sinni. Veislan var svo haldin í Safnaðarheimili Kópavogskirkju.

Sunna Líf spilaði á fiðlu í brúðkaupinu

Sunna Líf spilaði á fiðlu í brúðkaupinu

Styður börnin

„Þetta var fyrst og fremst alveg rosalega gaman“ segir Hjalti, „og allir glaðir og sáttir“. Hann segir að brúðhjónin nýbökuðu hafi bæði komið úr öðrum samböndum og séu ákaflega hamingjusöm í dag. Þetta var öðruvísi en brúðkaup fyrri dætranna, þau voru formlegri og líka fleiri gestir. Þau eru sammála um að auðvitað styðji maður börnin sín í því sem þau vilja þegar þau giftast „Nema maður sjái að þetta sé alger vitleysingur“, segir Hjalti og hlær. Hann segir að þau séu ótrúlega heppin. „Þeim gengur öllum vel, þau eru hamingjusöm og allir eru heilbrigðir“, segir hann.

Verður ekki táningur alltaf

Eitt barnabarnanna, Sunna Líf Kristjánsdóttir spilaði brúðarmarsinn á fiðlu, en hún er 16 ára. Faðir hennar og tengdasonur Hjalta og Hjördísar tók svo myndirnar í brúðkaupinu. Hjalti hélt ræðu og segir að í þessu tilviki hafi hann óskað börnunum til hamingju með foreldrana! En hann lagði áherslu á mikilvægi þess í hjónabandi að hugsa vel um sitt, vera trúr sjálfum sér og virða hvort annað. Segja „við“ ætlum að gera hlutina en ekki „ég“ ætla að gera þetta. „Mér finnst hjónabandið þannig að þar eigi að vera virðing og væntumþykja í fyrirrúmi“, segir hann. „Það er ekki alltaf auðvelt að vera giftur, en skemmtilegu stundirnar eru fleiri og maður verður víst ekki táningur alla tíð“.

Hver borgar brúðkaupið

En hver borgar brúsann? Eitt sinn var talað um þá gömlu hefð að faðir brúðarinnar sæi um það? Það er trúlega ekki lengur í gildi. En vissulega er misjafnlega mikið við haft í brúðkaupum og kostnaður ákaflega mismunandi. Margir foreldrar reyna að hjálpa til við kostnaðinn. Þannig gáfu Hjalti Már og Hjördís dóttur sinni og tengdasyni peninga í brúðargjöf og borguðu fyrir tónlistaratriðin.

Hjalti og Hjördís með dætrum, tengdasonum og barnabörnum á brúðkaupsdaginn

Hjalti og Hjördís með dætrum, tengdasonum og barnabörnum á brúðkaupsdaginn

Ritstjórn júlí 17, 2015 09:00