Byltuvörn, alvöru heilsuefling sem sparar háar fjárhæðir

Gífurlegur samfélagslegur kostnaður er af hverri byltu

Kristin Gunda Vigfúsdóttir.

Kirstín Gunda Vigfúsdóttir er sjúkraþjálfari með meistaranám í Heilsuhagfræði og var að vinna sem fjármálaráðgjafi á Landspítalanum þegar áhugi hennar á málefninu vaknaði því hún kom auga á að byltur höfðu marga snertifleti við starfsemina. Kristín starfaði á endurhæfingasviði og fór að velta fyrir sér hvað væri hægt að gera meira til að minnka þennan kostnað sem myndi einnig hafa í för með sér miklu meiri vellíðan margra, sem skipti mestu máli. Þá var verið að efla heimaþjónustu mikið en á sama tíma hafði orðið sprenging í fjölda aldraðra. ,,Mér þótti augljóst að hér var þörf á nýrri nálgun,“ segir Kristín Gunda.

Einn af hverjum þremur sextíu og fimm ára og eldri dettur 

,,Afleiðingar byltu geta verið mjaðmagrindarbrot og andlát en þær eru einnig oft vægari“ segir Kristín. ,,Sá sem dettur verður gjarnan hræddur og hreyfir sig þá þar af leiðandi minna. Þá verður hann slappari og þar með eykst hætta á fleiri og jafnvel alvarlegri byltum. Þannig myndast vítahringur sem er hægt að rjúfa og jafnvel komast hjá,“ fullyrðir hún.

Byltur algengasta skráða atvikið 2020 

,,Ávinningurinn af því að koma í veg fyrir byltur er gífurlega mikill og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi æfinga til að koma í veg fyrir byltur,“ segir Íris Marelsdóttir en hún hefur unnið með Kristínu að byltuvarnarverkefninu. Íris er sjúkraþjálfari með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun. Hún og bætir við að árið 2020 hafi byltur verið  algengasta skráða atvikið á öllum heilbrigðisstofnunum landsins samkvæmt ársskýrslu embættis Landlæknis. ,,Hver einasta bylta hefur síðan svo miklar afleiðingar og áframhaldandi vanlíðan að auðvitað er ekki skynsamlegt að reyna ekki að koma í veg fyrir þær,“ segja  þær í kór.“

Styrktar- og jafnvægisæfingar 

,,Til eru aðferðir sem miða að því að fækka byltum. Það er gagnreynd þekking að vel sniðið styrktar og jafnvægisþjálfunar programm fækkar byltum og styðjumst við hér við eitt slíkt prógramm.  Rannsóknir hafa sýnt fram á umtalsverða fækkun byltna í kjölfar slíkra æfinga.  Það þarf því gjarnan lítið inngrip til að skila miklum árangri. Við höfum jafnvægis- og færnimælt fólkið fyrir og eftir æfingatímabil og munurinn er sannarlega mikill og mælanlegur,“ segir Kristín.

Heilsuefling aldraðra virkar

Erum eins gömul eða ung og andlegt ástand býður.

Íris hefur verið að velta sér mikið upp úr heilsueflingu aldraðra. ,,Fólk þarf að átta sig á því að þessar æfingar eru að virka,“ segi hún. ,,Undirstaðan undir heilsu okkar, ekki síst þegar við förum að eldast, er svefninn, hreyfingin og næringin. Þetta þrennt er alger forsenda þess að fólki geti liðið vel þegar aldurinn færist yfir. Svo er einmanaleikinn stór þáttur en við ráðumst líka á hann í þessu verkefni því æfingarnar eru gerðar í hóp. Eftir æfingarnar er sest niður og spjallað svo félagslegi þátturinn fær sitt pláss.“

Finnarnir stofnuðu sérstakt öldrunarráðuneyti

,,Fyrirmyndin er fengin frá Finnlandi en þar í landi tóku menn þessa vinnu alla leið og stofnuðu sérstakt öldrunarráðuneyti þar sem  öldrunarráðherra ræður ríkjum. Þeir tóku fyrir tvö mál sem eru hreyfingin með styrk og jafnvægi í fyrirrúmi og svo einmanaleikann. Þeir búa til hópa eins og við erum að vinna að og búa til samskonar hópa í öllum sveitarfélögum. Við notum félagsmiðstöðvarnar í Reykjavík og hvetjum fólk til að koma þangað í jafnvægisæfingar og setjast í kaffi og spila og spjalla eftir á. Þar með erum við að saxa á hreyfinguna og félagslegu einangrunina sem margir lenda í. Síðan er svo gaman að sjá hvernig þau styðja hvert annað í þessum hópum. Þar myndast góð menning og tengsl milli fólks og svo kostar þetta ekkert.“  

Íris segir að Finnarnir hafi farið þá leið að þeir hafi búið til stöður fyrir virkniþjálfa sem Reykjavíkurborg hefur nú gert líka. Virkniþjálfar sjá um að virkja fólki í daglegu lífi. Á félagsmiðstöðvum eiga t.d. allir að hjálpa til sjálfir. Það á ekki að mata fólk að neinu leiti, allir taka þátt.

