„Það er til fólk sem fjárfestir í demöntum. Þeir eru taldir trygg fjárfesting. Þeir hækka stöðugt í verði,“ segir Sigurður Steinþórsson, gullsmiður. Hann segir að þegar fólk er að hugsa um að fjárfesta í demöntum eigi það að kaupa steina með engri umgjörð eða sem minnstri. Demantar eru vermætir vegna þess að þeir eru sjaldgæfir. Talið er að einungis hafi fundist um 500 tonn af demöntum á jörðinni. Talið er að einungis um tuttugu prósent af þeim demöntum sem grafnir eru úr jörðu sé notaðir í skart, hin áttatíu prósentin eru notuð í iðnaðar- og hergagnaframleiðslu. Hinn fullkomni demantur er kristalstær og þar af leiðandi mikil gersemi.
Auðvelt að láta blekkjast
Sigurður segir að það sé nokkuð um að fólk byrji á að kaupa sér til dæmis hringa með litum demöntum og skipti þeim svo upp í stærri demanta þegar fram líða stundir. Hann segir að oft treysti fólk um of á erlenda skartgripasala við kaup demantsmunum, sem síðan reynist lélegir að gæðum. Sigurður segir að fólk hafi komið með demant til hans sem það hafi keypt á aðra milljón króna en þegar nánar var að gáð var raunverulegt vermæti steinsins einungis um 150 þúsund krónur. Verðmæti demanta ræðst af fjórum þáttum, í daglegu tali kallað c-in fjögur. Carat, colour, clarity og cut. Á íslensku útleggst þetta sem þyngd, litur, hreinleiki og slípun.
C-in fjögur
Karat (vigt) er mælieining fyrir demanta. Eitt karat jafngildir 0,2 grömmum. í einu karati eru svokallaðir 100 punktar og er demantur sem er til dæmis O,10 karöt 1/10 úr karati. Demantur sem er eitt karat er miklu dýrari en tveir demantar sem eru 0,50 karöt hvor, sem þýðir með öðrum orðum að stærðin í einum steini í heild sinni er mun verðmætari en í tveimur jafnstórum. Liturinn skiptir og miklu máli. Demantar eru oftast hvítir en þeir finnast í öllum regnbogans litum. Þeir sem hafa greinilega liti, eins og til dæmis gulan, bláan og rósrauðan lit, eru mjög sjaldgæfir og verða af þeim sökum yfirleitt safngripir, fremur en þeir séu notaðir í skartgripi. Demantar, sem notaðir eru í skartgripi, eru oftast „hvítir“, það er að segja kristalstærir.
Í öllum regnbogans litum
Demantar sem kallast „bláhvítir“ eru alveg gegnsæir og litlausir og frekar sjaldgæfir og dýrir eftir því. Vel slípaðir demantar glitra í öllum regnbogans litum og endurkasta þeim litum sem eru í kringum þá. Hreinleiki: Til að demantur teljist fyrsta flokks þarf hann að vera kristalstær. Þar sem demantar eru náttúruefni finnast engir tveir eins. í þeim flestum finnast minni háttar blettir sem athugaðir eru gaumgæfilega þegar demanturinn er flokkaður eftir hreinleika. „Lúpuhreinn“ er demantur þegar ekki er hægt að sjá neinn galla í honum með lúpu sem stækkar tíu sinnum. Slíkir steinar eru mjög sjaldgæfir. Slípun: Hún er eitt mesta nákvæmnisverkið í demantavinnslunni enda er hér um að ræða heimsins harðasta efni. I hverjum steini er ákveðin fegurð sem slípararnir reyna að ná fram, jafnframt verða þeir að reyna að slípa sem minnst af demantinum til að hann haldi sem mestri þyngd, sem er einn þátturinn í verðgildi hans.
Frægir demantar
Hver man ekki eftir demantinum sem Richard Burton gaf Elizabet Taylor á velmektardögum þeirra hjóna. Sá demantur fannst árið 1966 og vó þá 240,8 karöt. Hann var slípaður í dropaform sem er ein gerð af brilliant slípun. Að slípun lokinni vó hann 62,42 karöt. Hann var seldur á uppboði í New York árið 1969 á rúma milljón dollara. Stuttu síðar keypti Burton þennan demant og gaf Elízabetu og eftir það fékk hann viðurnefnið Burton/Taylor demanturinn.
Tæp áttahundruð karöt
Fleiri demantar hafa komist á spjöld sögunnar. Þar má fyrstan telja Mogul steininn sem fannst á Indlandi í kringum 1650. Sagan segir að hann hafi vegið 787 karöt þegar hann fannst en þegar búið var að slípa hann til var hann orðinn að 280 karötum. Þessi steinn hefur ekki sést í tugi ára og enginn veit afdrif hans með vissu en að öllum líkindum hefur hann verið bútaður niður í smærri einingar. Kohlinor steinninn á sér lengsta þekkta sögu af öllum frægum demöntum. Hans er fyrst getið í heimildum árið 1304 en þá komst Sult Aladdin yfir Kohlinor steininn hjá kónginum í Malowa en steinninn hafði verið í eigu ættar hans um ómunatíð. Eftir það skipti Kohlinor margoft um eigendur en hafnaði loks á Bretlandi rétt fyrir miðja nítjándu öld.
Í eigu bresku konungsfjölsyldunnar
Þegar hann kom til Bretlands vó hann 191 karöt en var endurslípaður í London og eftir það vigtaði hann ekki nema 108 karöt og er nú í eigu Elísabetar Englandsdrottningar. Í dag leiða menn getum að því að hann sé hluti af hinum indverska Mogul. Að lokum má minnast á Cullinan demantinn sem fannst árið 1905 í Suður-Afríku. Cullinan demanturinn vó 3,106 karöt þegar hann fannst, honum var skipt í níu minni demanta, stærsta brotið vó 530,20 karöt. Þessir einstæðu demantar tilheyra nú bresku konungsfjölskyldunni.
https://www.youtube.com/watch?v=eL7ETLLkQTY