Tengdar greinar

Dauðinn á Facebook

Maríanna Friðjónsdóttir, stafrænn flækingur og fjölmiðlari skrifar

Lífið vill stundum hrannast upp og við sitjum inni með allskonar sem þarf að leysa úr og taka til í. Eitt af því sem þarf að huga að við andlát, er hvað á að gera til dæmis við Facebook síðu hins látna.  Hér er ætlunin að fara yfir það hvernig hægt er að undirbúa dauðann á Facebook. Aðrir samfélagsmiðlar, eins og Twitter bjóða einnig uppá „dauðahreinsun“ af einhverju tagi.

Sænska dauðhreinsunin er ein þeirra leiða sem er fær til að hreinsa efnið sitt út af Facebook, en um það hefur meðal annars verið skrifuð bók, sem hægt er að finna á þessari slóð. Afar athyglisverð leið fyrir þá sem vilja hafa allt á hreinu en það er önnur saga.

Í grófum dráttum getum við skipt dauðahreinsun FB upp í tvær leiðir. Sú fyrri leggur framkvæmdina þungt á herðar eftirlifanda og gengur því næstum þvert á hugmyndafræði Sænsku dauðahreinsunarinnar. Það má því jafna þeirri stöðu við að aðstandendur sitji uppi með allskonar dót, sem enginn vill eða getur nýtt. Og það er eins og við vitum, bein ávísun á ergelsi og pirring. Ekki góð arfleifð.

Hin leiðin myndi áreiðanlega flokkast með fyrirhyggju og það er sú leið sem við skoðum hér og gengur hreinlega út á það að velta fyrir sér hvað verður um Facebook reikninginn þinn þegar þú ert farin. Því þegar Facebook-notandi deyr, er hægt að breyta reikningum annað hvort í minningareikning eða eyða alfarið. Með fyrirhyggju kemur þú þér upp tengilið, sem tryggir að viðvera þín á netinu séð meðhöndluð í samræmi við óskir þínar, veitir þér hugarró og að starfræn arfleifð þín verði varðveitt eða lokað með reisn. Og það án þess að aðstandendur hafni í stórfelldum, víðkunnum Facebook vandræðum.

Þegar við deyjum frá ófrágengnum FB-prófíl geta eftirlifendur að sjálfsögðu haft samband við Facebook og beðið um að síðan breytist í minningarsíðu eða að Facebook síðan verði þurrkuð út. Til að framkvæma beiðnina þarf að töfra fram alls kyns skjöl frá opinberum aðilum, þar sem Facebook er ekki beintengt við skrifstofu Sýslumanns og slíkt krefst í mörgum tilvikum afar tímafreks umstangs. Hér er hlekkur á þær leiðbeiningar.

Einfalda leiðin er hins vegar að gefa afkomanda færi á að ganga í málið þegar þar að kemur með auðveldari og fyrirfram gefnum aðgangi, þar sem í flestum tilvikum þarf einungis að framvísa dánarvottorði í gegnum netið. Þetta er aðferð sem flestum ætti að hugnast, því varla er nokkuð leiðinlegra eftir dauðann en að vita af fólkinu sínu í tómu tjóni með alls konar frágang, þar á meðal stafrænar tiltektir.

Neðangreinda aðgerð er best að framkvæma á tölvu og eru skjámyndirnar og leiðbeiningar miðaðar við slíkt tæki.

Setja upp tengilið

Fyrsta mál er að fara inn á Facebook og horfa á litlu myndina af þér, efst uppi til hægri. Smella á hana.

Það gildir einu hvort þú ferð inn á síðuna með fréttastreyminu þínu eða þá síðu sem gengur undir nafninu forsíða – og með forsíðumynd. Það er litla myndin af þér uppi til hægri, sem geymir aðgang að stillingum á fjesinu þínu.

 

Þegar þú smellir á myndina, sérðu fellilista, þar sem “Stillingar og friðhelgi” er fyrsti áfangastaður. Smelltu þar og þá færðu næsta fellilista með “Stillingar” efst á listanum. Þú smellir á “Stillingar”.