Svo er auðvitað draumur okkar að svona hópar verði sjálfbærir og hópeflið haldi áfram um allt land. Við streymum á milli félagsmiðstöðva þannig að ég er stödd á einum stað og streymi yfir í annan,“ segir Kristín. ,,Þannig hitti ég hópana í annað hvert skipti. Svo bíðum við auðvitað eftir því að tæknin leyfi okkur að streyma yfir í fleiri félagsmiðstöðvar í einu. Þannig værum við búnar að hámarka nýtingu á einum sjúkraþjálfara,“ segja þær og brosa en um þessar mundir er gífurleg vöntun á sjúkraþjálfurum sem þær segja að komi fyrst og fremst til vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar.

Samþættum alla sjúkraþjálfun

Heimasjúkraþjálfun er ríkið en öll önnur þjálfun er sveitarfélagið en Reykjavík er eina sveitarfélagið þar sem búið er að sameina velferðar- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum. Það hafa önnur sveitarfélög ekki gert. ,,Nú erum við að reyna að samþætta alla sjúkraþjálfun sem rekin er saman við þjónustu sveitarfélaganna. Þannig færi kúnninn bara á einn stað og fengi þar alla þjónustu. Þannig væri brúað bilið þegar sjúklingur útskrifast af sjúkrahúsi og bíður eftir þjónustu. Sveitarfélagið  útvegar heimahjúkrun og svo þarf að bíða eftir heimasjúkraþjálfaranum sem er á ábyrgð sveitarfélagsins og þú þarft sjálfur að reka á eftir. Það væri svo miklu meira vit í að þetta væri allt undir einum hatti og heimasjúkraþjálfarinn væri tengdur við heimahjúkrunina.“

Sjúkraþjálfarar af skornum skammti 

Þær Kristín Gunda og Íris segja að sjúkraþjálfarar séu því miður af skornum skammti því þörfin fyrir þá aukist svo hratt. Heimasjúkraþjálfarar eru sjálfstætt starfandi en Reykjavík vinnur að betri samþættingu á allri heimsendri heilbrigðisþjónustu í samstarfi við SÍ og Félag heimasjúkraþjálfara.

,,Við sjáum þetta úrræði, að vera með æfingar á heimavelli eldra fólks eða í þjónustumiðstöðvum, geti bæði gripið fólk sem er í fallhættu og tekið við fólki eftir útskrift hjá öðrum meðferðaraðilum. Þá grípur þessi hópur þá sem eru að útskrifast og þeir halda áfram í hópæfingum á sínum heimavelli. Á meðan fólk er t.d. á Landakoti er gjarnan unnið markvisst með jafnvægi en þegar það kemur heim er allt upp í þriggja mánaða bið eftir sjúkraþjálfun og fólk situr þá gjarna heima í stól. Þá lendir það á vondum stað að óþörfu.“

Kristín Gunda segir að það sé gaman að segja frá því að gamla fólkinu þyki skrýtið að sjá sjúkraþjálfarann yfir netið en að flestir séu samt ótrúlega fljótir að venjast tækninni. ,,Við gerum þessar æfingar þrisvar í viku því það er forsenda þess að árangur náist. Þetta sama fólk myndi ekki fara út í bæ í þjálfun þrisvar í viku. Við náum á þennan hátt þeim sem kæmust annars ekki í þessar mikilvægu æfingar.“

Eftir 80 ára verður sprenging á þörfinni fyrir aðstoð en með slíkri þjálfun má stemma stigu við þeirri óheillaþróun á meðan biðlistinn eftir heimasjúkraþjálfun er nú 2-3 mánuðir.

Alvöru heilsuefling í stað dýrasta úrræðisins

,,Heilbrigðisyfirvöld hafa allt of mikið einblínt á hvað á að gera þegar fólk hefur þegar dottið,“ segja þær. ,,Við erum að benda á hvernig við getum minnkað líkur á byltum til að byrja með.  Það er alvöru heilsuefling.“

Árangur af æfingum af 10 mínútna göngupróf er gífurlegur og metur athafnagetu aldraðra og hefur forspárgildi um almennt ástand og afdrif þeirra. Minni gönguhraði tengist aukinni hættu á að viðkomandi geti ekki framkvæmt ýmsar athafnir daglegs lífs og auk þess spáð fyrir um sjúkrahúsinnlagnir, byltur og andlát. Bæting um 0,1 hefur mikilvæga klíníska þýðingu.

Vítahringur hreyfingarleysis

Þær Kristín og Íris segja að markmiðið sé auðvitað að ná til alls landsins en einhvers staðar verði að byrja. Því miður nái verkefnið ennþá aðeins til Reykavíkur.

Kristín Gunda hefur áhuga á að gera kostnaðarábatagreiningu á svona verkefni eins og þær eru að kynna. ,,Það væri mikil vinna en mjög áhugavert að sýna svart á hvítu ábatann af inngripi eins og við erum að kynna,“ segir Kristín Gunda að lokum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn september 16, 2022 07:31