Þá blasir við fyrirsögnin “General profile settings” eða “Almennar stillingar” (Facebook er ekki 100% þýdd á ylhýra) og hér sérðu í þriðju línu “Memorialization settings” sem beinir þér í aðgerðina sem ákveður hvað þú vilt að gerist með Facebook síðuna þína eftir þinn dag. Hér smellirðu á “Breyta”.

Þú skrifar inn nafn þess aðstandanda eða vinar sem er með Facebook aðgang og gefur viðkomandi þar með leyfi til að sýsla með bókina þína þegar þar að kemur. Þú smellir í “leyfi samsömum gagna” til að leyfa tengiliðnum þínum að nálgast aðgengilegt efni eins og t.d. myndir og myndbönd.

Þegar þú hefur bætt við tengiliðnum er mikilvægt að upplýsa viðkomandi um nýja ábyrgð. Þú getur valið að senda persónuleg skilaboð eða nota fyrirfram skrifaða tilkynningu Facebook til að láta vita af nýju hlutverki.

Aðgangur að prófíl látins einstaklings og ábyrgð tengiliðar

Tengiliður getur beðið um að prófíl sé breytt í minningarsíðu eða eytt. Facebook gæti krafist dánarvottorðs, minningargreinar eða álíka til að staðafesta látið. Að staðfestingu lokinni mun tengiliður, þar sem hann er fyrirfram skráður, fá takmarkaðan aðgang að síðu þess látna. Tengiliður getur sótt myndir og myndbönd en getur til dæmis ekki lesið skilaboð á Messenger.

Ef sú leið er valin að gera minningarsíðu, þá varðveitir sú síða minningar og getur veitt huggun. Minninga reikningur býður upp á nokkra kosti og veitir stafrænt rými fyrir vini og fjölskyldu sem geta deilt samúðarkveðjum, minningum og myndum. Minninga merktar síður eru öryggistryggðar og upplýsingar hins látna eru áfram verndaðar. Tengiliður getur uppfært forsíðumynd hins látna og svarað nýjum vinabeiðnum. En ekki er hægt að fjarlægja gamla vini.

Að kveðja alfarið stafræna viðveru

Hafi látinn einstaklingur lýst því yfir að eyða skuli Facebook reikningnum þegar þar að kemur, getur tengiliður óskað eftir því að FB síðunni verði eytt. Meðal kosta þess má nefna persónuverndar sjónarmið, því með því að eyða Facebook reikningnum er það tryggt að persónulegar upplýsingar og efni sé varanlega eytt af vefþjónum Meta. Hins vegar hverfur þetta efni þá líka alfarið úr leitarvélum. Í sumum tilvikum getur slíkt þó dregið úr stafrænni ringulreið og getur einnig auðveldað ástvinum að stjórna viðveru þess látna á netinu.

Tiltekt eða ekki tiltekt

Við höldum ef til vill dauðahaldi í allskonar dót og þar á meðal lykilorð (sem stundum liggja líka á víð og dreif) ásamt aðgöngum að rafrænum miðlum.

Einhvers staðar í undirvitundinni erum við ef til vill með þessari óreiðu að gæla við þá hugmynd að við getum tekið þetta með okkur í gröfina, kannski í stíl við forna víkinga, sem þrælar og hestvagnar fylgdu oft undir torfu. En þannig virkar þetta ekki. Það vitum við nú. Þegar upp er staðið er óreiða í stafræna heiminum ekki síðri en óreiðan í geymslunni, sem blasir við þeim sem við elskum mest. Þau reita hár sitt og þurfa að leggja ómældan tíma á sig til að sinna verki, sem við getum svo auðveldlega sjálf gengið í hér og nú! Nú veistu betur. Láttu því ekki kylfu ráða kasti um stafrænt líf þitt eftir dauðann.

Ritstjórn apríl 27, 2023 07:00